Fimmtudagur 26. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Trúir ekki að þetta hafi verið viljaverk

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heiða Þórðardóttir segir sorgina eftir að bróðir hennar, Gísli Þór Þórarinsson, var skotinn af bróður þeirra, Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, hafa verið þá þyngstu sem hún hefur upplifað. Spurð hvort hún hafi átt von á því að Gunnar gæti látið verða af þeirri hótun sinni að drepa Gísla, miðað við langa ofbeldissögu hans, svarar Heiða að hún hafi aldrei trúað því og hún trúi því ekki enn að það hafi verið ætlun hans.

„Þessa fjóra daga sem hann var á geðdeild, algjörlega niðurbrotinn, og ég var að reyna að tala hann til, datt mér aldrei í hug að þetta myndi enda svona hræðilega,“ segir hún. „Hann sagðist myndu loka á samskipti við mig ef ég tæki afstöðu með Gísla en ég tók enga afstöðu, sagði honum bara að jafna sig, þessi kona væri ekki þess virði að splundra samstöðu okkar þriggja.

Varðandi fyrri brot hans þá vil ég taka fram að þau áttu sér alltaf stað þegar hann var í harðri neyslu. Ekki að það sé afsökun, en það er skýring. Eftir að hann kom út af geðdeildinni féll hann og fór heim til Gísla með kunningja sínum og þeim bræðrunum lenti saman sem lauk með því að Gunnar skaut Gísla í lærið, skotið fór í slagæð og honum blæddi út. Löggæslumennirnir sem komu á vettvang voru með bundnar hendur vegna þess að þeir máttu ekki fara inn á undan sjúkrabílnum og því fór sem fór.“

„Þessa fjóra daga sem hann var á geðdeild, algjörlega niðurbrotinn, og ég var að reyna að tala hann til, datt mér aldrei í hug að þetta myndi enda svona hræðilega.“

Spurð hvort hún sé reið yfir því að Gísli hafi verið látinn liggja einn þar til honum blæddi út tekur Heiða sér örlítinn umhugsunartíma til að svara.

„Jú,“ segir hún svo. „Ég er reið, það hefði verið hægt að bjarga honum. En samt hef ég eiginlega ekki orðið reið í þessu sorgarferli, nema auðvitað við fólkið í kringum mig sem sýndi af sér virkilegan ótuktarskap gagnvart mér vegna þess að ég vildi ekki taka þá afstöðu að kalla Gunnar morðingja. Ég þekki hann ekki sem slíkan.

Ég veit auðvitað að hann hefur gert hræðilega hluti, þótt ég hafi ekki lesið öll málsskjöl í þeim málum sem hann hefur verið dæmdur fyrir en mér finnst það ekki vera mitt að dæma hann. Ég get ekki einu sinni verið reið við hann í þessu tilfelli, hann þarf að lifa með því alla sína ævi að hafa drepið bróður sinn og besta vin. Þeir höfðu búið saman, unnið saman og áttu mjög vel saman þegar Gunnar var í toppstandi, sem hann var miklu oftar en í neyslu.

Þótt ég syrgi auðvitað Gísla bróður minn óskaplega mikið þá er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys. Ég er bara svo ofboðslega sorgmædd. Ég er búin að missa alla þá sem hafa verið mér kærkomnastir, mömmu, pabba, vini og ömmur en þetta er mesta sorg sem ég hef upplifað.

- Auglýsing -

Þegar lögreglan kom til að segja mér frá þessu var mér boðin hjálp sem ég afþakkaði með þeim orðum að ég væri vön þessu en málið er að þetta er það svakalegasta högg sem ég hef fengið. Sorgin var svo mikil að ég fann líkamlegan sársauka. Ég svaf ekki, ég borðaði ekki og ég get svarið að ég man ekkert eftir fyrstu dögunum á eftir.“

Mynd / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -