Umhverfisstofnun hefur gefið út skýrslu um niðurstöður mælinga á efnainnihaldi svifryks um síðustu áramót.
Í grein á vef Umhverfisstofnunar um skýrsluna kemur fram að að sýnasöfnun hafi farið fram á loftgæðamælistöðvunum við Grensásveg í Reykjavík og Dalsmára í Kópavogi á tímabilinu 27. desember 2018 – 10. janúar 2019 þar sem mæld voru sextán mismunandi gerðir fjölhringja kolefnissambanda (PAH 16) og sautján frumefni.
Í ljós kom að veruleg aukning varð á hlutfalli ýmissa efna í svifrykinu um áramótin. Þau efni sem hækka langmest eru efni sem mætti kalla einkennisefni fyrir mengun frá flugeldum.
Í grein sinni hvetur Umhverfisstofnun þá alla til hófsemi í notkun flugelda og undirstrikar að mengun frá flugeldum er „raunverulegt vandamál hér á landi“. Stofnunin bendir á að loftmengun hefur neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa eins og börn, aldraða og fólk sem er veikt fyrir.
„Svifryk veldur ekki einungis óþægindum heldur skerðir lífsgæði margra. Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir og því er mikilvægt að minnka verulega magn flugelda sem skotið er upp um áramót þar sem þeim fylgir ávalt mikið svifryk,“ segir meðal annars í greininni.
Skýrslu Umhverfisstofnun má lesa í heild sinni hérna.