„Ég hef allt of lengi hugsað um að skrifa þennan pistil/hugleiðingu en hikað við af röngum ástæðum. Ég þurfti fyrst að spyrja mig fyrir hvern ég ætti að skrifa og hvaða tilgangi það ætti að þjóna. Mín helsta von er að þessi pistill muni hugsanlega opna augun á fólki enn frekar (fyrst og fremst karlmönnum) um hversu algengt kynferðisofbeldi er í okkar samfélagi og að halda umræðunni áfram. Ég geri þetta líka fyrir sjálfan mig að létta af mér og deila minni reynslu, skrifar Alfreð Jóhann Eiríksson í færslu á Facebook.
Fjöldi fólks hefur fagnað skrifum Alfreðs.
„Í dag, tveimur árum eftir að ég byrjaði á þessum pistli ákveð ég að senda hann loksins frá mér í tilefni seinni MeToo byltingarinnar, sem er eins gott tilefni og nokkuð annað.
Stuttu eftir fyrri #Metoo byltinguna, þegar umræðan um kynferðisofbeldi opnaðist fyrir alvöru áttaði ég mig á að nánast hver einasta vinkona sem ég á hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi. Það segir mér nokkuð skýrt hvers konar samfélagi við búum í og hvað við eigum langt í land með að útrýma kynjamisrétti og kynferðisofbeldi. Ég held að það sé nokkuð öruggt að langflestir eiga vin/vinkonu sem hefur lent í einhverju tagi af kynferðisofbeldi en það eru ekki allir sem treysta sér í að deila slíkri upplifun með hverjum sem er.“
Leyfði þeim að njóta vafans
„Síðan ég var í grunnskóla hef ég átt allavega tvo nána vini sem kom í ljós að væru ofbeldismenn og beittu margar stelpur grófu ofbeldi. Ég viðurkenni að í báðum þessum tilvikum átti ég erfitt með að sætta mig við þann raunveruleika og brást ekki rétt við því strax. Í báðum tilvikum gaf ég þeim tækifæri á að útskýra sitt mál og gerðu þeir það svo listilega og með svo leikrænum tilbrigðum að ég leyfði þeim að njóta vafans (eflaust líka vegna þess að það var auðveldara fyrir meðvirkan einstakling eins og mig, sem er ömurlegt og því miður mjög algengt).
Þegar fleiri stelpur stigu fram og það fór ekki á milli mála að þessir menn væru klárlega sekir þá sneri ég baki við þessum mönnum og hef aldrei litið aftur vegna þess hvorugur þeirra hefur séð að sér og leitað sér hjálpar og/eða reynt að bæta upp fyrir þann skaða sem þeir ollu. Enn þann dag í dag líður mér illa að hafa ekki áttað mig á þessu fyrr og séð öll rauðu flöggin hjá þessum strákum.
Þetta er ein helsta ástæðan fyrir að ég skrifa þetta því ég vona að þetta vekji a.m.k. einhvern til umhugsunar og hvetji þann til að gera allt sem hann/hún getur til að varpa ljósi á og koma í veg fyrir ofbeldi. Það sem þessir tveir áttu sameiginlegt, sem og margir aðrir ofbeldismenn, er að þeir voru hressir, sjarmerandi, færir lygarar og komu oftast vel fram (sérstaklega við karlkyns vini sína) en töluðu oft illa um kvenfólk og sögðu ógeðfellda brandara svo eitthvað sé nefnt. Mér finnst bara svo mikilvægt að fólk fatti að þetta getur verið hver sem er, í alvöru.“
Meðvirkning þrífst
Í þessu samfélagi okkar þrífst svo mikil meðvirkni og afneitun að það hálfa væri nóg. Margir annað hvort vilja ekki trúa sögum um ofbeldi upp á náungann, reyna að þagga niður í umræðunni eða gerir ekki neitt því það finnst þetta ekki koma því við og „vill ekki vera partur af neinu drama”.
Allt of oft heyrir maður eitthvað á þessa leið „þetta meikar ekki sens, hann er svo ótrúlega næs” eða „batnandi mönnum er best að lifa” – ég er sammála því en þá ÞARF manninum að fara batnandi í alvöru. Að því sögðu vil ég líka segja að ég hef líka þekkt nokkra sem hafa komið illa fram og brotið af sér en munurinn þar er að þessir aðilar hafa séð að sér, beðist fyrirgefningar og gert allt í sínu valdi til að bæta upp fyrir gjörðir sínar.
Ég er sammála þeirri umræðu sem margir hafa talað um að skrímslavæðing og nafngreiningar sé ekki rétta leiðin til að uppræta nauðgunarmenningu heldur sé besta leiðin að halda umræðunni áfram, að fræða og upplýsa fólk (sérstaklega ungt fólk). Ég hef tekið eftir að sumir karlmenn eru fljótir að byrja að tala um rangmætar ásakanir sem er auðvitað grafalavarlegt mál líka og aldrei í lagi, en við verðum að muna að það er ekki nema um 2-5% tilfella í svona málum og eins og einhver sagði; ég vil frekar óvart verja lygara en að verja nauðgara. Ég hef því miður séð það með eigin augum hvernig ofbeldi getur sett líf manneskju á hvolf og ég er svo stoltur af öllum þolendum sem hafa lifað það af og sendi þeim öllum hlýjan straum og orku sérstaklega á þessum erfiðu tímum.
Vandmeðfarin og erfið umræða
Að lokum vil ég segja, ég veit að þetta er ótrúlega vandmeðfarið og þetta ER erfið umræða en hún er samt sem áður nauðsynleg. Við (sérstaklega karlmenn) þurfum að leita inn á við en líka skoða vinahópana okkar og ræða málin. Ef einhver sem les þennan pistil langar að ræða við mig um eitthvað þá má sá aðili endilega hafa samband við mig í einkaskilaboðum eða ræða við mig í persónu,“ skrifar Alfreð Jóhann.