Í hádeginu í gær hófst undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Þjóðhátíðanefnd að endurskoða ákvörðun sína um að afbóka tónlistarmanninn Ingólf Þórarinsson á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þetta árið. Undirskriftirnar eru orðnar tæplega 1500 talsins þegar þetta er skrifað.
Á vefsvæðinu þar sem undirskriftasöfnunin fer fram stendur: „Það er ótækt með öllu að dómstóll götunnar stjórni því hverjir komi fram á viðburðum á Íslandi. Engin kæra liggur fyrir og því er engin rannsókn í gangi.“
Eftir að Þjóðhátíðanefnd barst undirskriftalisti með nöfnum 130 kvenna sem lögðust gegn því að Ingólfur stýrði brekkusöngnum líkt og hann hefur gert undanfarin ár, tók nefndin þá ákvörðun að afbóka Ingólf veðurguð.
Það er Tryggvi Már Sæmundsson, fyrrum framkvæmdastjóri ÍBV, sem hóf undirskriftasöfnunina til stuðnings Ingólfs.
„Þessi undirskriftalisti snýst um að ef það sem er sett á samfélagsmiðla fer að stjórna öllum viðburðum og öðru slíku, þá finnst mér við vera komin út á svolítið hálan ís. Ef múgæsingur á samfélagsmiðlum getur farið að dæma og koma mönnum út af sakramentinu þá veit ég ekki alveg hvert við erum komin í þessu. Það var kannski undirrótin að því að ég fór af stað með þetta,“ sagði Tryggvi í samtali við mbl.is í gær.
Tryggvi segir að með þessu sé hann þó alls ekki að taka afstöðu í málinu og segir annarra að dæma um það.
„Eitthvað af þessu eru margra ára gamlar sögur og ég harma það mjög ef fólk sem lendir í ofbeldi fer ekki og lætur vita af því á réttum stöðum. Það er auðvitað mjög mikilvægt að þolendur komi þessu áfram, þó að það sé ekki kært strax þá er mjög mikilvægt að koma því í farveg fljótlega eftir að slík brot eru framin.“
Hyggst Tryggvi skila undirskriftalistanum til Þjóðhátíðarnefndar innan fárra daga í von um að nefndin endurskoði ákvörðun sína um að afbóka Ingólf veðurguð.