Stjórnvöld í Afganistan eru allt annað en sátt við ummæli sem Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lét út úr sér á blaðamannafundi með forsætisráðherra Pakistan í gær.
Imran Khan heimsótti Trump í Hvíta húsið í gær og að fundi loknum sátu þeir fyrir svörum fjölmiðla. Bandaríkin hafa þrýst á Pakistan til að leggja vesturvöldunum lið í að ná friðarsamningum við Talíbana, en Bandaríkin hafa verið með herlið í landinu frá árinu 2001. Um 200 þúsund bandarískir hermenn eru nú á afganskri grundu. Stjórnvöldum í Kabúl hefur hins vegar ekki verið hleypt að samningaborðinu.
Trump lagði áherslu á það á fundinum að Bandaríkin ættu ekki í stríði í Afganistan heldur gegndu þau hlutverki lögreglumanns. „Ef við vildum heyja stríð í Afganistan og sigra það, þá gæti ég sigrað það stríð á einni viku. Ég vil hins vegar ekki drepa 10 milljón manns. Ég á plön fyrir Afganistan sem myndu þýða, að ef ég færi í það stríð, að Afganistan yrði þurrkað af yfirborði jarðar. Það væri farið. Því myndi ljúka, bókstaflega, á 10 dögum. En ég vil það ekki, ég vil ekki fara þá leið,“ sagði Trump við fréttamenn.
Þessi ummæli hafa farið þveröfugt ofan í stjórnvöld í Kabúl sem hafa krafið bandarísk stjórnvöld skýringa á ummælum forsetans. Í tilkynningu forsetaembættisins segir að afganska þjóðin hafi ekki og muni aldrei leyfa erlendum öflum að ákvarða örlög hennar. „Á meðan ríkisstjórn Afganistan styður áætlanir Bandaríkjanna um að tryggja frið í Afganistan, þá leggur hún áherslu á að erlendir þjóðhöfðingjar geta ekki ráðið örlögum Afganistan án forystu afgönsku þjóðarinnar,“ segir í tilkynningunni.
Þetta eru reyndar ekki einu ummæli Trumps af þessum fundi sem hafa vakið furðu. Hann fullyrti til að mynda að forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, hafi beðið sig um að miðla málum í deilu Indlands og Pakistan um Kasmír hérað. „Ég var hissa á því hversu lengi þessi deila hefur staðið yfir. Ég myndi gjarnan vilja vera sáttasemjari.“
Talsmaður indverska forsætisráðherrans var hins vegar fljótur að draga þessi ummæli tilbaka og sagði að ekkert slíkt boð hafi verið rætt. Þvert á móti hafa indversk stjórnvöld ávallt sagt að Kasmír-deilan, sem hefur staðið yfir í 70 ár, verði eingöngu leyst í samningaviðræðum milli Indlands og Pakistan.
Af ummælum Trump á fundinum má ætla að hann hafi ekki minnstu hugmynd um hvað deilan snýst um. „Ég hef heyrt svo mikið um Kasmír. Svo fallegt nafn. Ég hef heyrt að þetta sé einn af fallegustu stöðum heims. En nú eru þar sprengjur út um allt.“
Enn fremur sagðist Trum hafa einstaklega mikinn skilning á atburðum í Púertó Ríkó, þar sem fjölmenn mótmæli hafa staðið yfir undanfarna daga gegn ríkisstjóranum Ricardo Rossello. Hann hafi nefnilega í tvígang staðið fyrir fegurðarsamkeppnum í landinu sem nánast öll þjóðin hafi horft á.