Fimmtudagur 26. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Tók á móti barni í miðju matarboði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Eðvaldsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, hefur tekið á móti tæplega 1600 börnum og hefur í gegnum tíðina gefið foreldrum ráð við öllu sem tengist komu nýs einstaklings í heiminn. Nú hefur hún látið gamlan draum rætast þar sem þessi ráð eru nú saman komin í fallegri bók.

Anna Eðvaldsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.

„Þessi bók hefur verið í huga mínum í mörg ár. Ég fann fyrir hvað mikil þörf var á að foreldrar, ömmur og afar gætu leitað svara við spurningum sínum. Þar sem öll svör væru til í einni bók. Ég var endalaust að gefa ráð, svara spurningum og fann svo vel fyrir þakklætinu þegar ráðin dugðu. Oftar en ekki sögðu foreldrarnir, „mikið væri nú gott að geta bara flett upp í einni Önnu ljósu í bók“,“ segir Anna. Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifaði bókina sem ber heitið Fyrstu mánuðirnir – ráðin hennar Önnu ljósu. Esther Viktoría Ragnarsdóttir og Ari Arnaldsson teikna myndirnar sem prýða bókina og Bókafélagið gefur hana út.

„Bókin fjallar um öll þau ráð sem ég hef gefið í heimaþjónustu. Þar er talað um undirbúninginn undir fæðinguna, eldri systkini, fyrstu dagana heima, barnið þegar það kemur í heiminn, líðan móður eftir fæðingu, næringu barnsins brjóstagjöf og pelagjöf, meltingu, grát fyrstu dagana, umhirðu barnsins, veikindi barnsins, hitt foreldrið, andvana fæðingu, endurlífgun og margt margt fleira.“

„Sjúkralið gæti ekkert gert á þessu augnabliki sem ég gæti ekki gert. Skelli mér aftur í hanska, laga rauða kjólinn minn og í næstu hríð fæddist spræk og yndisleg stúlka.“

Bókin fjallar um öll þau ráð sem Anna hefur gefið í heimaþjónustu.

Fæðing í miðju matarboði
Á þessum tíma sem Anna hefur verið ljósmóðir hefur ýmislegt komið upp á. Annar júní 2009 er henni til dæmis minnisstæður. „Ég var með smávegis matarboð heima hjá mér og þegar við vorum að klára að borða hringdi síminn. Þá er það nágrannakona sem býr ská á móti mér. Ég var búin að vera með hana í mæðravernd og hún sagðist vera með einhverja „murnings“ verki, hvort ég gæti skoðað hana því hún nennti ekki niður eftir ef ekkert væri að gerast. Ég skottaðist yfir með töskuna mína í rauðum sumarkjól og rauðum lakkskóm. Eftir skoðun segi ég henni að ef hún ætli ekki að fæða í bílnum þá skuli hún drífa sig á fæðingardeildina því hún sé komin með átta í útvíkkun. Ég sný mér frá henni og fer úr hanskanum. Hún fer að skellihlæja, vatnið fer og kollurinn fæðist. Pabbinn spurði hvort hann ætti að hringja á sjúkrabíl en ég sagði honum að setjast bara hjá konunni sinni og sýna henni stuðning. Sjúkralið gæti ekkert gert á þessu augnabliki sem ég gæti ekki gert. Skelli mér aftur í hanska, laga rauða kjólinn minn og í næstu hríð fæddist spræk og yndisleg stúlka. Eldri bræður hennar þrír höfðu verið sendir í ísbúð með ömmu sinni meðan ég skoðaði mömmu þeirra og það var dásamlegt að upplifa þegar þeir komu til baka og sáu á hverju mamma þeirra hélt þegar þeir komu inn í herbergið. Þegar ég kom aftur heim voru allir í rólegheitum að fá sér kaffi. Ég sagðist aðeins hafa skroppið yfir í næsta hús að taka á móti barni, sagði svo: „Viljið þið meira kaffi“.“

Ljósuhjartað stundum brostið

Og kjarabarátta ljósmæðra hefur ekki farið fram hjá Önnu frekar en öðrum. „Kjarabarátta okkar ljósmæðra er barátta fyrir allar konur. Það var alveg kominn tími til að leiðrétta laun ljósmæðra þannig að nýúrskrifuð ljósmóðir lækki ekki í launum fyrir það eitt að bæta við sig tveimur námsárum eftir fjögurra ára hjúkrunarnám. Þetta er búið að vera erfitt og ljósuhjartað mitt hefur nokkrum sinnum brostið í þessari baráttu. Ég hef aldrei upplifað eins mikla og góða samstöðu okkar ljósmæðra og meðbyrinn í þjóðfélaginu gríðarlegur. Þetta hefur verið erfitt fyrir alla; ljósmæður, samstarfsfólk og verðandi foreldra.“

Myndir af Önnu / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -