Tómas Tómasson veitingamaður, sem er hvað þekktastur fyrir rekstur Tomma hamborgara og nú Hamborgarabúllu Tómasar, vill á þing en hann er oddviti Flokks fólksins í Reykjavík norður. Tómas talar hér meðal annars um áherslumál sín, föðurinn bandaríska sem vildi ekkert af honum vita, Bakkus, ferilinn og uppáhaldshamborgarann, þunglyndið tengt ástarsorginni, lyftingarnar og húðflúrin og flatköku með roast beef og rækjusalati.
Tommi er í helgarviðtali Mannlífs.
„Mamma flutti til Bandaríkjanna þegar ég var tveggja ára og það má segja að hún hafi skilið mig eftir hjá ömmu og afa því hún einhvern veginn ánetjaðist Ameríku og var þar allt sitt líf eftir það. Hún sendi mér stundum pakka með dóti í og gallabuxum sem var gaman að fá og amma og afi voru rosalega góð við mig þannig að ég einhvern veginn lifði við það að þetta væri bara sjálfsagður hlutur.“
Hann var átta ára þegar hann sá móður sína næst en man ekkert eftir henni áður en hún flutti vestur um haf sex árum áður. Hann heimsótti hana svo af og til í gegnum árin.
„Ég á tvær stelpur, önnur er 26 ára og hin er 14 ára, og það var ekki fyrr en þær fæddust sem ég gerði mér grein fyrir að þetta hafði ekki alveg verið eins og það átti að vera. Þó að amma og afi hafi verið góð þá voru þau alltaf að bíða eftir að mamma kæmi heim sem hún gerði ekki; þau þurftu að vera með mig í þeirri von að mamma kæmi heim. Þannig að fyrir vikið var ég svolítið afskiptur sem ég er að fatta núna mörgum árum seinna. Ég er rúmlega sjötugur og allt í einu skil ég þetta.“
Þetta og miklu meira má finna í helgarviðtali Mannlífs við Tomma.