Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Tugir skammbyssna fluttar til landsins það sem af er ári

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Framkvæmdastjóri Skotfélags Reykjavíkur segir stífara regluverk skorta í tengslum við skotvopn á Íslandi.

Markskotfimi með skammbyssum er íþróttagrein sem notið hefur vaxandi vinsælda á Íslandi undanfarinn áratug. Sífellt fleiri skammbyssur eru fluttar inn til landsins undir þeim formerkjum að nota þær til íþróttaiðkunar en engin krafa er gerð um að stunda íþróttina til að halda byssuleyfinu eins og þekkist víða erlendis.

Guðmundur Kr. Gíslason, framkvæmdastjóri Skotfélags Reykjavíkur.

Guðmundur Kr. Gíslason, framkvæmdastjóri Skotfélags Reykjavíkur (SR), staðfestir í samtali við Mannlíf að skammbyssuskotfimi hafi átt sívaxandi vinsældum að fagna undanfarin ár. Aðspurður um hversu margar skammbyssur hafi verið fluttar inn til einkaeignar það sem af er þessu ári kveðst hann ekki vera með nákvæmar tölur um það fyrir framan sig. „Það eru vafalaust einhverjar 40-50 skammbyssur,“ giskar hann á.

Guðmundur útskýrir fyrir blaðamanni að til þess að einstaklingur geti fengið heimild til þess að flytja inn og eignast skammbyssu þurfi viðkomandi að hafa fyrir hefðbundið skotvopnaleyfi, svokallað A-leyfi, áður en sótt er um B-leyfi sem veiti heimild til að eignast skammbyssu. „Við þurfum að staðfesta það hjá klúbbunum að viðkomandi hafi verið hjá okkur í tvö ár hið minnsta og með flekklausan feril. Þá er hægt að fá heimild til þess að eignast skammbyssu sem uppfyllir skilyrði íþróttahreyfingarinnar, sem lögreglan setur,“ útskýrir hann.

„Áður fyrr var skammbyssueign mjög lítil en nú eru menn farnir að sækja meira og meira í þetta.“

Guðmundur segir jafnframt að það sem af er þessu ári hafi verið fluttar inn á bilinu 10-12 skammbyssur eftir uppáskrift frá Skotfélagi Reykjavíkur.

Aðspurður hvort einhverjar kröfur séu gerðar um það að eigendur slíkra vopna séu áfram virkir iðkendur í skotfélagi segir hann svo ekki vera. „Nei, eftir að menn hafa eignast byssurnar er ekki gerð krafa um það þó að við séum ekki sammála því margir hverjir,“ segir Guðmundur og tekur Noreg sem dæmi um land sem er með gott regluverk í kringum byssueign.

„Það er skylda víða, meðal annars í Noregi þar sem leyfilegt er að eiga skammbyssu en þar er krafa gerð um að menn verði að mæta á viðurkennd skotsvæði í það minnsta mánaðarlega til þess að halda leyfinu,“ útskýrir hann og lætur í veðri vaka að þörf sé á að endurskoða regluverkið á Íslandi.

- Auglýsing -

„Það hefur ekki komið til þess á Íslandi að setja sambærilegar reglur. Regluverkið var mjög stíft hér á árum áður en það var losað um það fyrir einhverjum tíu árum. Áður fyrr var skammbyssueign mjög lítil en nú eru menn farnir að sækja meira og meira í þetta. Við náttúrlega megum bara eiga vopn sem henta í markskotfimi. Við megum t.d. ekki flytja inn og eiga 9 mm skammbyssur eins og lögreglan notar í dag. Byssurnar sem við flytjum inn eru 22 kalíbera hálfsjálfvirkar, eða rúllur svokallaðar, og svo upp að 38 special sem er grófa byssan, þar eru tvö kalíber aðallega notuð; 32 og 38,“ segir hann.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -