Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

„Umhverfisvandinn og loftslagsbreytingar ógna samfélagi og lífsskilyrðum komandi kynslóða“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hjalti Hrafn Hafþórsson heimspekingur er ekkert að fara í kringum hlutina og segir að „umhverfisvandinn, loftslagsbreytingar og aðrar gagnverkandi umhverfiskrísur, ógna nú öllu mannlegu samfélagi og lífsskilyrðum komandi kynslóða á jörðinni.“

Og bætir við:

„Þetta gæti virst vera yfirdrifin staðhæfing en hún er því miður sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og er byggð á traustum vísindum.

Loftslagsbreytingar munu í náinni framtíð leiða til gífurlegra hamfara. Ef fram fer sem horfir og ekki er gripið inn í uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu á afgerandi hátt þá mun hlýna meira á jörðinni á nokkrum áratugum en gerist að öllu jöfnu á mörgum árþúsundum þegar jörðin kemur út úr ísaldarskeiðum,“ og að „það mun leiða til víðtækrar eyðileggingar vistkerfa, einkum vegna þurrka sem munu gera gróðursæl svæði að eyðimörkum, og bráðununar jökla sem leiðir til uppþornunar árkerfa og hækkunar á yfirborði sjávar.

Hjalti færir í tal að „lifandi vistkerfi og efnislegar hringrásir í náttúrunni mynda net gagnverkandi tengsla og þegar margir þræðir slitna byrjar netið að rakna upp með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Að hans mati er umhverfisvandinn margþættur og orsakir og áhrif mismunandi vandamála skarast:

- Auglýsing -

„Þó loftslagsbreytingar séu mest aðkallandi vandamálið þá er ekki rétt að draga úr öðrum umhverfisvandamálum á borð við notkun eiturefna, jarðvegseyðingu, eyðingu vistkerfa, tap á líffræðilegum fjölbreytileika, efnamengun, og svo framvegis. Mannkynið er í ósjálfbærum farvegi á mörgum sviðum og stefnir í að raska stórfenglega sumum af mikilvægustu hringrásarferlum náttúrunnar.“

Hann nefnir að „við höfum gengið svo nærri lífríki plánetunnar að tap á líffræðilegum fjölbreytileika og tíðni útrýminga er sambærileg við stærstu útrýmingarskeið jarðsögunnar.“

Hjalti segir drifkraftinn á bak við umhverfisvandann sé það efnahagslega ferli sem kallað er kapítalismi. Og það er ekki hægt að takast á við loftslagsbreytingar og hinn víðari umhverfisvanda innan kapítalismans:

- Auglýsing -

„Kapítalisminn er rót vandans og getur ekki verið hluti af lausninni án þess að brjóta gegn sínum eigin innri lögmálum. Hvert það samfélag sem vill takast á við umhverfisvandann getur ekki gert það án þess að takast á við kapítalismann á sama tíma. Samtök og einstaklingar sem berjast fyrir náttúrunni geta ekki náð markmiðum sínum án þess að taka stefnuna á nýja samfélagsgerð handan kapítalismans. Það er ekki lengur aðeins réttlætismál fyrir vinnandi stéttir að bylta auðvaldinu heldur er það bókstaflega lífsspursmál fyrir jörðina, náttúru hennar, og allar komandi kynslóðir um ókomna tíð.“

Hann ljær máls á því að „þessar staðhæfingar ganga líklega þvert á það sem almennt heyrist um loftslags- og umhverfismál og lausnir á þeim. Þær lausnir sem lagðar eru til af stjórnvöldum; stórum umhverfisverndarsamtökum og fyrirtækjum og þær lausnir sem rætt er um í fjölmiðlum lúta nánast eingöngu að því að gera kapítalismann sjálfbærann eða grænan og umskiptin eiga jafnvel að stuðla að grænum hagvexti og hagsæld innan hins kapítalíska kerfis.“

Og bætir við:

„Með öðrum orðum þá hallast umræða um loftlags- og umhverfismál nánast eingöngu að lausnum sem ögra ekki efnahagslegum, pólitískum og menningarlegum valdatengslum kapítalísks samfélags þrátt fyrir að slíkar lausnir geti ekki tekið á undirliggjandi drifkröftum eyðileggingarinnar.“

