Þriðjudagur 14. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Trúbadorinn og bóndinn Hlynur Snær Theodórsson: „Svo syng ég iðulega í fjósinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hlynur Snær og eiginkona hans, Guðlaug Björk Guðlaugsdóttir, eru bændur á bænum Voðmúlastöðum í Rangárvallasýslu. Þau eru með um 50 kýr og 25 kindur og það er mikið að gera í bústörfunum og útsýnið frá bænum er stórkostlegt: Vestmannaeyjar blasa við í suðri, Eyjafjallajökull gnæfir í allri sinni dýrð í austri sem og Tindfjöll og Fljótshlíð í norðri.

Hlynur Snær var í tónlistarskóla á unglingsárunum og lærði á hljómborð og svo eignaðist hann gítar þegar hann var 17 ára. Hann fór á sínum tíma á söngnámskeið hjá Sigurveigu Hjaltested til að læra raddbeitingu og er fyrsti tenór í Karlakór Rangæinga og er í sönghópnum Öðlingunum sem syngur mikið í jarðarförum.

Hjónin eiga þrjú börn á aldrinum 22 til 29 ára og barnabörnin eru þrjú. Þegar börnin voru orðin stálpuð fór Hlynur Snær að taka aðeins að sér að spila og syngja fyrir fólk. Það fór að vinda upp á sig fyrir um 16 árum og hefur verið aukavinna hans síðustu fimm árin. Í fyrstu tengdist þetta karlakóraskemmtunum og kom þá Hlynur Snær gjarnan fram með hljómsveitum en svo fór hann að kalla í hina og þessa menn til að koma fram með sér til að koma meðal annars fram á þorrablótum og böllum. Síðustu ár hefur hann mikið komið fram með dóttur sinni, Sæbjörgu, auk þess sem önnur dóttir hans, Brynja Sif, kemur líka stundum fram með pabba sínum. Svo breytti Covid-heimsfaraldurinn öllu. Samkomutakmarkanir voru settar á og í fyrrahaust fóru feðginin að koma fram í beinni útsendingu á Facebook-síðunni „Hlynur Snær Theodórson“.

 

Hlynur Snær Theodórsson

 

Samkomutakmarkanir voru settar á og í fyrrahaust fóru feðginin að koma fram í beinni útsendingu á Facebook-síðunni „Hlynur Snær Theodórson“.

- Auglýsing -

„Við ákváðum að fara út í þetta í fyrrahaust og koma ekkert endilega reglulega fram en þó, það var oft einu sinni í viku á föstudags- eða laugardagskvöldum og þá var ég með dætur mínar með mér. Við gáfum alltaf út tilkynningar um hvenær við ætluðum að gera þetta og fólk gat sent inn óskalög. Viðtökurnar voru ótrúlega góðar og við fengum góð viðbrögð. Guðlaug Björk, konan mín, var titluð „útsendingastjóri“ og hún tók niður það sem fólk var að senda inn og lét okkur hafa litla „post it miða“ með óskalögum og reyndum við að taka öll óskalög sem komu. Við reyndum að hafa þetta eins heimilislegt og frjálslegt og við gátum því að þetta var ekkert kostað. Við gátum gert nákvæmlega það sem okkur langaði til að gera.“ Hlynur Snær gerir ráð fyrir að þau feðginin verði í haust og vetur með beinar útsendingar á Facebook-síðunni.

Um síðustu helgi komu feðginin fram í fimmtugsafmæli og fóru allir í Covid-hraðpróf áður en veislan hófst. „Þetta var mjög fagmannlega gert. Það var hjúkrunarfræðingur í alklæðnaði – með grímu og skjöld – sem gerði þetta og svo var beðið í kortér til 20 mínútur eftir niðurstöðum og það reyndust allir vera neikvæðir. Svo voru allir rosalega slakir og skemmtu sér vel. Þetta var í fyrsta skipti í faraldrinum sem ég fór í „test“.“

Lögin sem spiluð eru og sungin eru allt frá „gömlu dönsunum“ upp í Queen og allt þar á milli. Hvert er uppáhaldslagið? „Ég veit ekki hvort ég eigi að velja eitthvað eitt lag en okkur finnst gaman að taka lagið hans Meat Loaf „Paradise by the Dashboard Light“ sem vekur yfirleitt mikla lukku. Svo er líka gaman að takast á við ný lög sem eru að koma út með hinum og þessum og læra þau og reyna að flytja þau almennilega.“

- Auglýsing -

Það er ekki bara á Íslandi sem trúbadorinn hefur komið fram heldur hefur hann komið fram meðal annars á hestamannamótum svo sem í Þýskalandi og Belgíu. „Það er óskaplegt ævintýri.“

Svo semur hann sjálfur. Hann samdi til dæmis lagið „Bræðralag“ fyrir Karlakór Rangæinga fyrir mörgum árum, svo samdi hann lagið „Fjalladraumur“ fyrir Öðlingana, hann samdi lagið „Eyðum ævinni saman“ fyrir eiginkonuna í tilefni fertugsafmælis hennar og í fyrravetur kom út lagið „Gleðinnar dans“. Nýjustu lögin eru hestamannalagið „Töltið“ og ástarlagið „Gullið mitt“ sem var samið til konunnar þegar hún varð 50 ára í mars. Lögin er hægt að hlusta á á annaðhvort YouTube eða Spotify. Hvað með stílinn þegar hann semur? Áherslur? „Ég myndi halda að þetta væri léttleikandi popp og aðeins út í kántrí.“

Hann dreymir um að gefa út geisladisk með lögunum sínum. „Það eru alltaf að bætast lög við safnið en ég er ekki búinn að safna nógu mörgum lögum til að gefa út geisladisk eða plötu. Ég hef verið að vinna með Vigni Snæ, sem er kenndur við Írafár, og hann hefur verið að taka upp með mér lög sem eru komin á YouTube og Spotify.“

Tónlistin er aukabúgrein bóndans. Syngur hann í fjósinu? „Já, ég geri það stundum og kannski sérstaklega ef það koma litlir hópar að skoða fjósið. Svo syng ég iðulega í fjósinu ef ég þarf að læra einhvern texta eða ný lög. Það er virkilega góður staður til að æfa sig á og kýrnar eru orðnar vanar þessu. Þær þekkja orðið gaulið í karlinum. Yngri kýrnar sem eru ekki orðnar vanar þessu fara í smábaklás en jafna sig mjög fljótt; þá standa þær stjarfar og horfa á mig.“

Hver er draumur bóndans og trúbadorsins hvað tónlistina áhrærir? „Draumurinn er að starfa við þetta líka því þetta er virkilega skemmtileg og gefandi. Ég er gríðarlega þakklátur að hafa dætur mínar með í þessu en mér finnst það vera forréttindi að fá að vera svona mikið með börnunum mínum í því sem mér finnst vera gaman að gera. Þannig að það er eiginlega draumastaða að fá að vera með þeim.“

 

Ég myndi halda að þetta væri léttleikandi popp og aðeins út í kántrí.

 

Hlynur Snær Theodórsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -