Miðvikudagur 18. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Tímarit sem fyllir börn eldmóði, áhuga og gleði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ágústa Margrét Arnardóttir, búsett á Djúpavogi, er ritstjóri HVAÐ, nýs barna- og ungmennatímarits sem kom út í fyrsta sinn í byrjun júní 2019. Lögð er áhersla á efni fyrir lesendur á aldrinum 8-18 ára þótt efnið höfði til lesenda á öllum aldri.

 

„Mér datt aldrei í hug að ég myndi einhvern tíma gefa út barna- og ungmennatímarit, en ég er gríðarlega hugmyndarík, hvatvís og ofvirk þannig að líf mitt kemur mér alltaf á óvart,“ segir Ágústa þegar hún er spurð um tilurð þess að hún hóf tímaritaútgáfu. „Ég tók eftir því fyrst fyrir um sex árum að það væri vöntun á hvetjandi og eflandi tímaritum fyrir börn, öðru hvoru hugsaði ég svo að þetta og hitt væri sniðugt í þannig blað. Ég kláraði svo mitt fimmta fæðingarorlof í septmeber í fyrra og ákvað að prófa þetta bara.“

HVAÐ er fjölbreytt tímarit og í það skrifa um fjörutíu einstaklingar á öllum aldri, pistla, uppskriftir, sögur, viðtöl og fleira. „Það er mikið um innsent efni frá börnum sem eru að kynna sín áhugamál, sín svæði og fleira fyrir lesendum en eldri pistlahöfundar skrifa sína pistla með „hvað myndi ég vilja segja mér þegar ég var 8-18 ára“. Þetta eru hvetjandi pistlar um til dæmis vináttu, líkamsímynd og mikilvægi þess að virða og elska sig sjálf og margt fleira sem og upplýsandi pistlar um kynfæri, fjármál, tískuljósmyndir og hvernig á að baka túnfífla, svo fátt eitt sé nefnt.“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt

Ágústa stofnaði hönnunar- og framleiðslufyrirtækið Arfleifð þegar fyrsta barnið hennar og mannsins hennar sem er sjómaður var sex mánaða, svo eignuðust þau þrjú börn á þremur árum. „Ég reyndi mitt allra besta við að reka fyrirtækið, sinna börnum, heimili og lífinu, að miklu leyti ein. Þetta var nokkurra ára rússíbani sem endaði með að ég hrundi andlega og líkamlega. Eftir á að hyggja var þetta þrot sem ég komst í mun alvarlegra en ég gerði mér grein fyrir því eftirköstin eru enn. Ég hef ekki sama úthald, orku og getu og ég hafði. Ég þurfti að breyta algjörlega um lífsstíl, ég hætti að drekka, fékk ADHD-greiningu og samkvæmt læknisráði átti ég að láta viðburði og stór verkefni á pásu,“ segir Ágústa. „Ég þurfti í raun að læra að lifa upp á nýtt, sætta mig við alls konar, fara í gegnum fortíðina, endurskipuleggja framtíðina og læra að lifa í núinu. Það má segja að þetta ferli hafi ekki síst verið kveikjan að HVAÐ. Ég hef lesið svo margt uppbyggilegt og merkilegt, er að læra markþjálfun og ætla mér að vinna við að hvetja fólk. Úr því að ég gat fundið hugarró, sátt og innihaldsríkara líf þá geta það allir.“

„Ég þurfti í raun að læra að lifa upp á nýtt, sætta sig við alls konar, fara í gegnum fortíðina, endurskipuleggja framtíðina og læra að lifa í núinu.“

Hún segir að í nútímasamfélagi sé allt of mikill hraði, neysluhyggja, yfirborðskennd, viðmiðun og vonbrigði, bæði hjá fullorðnum og börnum. „Börn verða fyrir stanslausu áreiti á öllum miðlum, bíómyndum, auglýsingum, inni á heimilum, í skólum og samfélaginu öllu. Kvíði, streita og vanlíðan er að aukast hjá börnum og ég var þannig barn – mér leið oft illa. Ég var „vandræðaunglingur“, byrjaði að drekka á þrettánda ári til að fylla í eitthvað tóm og flýja raunveruleikann. Ég skammaðist mín fyrir svo margt, bar enga virðingu fyrir mér eða öðrum. Ég eyðilagði hluti, sambönd og mig sjálfa. Þetta var allt sprottið út frá vanlíðan og of lítilli trú á sjálfa mig,“ segir Ágústa.