Einnig að „kapítalisminn hefur í margar aldir verið fordæmdur og dásamaður sem drifkrafturinn bak við bæði auðlegð okkar og arðrán. En þó liggur ekki alltaf ljóst fyrir hvað átt er við með hugtakinu kapítalismi. Orðið er ekki notað sem nákvæmt hugtak í daglegu tali. Þannig getur það átt við efnahagskerfi í mjög víðum skilningi – líkt og gert er hér að ofan – frjálsa markaði, pólitísk kerfi eða hugmyndafræði, ákveðin stétta og valdatengsl, en einnig ákveðna menningu og gildi. Í þeim tilgangi að útskýra undirliggjandi drifkrafta kapítalismans getur verið gagnlegt að skilgreina hann nákvæmar.“

Í ofur einfaldaðri mynd má segja að kapítalismi sé ákveðið samband peninga og framleiðslu þar sem mögulegt er að ávaxta peninga með því að fjárfesta þeim; umbreyta þeim í kapítal eða auðmagn, í einhverju efnahagslegu ferli, til dæmis framleiðslu einhverrar vöru eða þjónustu:

„Það hefur engin ástæðu til þess að setja peninga inn í slíkt efnahagslegt ferli nema sú manneskja búist við að fá meiri pening til baka á endanum. Því verða nauðsynlega að vera til meiri peningar í hagkerfinu á morgun en eru til í dag. Hagkerfið verður að vaxa ef kapítalisminn á að ganga upp.“

Hjalti segir þetta vera ástæðuna fyrir því „að um allan heim hafa stjórnmálamenn hagvöxt á heilanum. Vöxtur í kapítalísku hagkerfi er óhjákvæmilegur, hann er ekki aukaverkun eða eitthvað sem hægt er að breyta eða takmarka með regluverki. Ef hagkerfið er ekki að vaxa verður kreppa, sem þýðir að kapítalistarnir fá ekki arð af fjárfestingum sínum og draga peningana sína til baka eða flytja þá annað með tilheyrandi gjaldþrotum, samdrætti og atvinnuleysi í viðkomandi hagkerfi.“

Og nefnir að í samhengi við umhverfismál er „mikilvægt að skilja að kapítalískt hagkerfi vex ekki jafnt og þétt, heldur í veldisvexti. Það þýðir að eftir því sem á líður vex kerfið hraðar og hraðar. Kerfið sem slíkt tvöfaldar sig reglulega. Í hvert skipti sem stjórnmálamaður fagnar 3,5% hagvexti seinasta árs er hann í raun að segja að eftir 20 ár verði hagkerfið helminginn stærra að því gefnu að það takist að viðhalda slíkum hagvexti. Eftir 40 ár verður hagkerfið svo fjórum sinnum stærra. Eftir 60 ár verður það átta sinnum stærra. Hver sá stjórnmálamaður eða kapítalisti sem fagnar 3,5% hagvexti er í raun að segja að sextán sinnum stærra hagkerfi með samsvarandi aukningu í mengun, ágangi á auðlindir og eyðingu vistkerfa sé æskileg framtíð árið 2100.“

Einnig bendir hann á að það sé „óhjákvæmilegt að hagkerfi heimsins rekist á náttúruleg takmörk fyrir vexti. Fyrsta og augljósasta takmörkun sem við höfum nú þegar keyrt í gegnum er geta loftslagsins til þess að taka við útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Því miður eru áhrifin af því lengi að koma fram og á meðan virðist það vera markmið flestra þjóðríkja heims að keyra sitt kapítalíska hagkerfi áfram á fullum krafti sem mun gera afleiðingarnar þeim mun verri.

Fyrir utan stöðugan vöxt hefur kapítalískt kerfi margar aðrar aukaverkanir. Ein er samþjöppun auðs í heiminum til þeirra sem eiga peninga og fjárfesta þeim; þeir ríku verðar ríkari. Í ferlinu er innbyggður stigvaxandi efnahagslegur ójöfnuður og stéttaskipting. Einnig er mikilvægur munur á valdi og stöðu þeirra sem leggja auðmagn inn í ferlið og þeirra sem vinna í framleiðslu hluta ferlisins; það er að segja stétt kapítalista og stétt verkamanna. Mikilvægar ákvarðanir um lífsviðurværi og framtíð fólks eru reglulega teknar í krafti og í þágu auðmagnsins án nokkurrar lýðræðislegrar aðkomu þeirra sem ákvörðunin hefur bein áhrif á. Reyndar eru margar af mikilvægustu ákvörðunum um framtíð plánetunnar og lífsviðurværi komandi kynslóða teknar af stjórnum fyrirtækja án nokkurs gagnsæis eða lýðræðislegrar aðkomu almennings.“

