Lögregla hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt. Byrjaði kvöldið á útkalli á veitingahús í miðbæ Reykjavíkur en þar var maður sem neitaði að greiða reikninginn sinn. Samkvæmt dagbók lögreglu var hann kærður fyrir fjársvik.
Síðar um kvöldið aðstoðaði lögregla mann sem hafði dottið af rafskútu í Hlíðunum. Maðurinn hlaut skurð á ennið og kom í ljós að hann var ölvaður. Þá var tilkynnt um ofurölvaðan mann í miðbænum. Sá var verulega ringlaður og komst ekki heim til sín nema með aðstoð lögreglu. Í Kópavogi voru einnig nokkrir ölvaðir menn sem lögregla þurfti að hafa afskipti af. Einn þeirra barði sífellt að dyrum á heimahúsi og reyndi að komast þar inn. Maðurinn hafði farið húsavillt og var honum komið til síns heima.
Eldur kom upp í ruslatunnu í Breiðholti í gær. Lögregla sprautaði á eldinn með slökkvtæki þar til slökkviliðið kom, stuttu síðar. Tvær ungar stúlkur voru áhugasamar og fylgdust vel með því sem fram fór. Varð það til þess að þær fengu að spreyta sig í slökkvistarfi og fengu, með hjálp slökkviliðsins, að sprauta á eldinn. Önnur tilkynning um eld barst lögreglu síðar um kvöldið. Þegar lögregla mætti á vettvang, í Árbæ, kom í ljós að engin hætta var á svæðinu heldur voru þar ungmenni að skemmta sér og grilla í veðurblíðunni.