Heildarfjöldi staðfestra COVID-19 smita er kominn upp í 1.773 hér á landi. Aðeins tvö ný smit hafa greinst á síðasta sólarhring samkvæmt nýjustu tölum á covid.is. Virkum smitum fer fækkandi á milli daga en virk smit voru 402 í gær, þau voru 434 talsins daginn áður, laugardag.
Í gær voru 96 sýni rannsökuð á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, eitt þeirra reyndist jákvætt af COVID-19. Þá voru 285 sýni rannsökuð hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær, eitt smit greindist í þeim sýnum.
Samkvæmt tölum covid.is hafa 1.362 einstaklingar náð bata eftir að hafa smitast.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar í dag klukkan 14.00. Gestir fundarins verða Páll Matthíasson forstjóri Landspítala og Hjörtur Kristjánsson framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands en hann starfar í Vestmannaeyjum.