Á laugardaginn mun myndlistarmaðurinn Úlfar Örn opna sýninguna Rætur í Gallery Grásteini á Skólavörðustíg 4. Þar sýnir hann fígúratíf verk sem unnin eru á árinu 2019, málverk og silkiprent.
Í vor dvaldi Úlfar á vinnustofu í Aþenu, Kypseli Print Studio, hjá myndlistarkonunni Eleanor Lines og vann þar silkiprent af verkum sínum sem hann sýnir nú.
Úlfar Örn lærði grafíska hönnun og í MHÍ í Reykjavík og myndskreytingar í Konstfack í Stokkhólmi. Hann hefur unnið við hönnun, auglýsingagerð og myndskreytingar í mörg ár en samhliða alltaf unnið að list sinni.
Hann er þekktur fyrir áhugaverða nálgun sína í olíumálverkum af íslenska hestinum þar sem augað er í forgrunni og verk hans prýða bæði opinberar byggingar og mörg einkasöfn. Úlfar hefur haldið fjölmargar einkasýningar á Íslandi og tekið þátt í samsýningum erlendis.
Sýningin Rætur opnar klukkan 14:00 á laugardaginn, 2. nóvember, og stendur yfir til 13. nóvember. Gallery Grásteinn er opið alla daga vikunnar frá kl. 10-18 nema til kl. 17 á sunnudögum.