Hjalti nefnir að „ef drifkrafturinn í hagkerfinu heilt á litið er fjárfesting peninga, frekar en til dæmis það að mæta grunnþörfum fólks, þá má kalla kerfið sem slíkt kapítalískt. Í slíku kerfi er tilhneiging til þess að hugsa efnahagslegar ákvarðanir út frá því sem við getum kallað innri rökvísi kapítalismans; það er að fjárfestingar skili arði í náinni framtíð. Stjórnir fyrirtækja geta þannig tekið ýmsar ákvarðanir um hvernig framleiðslu, orkunotkun, auðlindanámi og losun mengunar er háttað en aðeins svo lengi sem rök eru fyrir því að það skili arði í náinni framtíð. Ef slíkar ákvarðanir fara að taka mið af því hvort mögulegt verði að lifa á jörðinni eftir 200 ár og taka skynsamlegar ákvarðanir út frá sjónarmiðum sjálfbærni sem koma niður á skammtíma gróða þá fara hlutabréf að falla í verði og kapítalistar færa peningana sína annað. Kapítalískt kerfi mun alltaf hafa stefnu afmarkaða af innri rökvísi kerfisins og hagsmunum auðmagnsins. Það mun alltaf stefna að skammtíma gróða og auknum hagvexti og með því auknum ágangi á náttúruna.“

Þrátt fyrir þetta eru nánast einu lausnirnar sem haldið er að „okkur“ í loftslags- og umhverfismálum settar fram innan kapítalismans. Og á heildina litið virðist hinn svokallaði græni kapítalismi grundvallast á þeirri tálsýn að kapítalisminn geti frátengt sig náttúrunni og skapað vöxt án þess að ofnýta auðlindir eða gefa frá sér mengun ef ríkisstjórnir innleiði regluverk og hvatakerfi þar að lútandi:

„En svo lengi sem innri rökvísi kapítalismans er leiðarljós allra mikilvægra ákvarðana er drifkrafturinn alltaf í átt að því að auka arðbærni frekar en sjálfbærni. Hvatakerfi virka aðeins að því marki að hvatarnir auki arðbærni, annars eru þeir hunsaðir. Ef slíkir hvatar eiga að virka verða þeir á endanum að greiðslu á almannafé inn í kapítalíska hagkerfið til þess eins að viðhalda auðsöfnun hinnar kapítalísku stéttar.“

Hjalti vekur athygli á því að „regluverk aftur á móti tekur því sem gefnu að ríkið geti sett reglur sem hamla þess eigin hagkerfi og farið eftir þeim reglum. Hið vestræna þjóðríki, þó það sé yfirborðslega lýðræðislegt, er heltekið af hagsmunum kapítalismans og stéttahagsmunir auðvaldsins hafa mun meira vægi en atkvæði almennings sem að öllu jöfnu fær að velja á milli flokka með lítillega mismunandi kapítalískar áherslur á nokkurra ára fresti,“ og líka að ef „ríkið innleiðir reglur sem hefta hagvöxt til þess að vernda náttúruna leiðir það til kreppu, atvinnuleysis og flótta auðmagns frá landinu þegar kapítalistar ákveða að fjárfesta annarstaðar.

Vegna þess hvernig valdið liggur hjá auðvaldsstéttinni og vegna stöðugt yfirvofandi kreppu verður ríkisstjórn í vestrænu lýðræðisríki að taka ákvarðanir út frá innri rökvísi kapítalismans og hefur mjög takmarkað svigrúm til að setja regluverk eða skatta. Í flestum tilfellum mun ríkið vernda skammtíma gróða kapítalista og áframhaldandi hagvöxt frekar en náttúruna og framtíðarvelferð sinna eigin borgara.“

Hjalti segir að því sé líka oft haldið fram að kapítalisminn muni stuðla að framþróun nýrrar tækni sem mun bjarga okkur. En tæknilausnir eru líka óraunsæjar:

