Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Tvennt fórst í harmleiknum á Skarfaskeri – Jónas dæmdur í fangelsi fyrir að sigla skemmtibát á sker

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Föstudagskvöldið 9. september 2005 sigldi Jónas Garðarsson, fyrrverandi formaður Sjómannafélags Íslands, skemmtibátnum sínum, Hörpu, upp á sker á Viðeyjarsundi. Hann var drukkinn við stýrið og í slysinu létust tvær manneskjur, sambýlisfólkið Friðrik Ásgeir Hermannsson, 34 ára, og Matthildur Victoría Harðardóttir, 51 árs. Fyrir dómi reyndi Jónas að koma sökinni yfir á hina látnu Matthildi og greiddi aðstandendum aldrei þær bætur sem honum var dæmt að greiða, 10 milljónir króna. Þar að auki hlaut hann þriggja ára óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir manndráp af gáleysi.

Jónas var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna í Héraðsdómi Reykjavíkur í júnímánuði 2006. Þar var hann dæmdur í þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi og brot á siglingalögum er hann steytti bátnum á Skarfaskeri með þeim afleiðingum að Friðrik og Matthildur létust.

Fimm voru í bátnum

Jónas festi kaup á skemmtibát í Englandi og sigldi honum til landsins þann 20. ágúst árið 2005. Fékk báturinn heitið Harpa eftir eiginkonu hans, Guðjónu Hörpu Helgadóttur. Aðfaranótt 10. september þetta sama ár steytti Jónas skemmtibátnum á Skarfaskeri á Viðeyjarsundi á mikilli ferð.

Fimm manns voru í bátnum og létust tveir farþeganna í slysinu, þau Friðrik og Matthildur. Voru þau saman í skemmtiferð til að fagna því að Friðrik, sem var lögfræðingur, hefði flutt sitt fyrsta prófmál fyrir Hæstarétti. Jónas stóð við stýri bátsins og þótti sannað að hann hafi verið drukkinn. Samkvæmt dómi gerði hann ekki ráðstafanir til að bjarga farþegum bátsins, þar á meðal konu sinni og barni. Jónas var ákærður fyrir manndráp af gáleysi og brot á siglingalögum en hann neitaði staðfastlega að hafa verið við stjórnvölinn á bátnum þegar hann steytti á skerinu í Kollafirði. Við réttarhöld vegna málsins reyndi Jónas að koma ábyrgð á slysinu yfir á Matthildi. Jónas greiddi aðstandendum þeirra Friðriks og Matthildar aldrei þær bætur sem hann var dæmdur til að greiða.

- Auglýsing -

Vildi tryggja öryggi fjölskyldunnar

Auk þriggja ára fangelsisdómsins, sem staðfestur var fyrir Hæstarétti í maí 2007, var Jónasi gert að greiða aðstandendum fórnarlambanna 10 milljónir í bætur. Á meðan hann sæti inni sagðist hann hins vegar vilja tryggja fjárhagslegt öryggis fjölskyldu sinnar og því ætlaði hann ekki að borga skaðabæturnar fyrr en hann væri búinn að taka út refsinguna. Þá bjuggu þau hjónin í einbýlishúsi sem var skráð á eiginkonuna.

Eins og áður segir sigldi Jónas út á Kollafjörð föstudagskvöldið 9. september ásamt, eiginkonu sinni, ellefu ára syni og vinafólki sínu. Þegar liðið var á nóttina, rétt fyrir klukkan tvö, sigldi báturinn á Skarfasker á miklum hraða. Sonurinn var þá sofandi í káetu bátsins en aðrir í stýrishúsinu.

- Auglýsing -
Í dag starfar Jónas enn fyrir Sjómannasambandið þar sem hann er titlaður sem eftirlitsmaður.

Skemmtibáturinn var fastur á skerinu í um það bil tuttugu mínútur. Þá var bátnum bakkað í tilraun til að sigla honum skemmdum í höfn. Þegar leit út fyrir að báturinn væri að sökkva hringdi Jónas í Neyðarlínuna. Eftir að hafa siglt í um fjórar mínútur hvolfdi bátnum og ætla má að Matthildur, sem var í káetunni, hafi drukknað þá.

Langt yfir mörkum

Lögreglumenn á gúmmíbát fundu Hörpu meira en klukkutíma eftir neyðarkallið og var þá Jónas hangandi utan á bátnum. Guðjóna, eiginkona hans, og sonur þeirra sátu á kili skemmtibátsins, öll með talsverða áverka. Þá þegar hófst leitin að Friðriki og Matthildi. Lík hennar fannst fljótlega en lík hans ekki fyrr en viku eftir áreksturinn.

Viku eftir áreksturinn voru Jónas og Guðjóna yfirheyrð og höfðu þá réttarstöðu sakborninga. Talið var að þau hefðu neytt áfengis þetta kvöld en rannsóknin beindist að því að komast að því hver hefði verið við stýrið þegar báturinn steytti á skerinu en rannsókn lögreglu leiddi í ljós að það hafi verið sjálfur eigandinn. Út frá rannsókninni var Jónas kærður og síðar ákærður fyrir manndráp af gáleysi.

Fyrir dómi viðurkenndi Jónas að hafa drukkið áfengi hið örlagaríka kvöld. Um nóttina mældust 1,07 prómill í blóði hans sem er vel yfir leyfilegum mörkum. Jónas sagðist fyrir dómi þó ekki hafa fundið fyrir ölvun og gæti sjálfur metið það hvort hann gæti stjórnað báti verandi búinn að drekka. Hann hafnaði því  að hafa verið við stýrið og sagðist muna atburði kvöldsins þangað til hann lét Matthildi um stjórn bátsins.

Rannsókn á áverkum þeirra sem um borð voru leiddi hins vegar í ljós að Matthildur hefði verið í setustofu bátsins. Töldu dómarar að Jónas sjálfur hefði staðið við stýrið. Björgunarbátur var geymdur í tösku í vélarrýminu og virtist sem engar tilraunir hafi verið gerðar til að opna hann. Einnig voru hvorki neyðarblys né talstöð bátsins notuð.

Friðrik og Matthildur létust í slysinu. Blessuð sé minning þeirra.

Sorgleg saga

Jónas Garðarsson fæddist í Reykjavík þann 8. október árið 1955 og ólst upp á höfuðborgarsvæðinu. Eftir gagnfræðapróf fór hann á sjóinn og var í siglingum á skipum Eimskipafélagsins í tíu ár. Um tíma var hann einnig á íslenskum varðskipum.

Árið 1982 hóf Jónas störf hjá Sjómannafélagi Reykjavíkur, sem síðar varð að Sjómannafélagi Íslands. Árið 1991 var Jónas orðinn framkvæmdastjóri Sjómannafélagsins og árið 1994 formaður. Einnig hefur hann setið í stjórnum Sjómannasambands Íslands, Lífeyrissjóðs sjómanna, sambandsstjórnar Alþýðusambands Íslands og í sjómannadagsráði.

Jónas hefur starfað fyrir Sjómannafélagið í næstum fjörutíu ár og á sér merkilega en jafnframt sorglega sögu. Í dag starfar hann enn fyrir Sjómannasambandið en hann er titlaður sem eftirlitsmaður Alþjóðlega flutningaverkamannasambandisins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -