Í opinskáu forsíðuviðtali við Mannlíf talar Tobba Marinós um fjölskylduráðgjöfina sem hún og eiginmaður hennar, Karl Sigurðsson, fóru í. Hún segir mikilvægt að leita sér aðstoðar þegar þörf krefur.
„Það er svo ótrúlegt hvað það er hægt að lappa upp á fólk sem lendir í erfiðleikum,“ segir hún. „Það á líka við um erfiðleika í sambandinu. Þegar við Kalli vorum búin að vera saman í tvö, þrjú ár gekk okkur mjög illa og margir hefðu bara sagt þetta gott, en þá ákváðum við að fara í fjölskylduráðgjöf og sambandið varð miklu betra eftir það. Ef maður hefur vit á að leita sér aðstoðar þá lagast hlutirnir oft. Ég fer til dæmis mjög reglulega til sálfræðings og viðurkenni alveg að ég þarf aðstoð við alls konar hluti. Strax og maður viðurkennir það og leitar sér hjálpar sér maður að hlutirnir geta orðið betri, eins og þegar gekk illa hjá okkur Kalla þá fannst mér mikið öryggi í því að sjá að það er hægt að laga hlutina. Það er svo óyfirstíganleg tilfinning sem fylgir því að halda að þetta verði bara alltaf svona, það lagist aldrei neitt.“
„…þegar gekk illa hjá okkur Kalla þá fannst mér mikið öryggi í því að sjá að það er hægt að laga hlutina.“
Tobba og Karl eru bæði landsþekktar persónur, er það ekki aukaálag á sambandið að vera í sviðsljósinu?“
„Já og nei,“ segir Tobba og skellir enn og aftur upp úr. „Kalli er bara frægur einn mánuð á ári og ég hef ekki gefið út bækur eða verið neitt í sjónvarpi upp á síðkastið þannig að þetta er farið að „feida“ allverulega út. Ég held að það sem mestu máli skiptir sé að við berum mikla virðingu hvort fyrir öðru og hjálpumst alltaf að og ræðum hlutina. Það hefur aldrei komið upp neitt vandamál í sambandi við frægðina.“
Lestu viðtalið við Tobbu í heild sinni í nýjasta Mannlífi.
Mynd / Hallur Karlsson
Förðun / Emilíanna Valdimarsdóttir förðunarfræðingur fyrir Urban Decay á Íslandi