„Það er ekki í grundvallaratriðum hægt að frátengja hagkerfið náttúrunni. Flest allar tæknilausnir eru því ekki lausnir, heldur tilfærsla á vandamálinu. Ef það á að leysa loftslagsvandann með rafbílavæðingu hvernig á þá að leysa mengun í framleiðslu nikkels og liþíums í bílabatteríum? Það hentar kapítalismanum ágætlega að halda á lofti tæknilausnum; það þýðir dýr og flókin framleiðsluferli með seljanlega vöru á hinum endanum; það þýðir nýir markaðir og meiri gróði, en er í besta falli gálgafrestur á umhverfisvandanum. Trú á tækniframfarir er gífurlega stór þáttur í menningu okkar og svo djúpt innrætt að mörg okkar trúa því nánast blint að tækniframfarir séu óhjákvæmilega hluti af lausninni en geti aldrei verið hluti af vandamálinu.“

Og bætir við:

„Jafnvel tækniframfarir sem miða að aukinni skilvirkni skila sér ekki í umhverfisáhrifum vegna þess að aukin skilvirkni gefur heildarkerfinu einfaldlega svigrúm til að vaxa hraðar. Vöxtur heildarhagkerfisins étur þannig upp umhverfislegan gróða af tækniframförum. Það er ekki mikið gagn í að byggja sólarorkuver ef orkan sem það framleiðir kemur ekki í staðinn fyrir kolaorkuna heldur bætist einfaldlega við stöðugt vaxandi hagkerfi þar sem þörf er fyrir stöðugt meiri orku; að sama skapi er sparneytnari bílvél ekki að gagnast umhverfinu ef það eru stöðugt fleiri og fleiri bílar á götunni. Jafnvel víðtæk rafbílavæðing í heiminum, svo mikil að það hefði áhrif á olíuverð, myndi einfaldlega gera olíu að ákjósanlegri og ódýrari orkugjafa í öðrum efnahagslegum ferlum. Í kapítalísku hagkerfi eru öll slík svigrúm til að minnka framleiðslukostnað og auka gróða nýtt og líkleg útkoma væri aukin olíunotkun í heiminum en ekki minni.“

Hjalti talar um lausnir:

„Allir undirliggjandi drifkraftar kapítalísks hagkerfis miða að því að hámarka framleiðslu og hámarka neyslu og hámarka með því ágang manna á náttúruna í endalausu og stigvaxandi ferli eyðileggingar í þágu gróða. Því miður eru ákvarðanir teknar út frá innri rökvísi kapítalismans samsvarandi félagslegu sjálfsmorði þegar þær eru skoðaðar út frá umhverfissjónarmiðum. Það sem við þurfum er að lágmarka framleiðslu og neyslu innan þess ramma til að mæta grunnþörfum allra til mannsæmandi lífs og getu náttúrunnar til þess að endurnýja sig,“ og segir einnig að „ríkjandi stéttir munu seint leggja til lausnir sem grafa undan auði þeirra og valdi; Þess vegna eru þær lausnir á umhverfisvandanum sem fyrir liggja lítið annað en ófullnægjandi hálfkák. Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og öðrum umhverfisvandamálum eru að öllu jöfnu skipulagðar út frá því hvað er talið mögulegt innan pólitískrar heimsmyndar hnattræns kapítalisma. Frá þeim upphafspunkti er síðan reynt að teygja áætlanir eins langt og mögulegt er í átt að þeim takmörkum sem við þurfum að ná.“

En það dugar þó „sjaldnast til. Við ættum hins vegar að gera vísindin og efnislegan veruleika að upphafspunktinum í öllum okkar áætlunum. Gera áætlanir sem miða að því að ná þeim takmörkum sem þarf og aðlaga pólitískan og efnahagslegan veruleika að þeim. Það er auðvitað ekki hægt án þess að grafa undan grundvallar forsendu kapítalismans, að endalaus auðsöfnun og hagvöxtur séu möguleg, og með því riðla pólitísku og efnahagslegu valdajafnvægi heimsins. En pólitísku og efnahagslegu valdi er hægt að bylta sama hversu rótgróið það kann að virðast. Efnislegur veruleiki náttúrunnar og lögmál eðlisfræðinnar eru hins vegar óhagganlegar staðreyndir.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -