Tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur fjölgaði mikið í marsmánuði, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar segir að Barnavernd hafi í síðasta mánuði borist rúmlega sjötíu tilkynningar þar sem barn var talið vera í yfirvofandi hættu, en slíkar tilkynningar hafa verið á bilinu 28 til 42 í marsmánuði síðustu ár. Þá fjölgaði tilkynningum frá börnum. Þær hafa verið tvær að hámarki í marsmánuði undanfarin ár en Barnavernd bárust í síðasta mánuði ellefu tilkynningar frá börnum. Þá bárust sextíu tilkynningar frá nágrönnum og almennum borgurum síðasta mars, en þær hafa verið á bilinu 22 til 39 undanfarin ár.