Tómas Ingvason, faðir fanga sem fannst látinn í klefa sínum á Litla-Hrauni, fundar í dag með fangelsismálastjóra. Tómas er mjög ósáttur með það hvernig staðið er að rannsókn á láti sonar hans, Ingva Hrafns. Hann hafði verið á Vernd að ljúka afplánun en var sóttur þangað af víkingasveit lögreglunnar og fluttur á Litla-Hraun eftir að hafa verið borinn sökum um ofbeldi gagnvart kærustu sinni.
Tómas telur að miklar brotalamir hafi verið á rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á málinu. Fram hefur komið að Ingvi hafi glímt við þunglyndi eftir að hann var læstur inni á Litla-Hrauni. Hann óskaði eftir aðstoð sálfræðings eða geðlæknis á laugardegi en var sagt að bíða fram yfir helgi. Þá var of seint að hjálpa fanganum sem lést skömmu eftir hjálparbeiðnina.
Tómas sagði í samtali við Mannlíf að hann myndi ekki unna sér hvíldar fyrr en varpað yrði ljósi á aðdragandann að láti sonar hans og þá höfnun sem hann fékk við hjálparbeiðni sinni. Hann hefur leitað til eftirlitsnefndar með störfum lögreglunnar og krefst opinberrar rannsóknar á ábyrgð fangelsismálayfirvalda sem hunsuðu beiðini fangans um hjálp.
Vill draga yfirvöld til ábyrgðar vegna dauða sonar hans: „Ingvi var settur inn án dóms og laga“