Björginni, geðræktarmiðstöð Suðurnesja, hefur verið lokað eftir að einn notandinn greindist með COVID-19.
Verður geðræktarmiðstöðin höfð lokuð á meðan unnið er að sótthreinsun og hefur tíu öðrum skjólstæðingum hennar verið gert að fara í sóttkví. Greint er frá þessu á Facebook-síðu miðstöðvarinnar.
Smitið uppgötvaðist þegar fjölskyldumeðlimur viðkomandi greindist með COVID-19 þann 30. júní. Þá kom í ljós að notandinn var líka smitaður og í kjölfarið var ákveðið að grípa til fyrrnefndra aðgerða.
Stefnt er að því að opna geðræktarmiðstöðina Björgina á mánudag, eftir að sótthreinsun á húsnæðinu er lokið.