Siðferðisbrestur íslenskra sægreifa í suðurhöfum og sífellt lakari lestrargeta unga fólksins hrjáir íslensku þjóðina að mati Magnúsar Guðmundssonar í pistli hans í nýjasta Mannlífi.
Leitast hann við að leysa bæði vandamálin með um 300 orðum og segir hann alltaf betra að lesa fallega, sjálfum sér og öðrum til gleði og andans upplyftingar. „Lestur er fögur listgrein þegar vel er með farið,“ segir Magnús, og vitnar til skrifa Þórbergs Þórðarsonar í Bréfi til Láru:
„Alt, sem ekki kemur að „praktískum“ notum er einskisvert. Þetta er lífspeki andleysisins. Það vakir yfir helgi eignaréttarins eins og villidýr yfir bráð sinni. Heimurinn er „ég“ og „mitt“. Lóðin mín, húsið mitt, ó, togararnir mínir. Trúarbrögð þess er „framtak einstaklingsins“ og „frjáls samkeppni“, löngu úrelt lygaþvæla um nauðsyn gerspiltrar lífsstefnu. Afleiðingin er brask, fjárglæfrar, örbirgð, mannhatur, lítilsvirðing fyrir andlegum efnum, styrjaldir, drepsóttir og dauði fyrir örlög fram.“
Segir Magnús að það mætti því kannski leysa þessi tvö stóru vandamál sem angra þjóðina um þessar mundir með því að: „kenna ungu fólki og reyndar þjóðinni allri, ekki aðeins að lesa fallega, heldur með því að lesa Þórberg. Kenna því að lyfta andanum langt yfir efnið, njóta fegurðarinnar og sigrast á andleysinu.“