- Auglýsing -

Fylgdi syni sínum í skólanum allan daginn í fjóra mánuði

Í þessu fyrsta tölublaði HVAÐ er ítarlegt viðtal við Heiðar Loga Elíasson, brimbrettakappa með meiru. „Jákvæðni hans, kraftur og eldmóður urðu mér innblástur fyrir nokkrum árum, þegar hann var um tvítugt og ég um 35 ára þriggja barna móðir að takast á við þrotið mitt. Ég tók hann mér til fyrirmyndar og nú er ég orðin fertug og fimm barna móðir sem fer í blautgalla og hoppar í sjóinn, ár og vötn til að tengjast náttúrunni og skemmta sér. Þetta er eitthvað sem ég gerði aldrei en langaði alltaf. Af einhverjum ástæðum var ég búin að búa mér til allt of mikið af hindrunum og hafði afsakanir fyrir öllu. Stærstu afsakanir mínar voru að ég ætti of mörg börn, of lítinn tíma, of lítinn pening og fleira. Fyrir tveimur árum var mér svo enn meira kippt inn í raunveruleikann. Sonur minn sem þá var í 3. bekk var í kolvitlausum farvegi. Hann sýndi alls konar hegðun sem benti til mikilla erfiðleika og vanlíðunar. Það var búið að prófa ýmsar aðferðir til að reyna að „láta“ hann haga sér betur og líða betur en ekkert breyttist, honum leið verr og verr, ef eitthvað.“

Ágústa ákvað að fara með honum í tvær til fjórar vikur í skólann til að reyna að sjá hvað „væri að honum“. Það endaði þannig að hún setti Arfleifð á pásu, droppaði öllu og mætti með honum í allar kennslustundir, frímínútur, tómstundir og fleira í tæplega fjóra mánuði „Ég sá ótrúlega vel að það var margt að hjá honum en ekki að honum. Við tók tveggja ára ferli til að finna hans farveg og vellíðan. Útivist, samvera, áhugamál, ástríða fyrir einhverju, leikur, hvatning, ábyrgð og fleira var partur af því sem gjörbreytti hans líðan og okkar allra. Því þegar barni, eða fullorðnum, líður illa hefur það áhrif á alla í kring. Það sem ég sá einnig var að það var líka svo ofboðslega margt að hjá mér, fjölskyldunni, skólanum og samfélaginu. Öll mín hugsun breyttist.“

- Auglýsing -
Öll fjölskyldan breytti um stefnu í lífinu fyrir nokkrum árum og tekur þátt í blaðaútgáfunni með Ágústu.

Eftir þetta snýst líf Ágústu og fjölskyldu um að finna farveg hvers og eins einstaklings í fjölskyldunni og fjölskyldunnar sem heildar. Þau fóru að stunda vatnasport, mun meiri útivist, flakk og ferðalög, breyttu kauphegðun og flæði inn á heimilið, fóru að safna upplifunum í stað eigna og svo ótal margt sem hefur skilað þeim vellíðan, hugarró og sátt.

1100 kílómetra ferðalag vel þess virði

Börn Ágústu eru með henni í blaðaútgáfunni. „Ég hannaði þessa útgáfu og allt sem fylgir út frá börnunum og fjölskyldunni. Þau skrifa öll eitthvað í blaðið og hafa verið að selja það hús úr húsi á landsbyggðinni. Ég fór einu sinni ein til Reykjavíkur að vinna að þessu en annars hafa þau komið með mér. Ég og Vigdís, elsta dóttir mín, keyrðum frá Djúpavogi til Reykjavíkur og til baka, alls 1100 kílómetra, til þess að hitta Heiðar Loga í þrjár klukkustundir. Það ferðalag var margfalt þess virði og magnað tækifæri að hitta og heyra sögu hans, sem er í 1. tölublaðinu. Ég er ritstjóri og skrifa í blaðið en mitt helsta verk var að fá efni frá öllum og setja það saman á einn aðgengilegan stað. Íris Ösp Sveinbjörnsdóttir er grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi HVAÐ. Fyrsta tölublaðið var í um níu mánuði í vinnslu og á lokasprettinum leið okkur eins og við værum að eignast barn saman. „Meðgangan“ gekk vel, við fórum fram yfir settan útgáfudag en eins og eðililegt er með fyrsta barn og lærðum alveg ólýsanlega mikið af þessu ölllu.“

