Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Að þessu sinni eru það Sveinn Andri og Ugla Stefanía sem komust á blað.
Góð vika – Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir
Þau duttu heldur betur í lukkupottinn Aldur, Ljóni, Katra og Evelía þegar mannanafnanefnd samþykkti í vikunni að leyfa þeim að heita nöfnum sínum. Ugla átti þó jafnvel enn betri viku en hún var meðal þeirra 100 kvenna sem breska ríkisútvarpinu þótti bera af á árinu. Spurt var: Hvernig liti framtíðin út ef hún yrði mótuð af konum? og eitt svaranna var Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, eða Owl Fisher, sem hún er þekkt undir á erlendri grundu.
Ugla hefur lengi barist fyrir réttindum trans fólks og sagðist á Facebook hæstánægð með útnefninguna. Meðal annarra á listanum voru umhverfisverndareldhuginn Greta Thunberg og þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez.
Slæm vika – Sveinn Andri Sveinsson
Þrotabúaprinsinum Sveini Andra Sveinssyni var í vikunni gert að endurgreiða þrotabúi EK1923 um 100 milljónir króna, sem hann hafði greitt sér í þóknun fyrir uppgjör á búinu. Í svörum sínum til fjölmiðla gerði Sveinn Andri lítið úr málinu og sagðist myndu frá greitt aftur, um leið og kröfum um upplýsingar til kröfuhafa væri fullnægt.
Hætt er við að veskið rýrni tímabundið í millitíðinni en ef horft er á björtu hliðarnar á lögmaðurinn eflaust fjölmargar góðar vikur í vændum, bæði þegar EK1923-peningurinn skilar sér á réttmætan hátt og svo þegar greiðslur fara að berast fyrir uppgjör WOW air. Spurningin er bara hvort flýgur fyrst; seðlarnir til Sveins Andra eða hið dularfulla WOW2?