Ágúst Andrésson, yfirmaður kjötvinnslu hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, er jafnframt heiðurskonsúll Rússlands á Íslandi. Hann er ásamt öðrum stjórnendum KS ábyrgur fyrir innflutningi á kjúklingi frá Úkraínu. Á síðasta ári flutti Kjötvinnslan Esja gæðafæði, sem er í eigu KS, inn um 40 tonn af kjúklingi frá Úkraínu í gegnum Litháen. Þá flutti Kjötmarkaðurinn, sem tengist einnig KS, inn rúmlega 23 tonn á síðasta ári og byrjun þessa árs. Landbúnaðarafurðir frá Úkraínu eru tollfrjálsar eftir að Alþingi samþykkti frumvarp á síðasta ári til stuðnings Úkraínumönnum í stríðinu við Rússa. Gríðarlegir hagsmunir eru undir enda kostar um 600 krónur að flytja inn hvert kíló sem þá leggst ofan á verðið á kjötinu.
Gagnrýnt er af íslenskum kjúklingabændum að kjúklingurinn sem Esja flytur inn sé ekki upprunamerktur og jafnvel látið í það skína að hann sé ræktaður og framleiddur á Íslandi. Þykir skjóta skökku við að fyrirtæki í eigu bænda grafi undan íslenskum hagsmunum. Þess utan er gagnrýnt að tollfrelsi gildi um vöru sem ekki er hefð fyrir að flytja inn til landsins. Þetta var í fyrsta sinn sem kjúklingur var fluttur inn frá Úkraínu sem þýddi að skilt er að gera áhættumat áður en kjúklingurinn fer í sölu innanlands. Áhættumat var ekki gert í tilviki Skagfirðinganna og fóru alls 80 tonn af úkraínskum kjúklingi inn í landið í fyrrahaust. Gagnrýnt er að varan hafi ekki verið innkölluð eftir að í ljós kom að ekkert áhættumat hafði farið fram.
við höfum tekið ákvörðun um að borga fullan toll
Aðrir innflytjendur fengu ekki að flytja inn kjúkling án þess að slíkt mat færi fram. Þeirra á meðal er Ó. Johnson og Kaaber sem voru með allt sitt fast í tolli. Ágúst Andrésson fullyrti við Bændablaðið að Esja hefði greitt fullan toll af kjúklingnum en þeir ættu hugsanlega endurgreiðslurétt. „En við höfum tekið ákvörðun um að borga fullan toll af þessu eins og öðru,“ segir hann við Bændablaðið. Ekki liggur fyrir hvort fyrirtækinu var gert að greiða þennan toll ásamt álagi sem kemur til ef rangar upplýsingar eru gefnar um vöru.
Guðmundur Svavarsson, formaður deildar kjúklingabænda hjá Bændasamtökunum, segir við Bændablaðið að innflutningurinn vekji ugg. Áhyggjur manna snúi að því að kjötið komi frá vinnslum sem lúti ekki sömu heilbrigðiskröfum og gerist hérlendis. Við höfum áhyggjur af mikilli sýklalyfjanotkun og enn fremur hvernig staðið er að framleiðslunni með tilliti til dýravelferðar og sjúkdómsvaldandi örvera,“ sagði hann við Bændablaðið.
Nú er komið á daginn að sprenging hefur orðið í innflutningi af kjúklingi. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru flutt inn 107,5 tonn af kjúklingi frá Úkraínu í nýliðnum janúar. Stærstur hluti af því er, samkvæmt innflutningstölum, af svokölluðum lausagönguhænsnum eða 102,2 tonn. Guðmundur Svavarsson sagði við Mannlíf að mikil áhætta væri samfara slíkum innflutningi ef litið væri til sjúkdómahættu.
Uppfært: Guðmundur Gíslason, framkvæmdastjóri Kjötmarkaðarins, segir við Mannlíf að engin mistök hafi verið gerð þar er varðar innflutning á kjúklingi.
„Kjötmarkaðurinn flutti ekki inn kjúkling á síðasta ári frá Úkraínu heldur fimm tonn frá Litháen. Kjötmarkaðurinn hefur flutt inn á þessu ári 18 tonn af kjúkling frá Úkraínu og er með öll leyfi fyrir því. Kjúklingurinn frá Úkraínu er gæðavara alinn á maís og slátrað í sláturhúsi sem er með BCR vottun,“ skrifar Guðmundur. Hann segir fyrirtæki sitt hafa greitt 18 prósent toll og 540 kr./kg samtals yfir 640 kr./kg