Nóg var að gera hjá lögreglunni í gærkvöldi og í nótt þrátt fyrir strangar sóttvarnaraðgerðir yfirvalda. Mikið var um að ökumenn voru stöðvaðir af ýmsum ástæðum.
Talsvert var um að fólk væri að keyra undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, víða á höfuðborgarsvæðinu. Þá var bifreið stöðvuð í hverfi 103 eftir að henni hafði verið ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Reyndist ökumaðurinn einungis 17 ára. Var málið tilkynnt foreldrum hans og tilkynnt til Barnaverndar.
Í Hafnarfirði var maður handtekinn á heimili sínu, grunaður um vörslu og sölu fíkniefna og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Úr Breiðholtinu barst tilkynning um líkamsárás í íbúðarhúsnæði en þegar lögreglan kom á svæðið var árásaraðilinn á bak og burt. Árásarþoli var með áverka á höfði og ætlaði á Bráðadeild til aðhlynningar.
Önnur tilkynning barst frá Breiðholtinu laust fyrir klukkan 1 í nótt en þá var maður í annarlegu ástandi sem neitaði að yfirgefa sameign sem hann var búinn að koma sér fyrir á. Maðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglu, neitaði að gefa upp nafn og kennitölu og veittist að lögreglu. Var hann handtekinn og fluttur í fangageymslu lögreglu, sökum ástandsins.
Þá var kona handtekin í Breiðholtinu í nótt grunuð um húsbrot og eignarspjöll. Var hún vistuð í fangageymslu lögreglu.