Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Umferðin eins biluð og hægt er að ímynda sér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ingvar Rúnar Jóhannesson, vélfræðingur hjá Kölku, tók þátt í ævintýralegri keppni á Indlandi á dögunum ásamt vinum sínum Elmari Gunnarssyni og Hróðmari Jónssyni. Hann segir að heimamenn hafi tekið þeim vel og verið hjálpsamir en að sama skapi hlegið mikið að þeim.

Ingvar, til hægri, á toppnum og Hrói, til vinstri, hangandi á Tuk Tuk-inum.

„Það var nú bara þannig að Hrói sá auglýsingu um keppnina á Instagram og áttaði sig strax á að þarna væri á ferðinni eitthvað nógu skemmtilegt, heimskulegt og öðruvísi til að plata mig og Ella með sér,“ svarar Ingvar hlæjandi þegar hann er spurður út í tilurð þess að vinirnir þrír tóku þátt í Rickshaw Run India sem haldin er í Indlandi þar sem ekið er á svokölluðum Tuk Tuk (Auto Rickshaw), 2500 kílómetra leið.

„Ferðalagið hófst í Jaisalmer sem er rétt hjá landamærum Pakistan og svo keyrðum við niður allt Indland til Kochi. Við villtumst helling á leiðinni og fórum út úr leið þannig að við höldum að við höfum keyrt tæpa 3500 kílómetra í heildina.“

Þeir reyndu að aka um það bil 200-300 kílómetra á dag en það gat tekið allt upp í tíu klukkustundir þegar vegirnir voru verstir og yfir fjallvegi að fara. „Tuk Tuk-inum fannst hitinn og hæðirnar ekkert sérstaklega spennandi svo oft þurftu tveir að fara úr bílnum og hlaupa á eftir honum til að hann kæmist upp. Ferðin gekk betur en við áttum von á og við komumst í gegnum allar bilanir sjálfir eða með hjálp vinalegra Indverja.“

„Tökum lífinu ekki svo alvarlega að við gleymum að hafa gaman.“

Hann segir að farartækið þeirra hafi verið 2003 módel með 150 cc tvígengis mótor, fjögurra gíra beinskiptingu og að hann minnir sjö hestöfl með endahraða upp á 60 kílómetra á klukkustund, niður brekku. „Við kölluðum hann bara Nikka enda myndskreyttur með Nicolas Cage, besta leikara í heimi. Við vorum sem sagt allir þrír á sama farartækinu enda nauðsynlegt að geta skipst á að keyra, bæði vegna þess að þetta voru langar vegalengdir og að umferðin var auðvitað eins biluð og hægt er að ímynda sér. Auk þess er miklu skemmtilegra og óþægilegra að vera fleiri en færri,“ segir Ingvar.

Mælir ekki með að keyra í myrki

Hrói, til vinstri, og Elmar, til hægri, að fylla á tankinn einhvers staðar úti á vegi.

„Það eru engin verðlaun fyrir sæti og keppnin er fyrst og fremst haldin til að gera lífið skemmtilegra (e. make life less boring) sem er aðalsmerki Adventurist sem halda keppnina,“ heldur Ingvar áfram. „Auk þess er þetta til að vekja athygli á hjálparsamtökunum Coolearth og safna peningum fyrir þau. Við ákváðum strax að koma ekki í mark fyrr en rétt áður en tímatakmörk runnu út til að skoða og upplifa eins mikið og við gátum af Indlandi. Við vorum bara þrír og algjörlega upp á eigin spýtur. Ef eitthvað bilaði eða við lentum í einhvers konar veseni þá þurftum við annaðhvort að redda því sjálfir eða fá heimamenn með okkur í lið, sem að var aldrei neitt vandamál.“

- Auglýsing -

Svona farartæki eru sjaldséð á Íslandi og því æfðu þeir sig ekki sérstaklega fyrir ferðina. „Ég er með nokkra reynslu af mótorhjólum sem kom sér vel og Elli og Hrói eru fæddir „mótorhjólistar“ og því eldsnöggir að mastera Nikka.“

Það kom þeim félögum á óvart hve heimamenn voru vinalegir og alltaf tilbúnir að hjálpa. „Ef eitthvað bilaði hjá okkur þá voru strax komnir tíu „bifvélavirkjar“ í kringum okkur sem vildu hjálpa sem gat stundum orðið aðeins of mikið en allir meintu vel. Okkur var langoftast vel tekið og mikið hlegið að okkur þar sem heimamenn eru ekki vanir að sjá túrista á slíkum farartækjum. Svo fannst þeim enn fyndnara þegar við sögðum þeim hvaðan við vorum að koma og hvert við værum að fara. Og varðandi umferðina þá bara mæli ég alls ekki með því að keyra í myrkri í Indlandi því þeim finnst ekkert athugavert við að keyra á móti umferð ef þeir eru að fara stutta vegalengd.“

Lægst í „fæðukeðju“ þjóðveganna

- Auglýsing -

Ingvar segir að þessi reynsla hafi verið ómetanleg og ótrúleg á sama tíma. „Að sjá allar þessar öfgar í Indlandi, hvort sem það er fátæktin og auðæfin eða ruslið og svo fegurðin, þetta er ótrúlegt land og hvet ég alla til að fara þangað því þarna er menning sem þú getur ekki upplifað annars staðar og maturinn er auðvitað heimsklassa. Ég mæli að sjálfsögðu með því að ferðast á Tuk Tuk því þannig fáið þið að upplifa að vera lægst í fæðukeðju þjóðveganna, stoppið þar sem þið mynduð annars ekki stoppa. Svo finnið þið alla lykt og skynjið umhverfið eins vel og mögulegt er. Hitinn var líklega það erfiðasta við ferðalagið en við vorum þarna á heitasta tímabilinu. Þegar við stoppuðum þá hætti vindkælingin og við fljótlega orðnir blautir í gegn af svita. Allt ferðalagið var frábært; að koma sér vel fyrir í Tuk Tuk-inum, fá vindinn í andlitið, njóta útsýnisins í bæjum og sveitum, hitta fólkið og vera stopp úti á þjóðvegi með bilað ökutæki. Þetta var æðislegt og maður varð aldrei þreyttur á því.“

Kenndi þessi reynsla þér eitthvað? „Hún kenndi mér að taka lífinu alls ekki of alvarlega en einnig að muna hvað við höfum það í raun gott hérna á Vesturlöndunum og Íslandi. Hættum að taka öllu sem sjálfsögðum hlut eins og hreinu rennandi vatni og öryggisnetinu sem Íslendingar búa við. Tökum lífinu ekki svo alvarlega að við gleymum að hafa gaman,“ segir Ingvar að lokum.

Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -