Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Úlfar Önundarson jarðsunginn í dag: „Sannarlega maður sem setti sinn svip á samfélagið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Úlfar Önundarsson, verktaki og þúsundþjalasmiður, verður borinn til grafar í dag frá Flateyrarkirkju. Hann var fæddur á Flateyri og starfaði þar mestan sinn starfsaldur. Hann var ekki síst þekktur fyrir smíði vandaðra skipslíkana sem um árabil voru á lóninu við innkeyrsluna í þorpið. Þekktast þeirra er væntanlega Titanic.

„Ein af mínum fyrstu minningum um Úlla var að sjá hann skrúfa. Hann var að passa okkur bræður í Sandgerði, pabbi og mamma höfðu skotist eitthvað með Stínu og Önna foreldrum Úlfars. Við vorum að gera bíla úr mekkanói. Allar götur síðan man ég eftir Úlfari skrúfa og smíða, hann var ófeiminn við að láta vaða í hvað það sem honum datt í hug,“ skrifar Guðmundur Sigurðsson, félagi hans, að leiðarlokum á Facebook.

„Flest snerist það með einhverjum hætti um vélar og tæki, skrúfur og bolta. Hefur líklega verið í genunum, Önundur faðir hans var rómaður vélstjóri og eftirsóttur. Það fór líka þannig að Úlfar og bræður hans tveir Páll og Barði, hafa helgað díselvélinni allt sitt líf“.

Man að ungur bjó Úlli reiðhjólið sitt flautu og stefnuljósum sem stýrt var með járnsagablöðum rétt eins og flautunni í Fiskborgarvörubílnum og vafalaust fleiri bílum. Allt smíðað frá grunni og lóðað saman og vafið einangrunarbandi.

Talandi um flautu á reiðhjóli, 1966 fór ég í sveit um skamma hríð hjá Halldóri á Kirkjubóli í Bjarnadal á meðan foreldrarnir fóru suður að sækja sér nýjan Skoda bíl.
Pabbi fékk lánaðan Moskvich bíl Önna Páls til að keyra mig í sveitina. Úlli kom með og sat vinstramegin aftur í, hann var með reiðhjólaflautu með sér og laumaðist til að gera rifu á gluggann og setja flautuna út og skrúfaði svo upp aftur þannig að flautan hékk á vírnum í rofann. Svo var byrjað að flauta og flauta. Pabbi skildi ekki neitt í neinu hvergi bíl að sjá en samt var sem einhver vildi komast fram úr.

Svo sprakk út hlátur í aftursætinu og málið þar með upplýst. Þetta er fyrsta sem ég man af stríðni Úlla en hann átti góðlátlega stríðni í stærri skömmtum en gerist og gengur. Eins og flestir vita er fátt sem kryddar veröldina eins vel og skemmtileg stríðni.

- Auglýsing -

Úlfar varð fyrsti lyftarastjórinn á Flateyri þegar Hjálmur hf. keypti Hyster gaslyftara um eða laust eftir 1970. Það þótti virðingastaða í frystihúsinu enda um mikla tæknibyltingu að ræða.

Minnisstæð er mér langferð sem Úlli fór á þessu hægfara tæki langt inn á Strönd til að sækja Broncojeppa Palla bróður síns. Eitthvað hafði bilað í jeppanum, brotnað undan honum afturhjól eða eitthvað slíkt. Úlli lyfti honum upp að aftan og ýtti bílnum þannig líklega innan úr Grísavík sem leið lá út á Flateyri. Þetta apparat var fjaðralaust, húslaust og allslaust og vegurinn holóttur malarvegur.

Þegar Úlli hafði aldur til fékk hann sér vörubíl og stofnaði í framhaldi af því verktakafyrirtækið Vesturfell í Hnífsdal.
Þar starfaði ég hjá honum við vegargerð, snjóruðning og allan fjandann annan er til féll. Það var skemmtilegur tími og þar litaði stríðnin hans heldur betur hversdaginn.
Þá bjó ég hjá honum, Steinunni konu hans og börnunum tveimur á Stekkjargötunni. Þar var líka verkstæðishúsið Milljón og var þar oft mikið líf, glens og gáski.

- Auglýsing -

Um árabil rak hann verkstæði í Hafnarfirði og það hefur Kolbeinn Óskarsson gröfukall sagt mér að enginn hafi náð að skipta um stimpla í gröfunni hans á skemmri tíma en Úlli.
Í áranna rás hefur Kolli einlægt dáðst að lagni og færni Úlla í viðgerðum og reddingum. Á þessu verkstæði smíðaði kappinn sér öflugan og mikinn fjallabíl sem hann fór á um gjörvallt hálendi Íslands hvort heldur var að sumri eða vetri.

Síðar kom hann sér upp Lincoln Continental limósínu sem notuð hefur verið við hátíðleg tækifæri á Vestfjörðum og almennt þegar eitthvað stórt stendur til.

Úlfar var ekki alveg ókunnur Lincoln bílum, ungur átti hann Íburðarmikinn Lincoln 1964 með sjálfsmorðshurðum og öllum íburðarpakkanum sem Bandaríki norður Ameríku buðu uppá.
Einhverju sinni var ég hjá honum í garðinum við Sandgerði þegar hann var að bóna bílinn, hann var með ákveðnar skoðanir á því hvernig maður ætti að beita tvistinum en minnisstæðust er mér einlægni Ásu Álfsdóttur ömmu Úlla þegar hún var að spegla sig í lakkinu og hafði á orði hvort ætti að keyra brúðhjónum svo glansandi fínn fannst henni bíllinn.

Þekktast þessara skipa er vafalaust farþegaskipið fræga, Titanic

Úlli gerði sér upp snoturt hús á Flateyri með bílskúra sem ná yfir tvær götur. Þar hefur hann heldur betur verið iðinn við handverk. Líkast til er hann hvað þekktastur fyrir þann fjölda skipslíkana sem hann hefur smíðað í þessari skipasmíðastöð sinni.

Ófáir ferðamenn hafa komið við hjá honum til að dást að smíðinni auk þess sem hann hefur verið með fjölda þessara skipa á floti á sumrum fyrir fólk að dást að.

Þekktast þessara skipa er vafalaust farþegaskipið fræga, Titanic sem hvert mannsbarn kann deili á.

Fram til síðasta dags var Úlfar í véla- og bílaútgerð ásamt því að smíða skip.

Þetta voru einstakir bræður, Úlli, Palli og Barði. Ljúfir í lunderni og skemmtilegir eins og þeir eiga kyn til. Stína Önna Páls móðir þeirra og Önni Páls voru mikið og kært sómafólk sem maður einhvern veginn þekkti alltaf og bara af ljúfmennsku. Ásu ömmu þeirra kynntist í heimsóknum með mömmu og ömmu svo hef ég hlustað á útvarpsþátt sem Illugi Jökulsson var með um Álf Magnússon langafa þeirra bræðra. Þannig að fjölskyldan er mér ekki ókunn.

Það var mikið áfall að frétta af andláti Úlfars fyrir aldur fram, mér var verulega brugðið og vil votta Steinunni, Einari og Kristínu, Palla og Barða og öllum ættingjum og vinum mínar bestu samúðarkveðjur.

Úlfar Önundarson var sannarlega maður sem setti sinn svip á samfélagið og langt því frá að honum verði gerð skil í einni svona færslu. Hér vantar að vonum margt. Man meira að segja eftir honum spila á trommur á barnaballi í Samkomuhúsinu á Flateyri.

Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er Sandgerði hús á Flateyri en ekki þorp á Suðurnesjum,“ skrifar Guðmundur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -