Mun færri keyrðu í gegnum Vaðlaheiðargöng í júnímánuði en áætlanir gerðu ráð fyrir. Tekjur eru sömuleiðis langt undir áætlunum.
Á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda segir að áætlanir hafi gert ráð fyrir að um 90 prósent allrar bílaumferðar færi í gegnum göngin. Raunin er hins vegar sú að hlutfallið er 70 prósent í júní. Af þessu leiðir að tekjur sumarsins eru 34 til 40 prósent minni en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir ýmsar skýringar kunna að liggja að baki. Framkvæmdir standi enn yfir og að fleiri hafi nýtt sér að fyrirframgreiða ferðir og fengið góðan afslátt. „Reyndin er sú að rútur kjósa að fara um skarðið og spari sér þannig greiðslu í göngin. Við munum þegar líður á sumarið greina þetta betur og finna út af hverju fleiri ákveða að aka um Víkurskarðið en við bjuggumst við. Það er engin ein skýring á þessu og miklu heldur margþættar ástæður.“