Ágústa hefur horft mikið til tímaritanna ABC og Æskunnar sem vinsæl voru þegar hún var barn. „Ég sendi inn helling af sögum, teikningum og óskaði eftir pennavinum þegar ég var barn og þau fylltu mig innblæstri í þessari útgáfu. HVAÐ er vettvangur barna og ungmenna til að láta ljós sitt skína. Í stað plakata með tónlistarfólki og íþróttamönnum eru falleg og uppbyggileg kvót og heilræði sem sóma sér vel uppi á vegg í ramma. Og í stað krossgátna og þrauta eru hvetjandi verkefni, áskoranir og markmiðaeyðufyllingar sem gaman og gagnlegt er að fylla inn í. Þannig að þetta er svona nútímaútfærsla á þessum gömlu tímaritum í bland við brandara, leiki og lífið í landinu frá börnum og ungmennum.“

Vill sporna við skjátíma

Langflestir sem Ágústa talaði við í sambandi við HVAÐ hafa verið jákvæðir og til í að taka þátt. Ævar Þór, rithöfundur og vísindamaður, Alda Karen, Sölvi Tryggva, Pálína Ósk, Þorgrímur Þráins, Erna í Ernulandi, Ólafur Stefánsson, Fanney Þóris, Rakel Rán  og fleiri skrifa pistla. „Þetta er fólk sem vinnur við að hvetja og upplýsa. Þau vita að börn og ungmenni þurfa að fá upplýsingar beint í æð og þau höfðu trú á þessu hjá mér. Það er ómetanlegt. Ég vil með hefðbundinni prentútgáfu í stað netútgáfu reyna að sporna við skjátíma og mín hugsun er að ég verði að prófa þetta. Ég trúi því innilega að ef HVAÐ fær tækifæri, fær kynningu og verði aðgengilegt í verslunum þá muni það blómstra.“

Prentsmiðjan Oddi prentar blaðið og Ágústa segir að starfsfólkið þar hafi verið með eindæmum þolinmótt, ráðagott og dásamlegt í samskiptum.

„Það var markmið okkar allra að hafa þetta metnaðarfullt og faglegt. Við höfum fengið mikið hrós fyrir innihald, útlit, gæði, pappír, prentun og fleira. Það var ekkert mál að vinna þetta frá Djúpavogi, ekki síst af því að það var frábært fólk í hverju verki. Reynsla mín úr fyrri rekstri, menntun, námskeið og fleira hjálpaði mikið.“

Óskin er að blaðið ýti undir heilbrigði og heilindi, sjálfstæða hugsun, efli og hvetji lesendur til dáða.

Næst á dagskrá hjá fjölskyldunni er viðburður og sala á Humarhátíð á Hornafirði þar sem þau verða með sérstakt HVAD-svæði – skapandi og hvetjandi svæði þar sem innihald blaðsins er fært í raunveruleikann. Alls konar áskoranir, föndur og fleira. „HVAÐ er ekki bara tímarit, það er lífsstíll sem hvetur til samveru, útivistar og að njóta. Einnig verðum við með sölu á Lummudögum í Skagafirði. Við vonumst til að vera með sem mest af svona viðburðum og ýmis námskeið eru í bígerð fyrir veturinn. Markmið okkar með HVAÐ eru stór og falleg, ég er þó raunsæ og veit að í rekstri, og lífinu, getur allt gerst. Jafnaðargeð, þolinmæði og æðruleysi í bland við kæruleysi, hvatvísi og trú er nauðsynlegt veganesti í öllum verkefnum sem maður tekur sér fyrir hendur.“

Kemur út tvisvar á ári

Í loforði til lesenda og stefnu HVAÐ segir að óskin sé að þegar börn og ungmenni skoði blaðið finni þau fyrir eldmóði, áhuga og gleði og að HVAÐ ýti undir heilbrigði og heilindi, sjálfstæða hugsun, efli og hvetji lesendur til dáða. Í tímaritinu eru líka upplýsingar um staði sem börn og ungmenni geta leitað til – hjálparsími Rauða krossins, Bergið, SÁÁ og fleira. Blaðið mun koma út tvisvar á ári til að byrja með, í júní og nóvember, það er til sölu á heimasíðunni hvadtimarit.is, í barnavöruversluninni Hreiður í Kópavogi, verslunum Pennans, Nettó og Hagkaupa og kostar alls staðar 2.500 kr. HVAÐ er einnig á Facebook og Instagram undir Hvadtimarit.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -