Rúmlega 51 þúsund einstaklingar fylgjast með Manuelu Ósk á Instagram en að hennar mati fær hún ekki eins mörg „like“ og ætla mætti miðað við fylgjendafjöldann.
Manuela Ósk Harðardóttir, framkvæmdastjóri Miss Universe, undrar sig á þeim litlu viðbrögðum sem hún fær að jafnaði við myndum sínum á Instagram ef miðað er við fjölda fylgjenda.
Þess má geta að Manuela Ósk er með rúmlega 51 þúsund fylgjendur á Instagram. Hún fær gjarnan 300-700 „like“ við myndir sína. Manuelu þykir það ekki eðlileg tölfræði og vekur athygli á þessu á Instagram í dag.
„Fylgjendur ættu ekki bara að vera fylgjendur, þeir ættu að vera stuðningsmenn,“ skrifar Manuela meðal annars. Hún tók þá fram að hún væri ánægð með rúmlega 1000 „like“ sem ein af hennar nýjustu myndum fékk.
Þá birti hún skjáskot af tölfræðiupplýsingum um eina tiltekna mynd. Þegar skjáskotið var tekið hafði myndin verið skoðuð rúmlega 19 þúsund sinnum en 773 fylgjendur höfðu sett „like“ á myndina. „Þetta er svo shitty,“ skrifaði þá Manuela.
Manuela er greinilega ekki ein um að þykja þetta undarlegt því hún birti skjáskot af skilaboðum sem hún fékk frá Instagram-notanda sem tekur undir með henni. „Þoli ekki fólk sem njósnar en lækar aldrei.“