Í opinskáu forsíðuviðtali við Mannlíf talar Tobba Marinós um systur sína sem lést árið 2016. Tobba segir jólin erfiðan tíma fyrir fjölskyldur sem eru í sorg og hennar fjölskyldu enga undantekningu frá þeirri reglu.
„Við vorum fjögur systkinin,“ segir hún og það dimmir dálítið yfir henni. „Ég á bróður sem er þremur árum eldri en ég og litla systur sem er 25 ára og býr í Bretlandi. Ég er einmitt að flytja hana inn í þessari viku svo hún geti passað börnin á meðan við mamma erum hérna í granólaframleiðslunni því ég er auðvitað bara eins og sjómannskona í desember. Ég átti eina systur í viðbót, Regínu, sem var næstyngst, en hún lést í maí 2016.“
Það er auðheyrt að Tobba á erfitt með að tala um dauða systur sinnar, en hún varð bráðkvödd á heimili foreldra þeirra og það var Tobba sem kom að henni.
„Ég er eiginlega ekki komin á þann stað að geta rætt það,“ segir hún hreinskilnislega. „Þetta er eitthvað sem maður er enn þá að vinna úr og langt í það að ég geti mikið rætt það. En ég get sagt að síðan hún dó er lífið verra og verður verra og maður sjálfur verri. Það er eiginlega engin leið til að lýsa því, þetta er bara svarthol. Sumir dagar ganga betur en aðrir en stundum er maður alveg ónýtur. Mér finnst svo skrýtið hvað fólk virðist eiga erfitt með að skilja það. Ekkert mjög löngu eftir að systir mín dó var fólk farið að spyrja hvort mamma og pabbi væru eitthvað að koma til. Eins og þau hefðu fengið flensu. Það er alveg sturlað.“
Jólin eru erfiður tími fyrir fjölskyldur sem eru í sorg og Tobba segir sína fjölskyldu enga undantekningu frá þeirri reglu.
„Besta útskýringin sem ég hef séð á sorg var þegar Nick Cave, sem missti son sinn í hræðilegu slysi, sagði í viðtali að sorgin væri eins og teygja,“
segir hún. „Teygjan gefur mismikið eftir, stundum finnst manni að manni gangi bara ágætlega að díla við þetta og að nú sé maður kominn yfir erfiðasta hjallann, en svo er manni kippt til baka á byrjunarreit. Það er ekkert hægt að mæla sorg í mánuðum eða árum. Ég hef farið í sálfræðimeðferðir og svo framvegis og reynt að stytta mér leið eins og hægt er, en það virkar ekki. Foreldrar mínir hafa staðið sig ótrúlega vel og við reynum öll að hjálpast að við að komast í gegnum þetta, ekki síst á þessum tíma í kringum jólin.“
Lestu viðtalið við Tobbu í heild sinni í nýjasta Mannlífi.
Mynd / Hallur Karlsson
Förðun / Emilíanna Valdimarsdóttir förðunarfræðingur fyrir Urban Decay á Íslandi