Mörg fyrirtæki hafa hætt samstarfi við fjallgöngumanninn Tomasz Þór Veruson eftir að kona sakaði hann um andlegt og líkamlegt ofbeldi á meðan á tveggja ára sambandi þeirra stóð.
Konan er leiðsögumaður og steig hún fram og greindi frá ofbeldinu í Facebook-hópnum Fjallastelpur – umræðuhópur um útivist á Íslandi fyrir konur, í gær.
Konan segist hafa kynnst Tomaszi í fjallaverkefni; hún var kúnni hjá honum og þau voru í ástarsambandi um tveggja ára skeið.
Hún hafi síðan slitið sambandinu eftir að hún komst að því að Tomasz hafði verið í sambandi með annarri konu á meðan.
Tomasz stofnaði ferðaskrifstofuna Af stað árið 2018.
Áðurnefnd kona skrifar í færslunni að ofbeldið hafi verið andlegt, líkamlegt og kynferðislegt.
Hann hafi sakað konuna um framhjáhald, og ekki viljað að hún færi í vinnuferðir og hótað sjálfsvígi ef hann hafi verið ósáttur.
Bæði GG sport og Hreysti hafa sagt upp samstarfi Tomasz, sem er vel þekktur innan fjallasamfélagsins; hefur sinnt leiðsögn í fjölda ára.
Tomasz var árið 2020 ráðinn af Ferðafélagi Íslands til að sinna leiðsögn en hann lauk störfum þar í nóvember; var samstarf við hann ekki verið endurnýjað.
Facebook-frásögn konunnar hefur vakið mikla athygli frá því að hún birtist í gær. Hún skrifar í færslunni að eftir að hún sagði Tomaszi upp hafi hann setið um hana heima hjá henni:
„Ég lagði bílnum og rölti inn án þess að taka eftir honum. Hann kom á eftir mér og ruddist inn til mín þegar ég opnaði útidyrahurðina. Hann gekk það harkalega í skrokk á mér að önnur hlið líkama míns varð blá og marin. Þarna var ég um 48 kg og ég tók á öllu mínu til að verjast honum, 2ja metra háum manni í miklu uppnámi. Íbúðin var einnig illa leikin og braut hann m.a. sófa, myndir og tók símann minn.“
Konan segist ekki hafa áttað sig á því að þetta væri ofbeldissamband fyrr en eftir að sambandinu var lokið:
„Eftir að sambandi okkar lauk áttaði ég mig fyrst á því að þetta hefði verið ofbeldissamband. Það er nefnilega ekki svo augljóst þegar maður er í þessum aðstæðum. Hann neyddi mig líka til að gera kynferðislega hluti með honum sem mig langaði ekki en það er stutt síðan ég viðurkenndi það fyrir sjálfri mér að ofbeldið hefði einnig verið af kynferðislegum toga.
Ég er þó ekki tilbúin að opna á þá reynslu, sú upplifun liggur enn djúpt,“ skrifar konan. sem hefur í kjölfar sambandsins glímt við áfallastreituröskun og segir það erfitt að vera ein heima, þar sem hún hræðist að Tomasz brjótist inn og gangi í skrokk á henni:
„Í kjölfarið af sambandsslitum og allt til dagsins í dag hafa konur haft samband við mig og hafa svipaða sögu að segja og ég. Munstrið er nánast alltaf eins og hann er að enn þann dag í dag og ekkert breytist.“