Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-1 C
Reykjavik

Undrast að umræðan skuli vera farin að snúast um hjónabönd manna og dýra

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir ákveðin viðbrögð við tillögu hans um breytingu á hjúskaparlögum hafa komið sér í opna skjöldu.

„Ég bjóst ekki alveg við að fólk færi að halda því fram að næsta lógíska skref gæti þá orðið hjónabönd manna og dýra, sem þetta snýst auðvitað ekki um,“ segir Björn, þegar hann er spurður hvort hann hafi átt von á að tillaga hans um breytingu á hjúskaparlögum fengi jafnmikil viðbrögð og raun ber vitni. Á dögunum lagði Björn til að lögunum yrði breytt með þeim hætti að hjúskapur og skráð sambúð einskorðist ekki lengur við tvo einstaklinga, heldur geti „átt við um fleiri en tvo einstaklinga, skylda sem óskylda“. Mikil umræða hefur skapast vegna málsins og eru afar skiptar skoðanir á tillögu þingmannsins.

„Þetta eru auðvitað ekki nýjar gagnrýnisraddir. Þetta eru nákvæmlega sömu gagnrýnisraddir og heyrðust þegar hjúskaparlögum var breytt í sambúð tveggja einstaklinga,“ segir hann og á við þegar breytingar voru gerðar á íslenskum hjúskaparlögum árið 2010, en eftir að þær tóku gildi einskorðast hjónabönd ekki lengur við gagnkynja pör á Íslandi. „Þessar raddir hafa heyrst undanfarna áratugi í tengslum við baráttu hinsegin fólks.“

Annars segist Björn hreinlega furða sig á því að það skuli vefjast fyrir sumum að hjúskapur geti verið á milli fleiri en tveggja einstaklinga. „Þá erum við ekki að leggja sama skilning í orðið „hjúskap“,“ segir hann með áherslu. „Ég er einungis að horfa á þau lagalegu réttindi og skyldur sem sambúð eða hjúskapur gefur þeim einstaklingum sem gera með sér slíkan samning. Klassískur skilningur á hjónabandi eða hjúskap sem felur yfirleitt í sér einhvers konar líkamlega sambúð kemur þessu máli ekkert við.“

Ekki ávísun á svindl

Björn segir sömuleiðis óskiljanlegt af hverju einhverjir hafi áhyggjur af því að verði breytingin á hjúskaparlögum að veruleika kunni einhverjir að sjá sér leik á borði og svindla á kerfinu. „Hver einn og einasti einstaklingur á auðvitað að hafa sín réttindi. Núverandi kerfi sviptir fólk stuðningi ef það skráir sig í sambúð og setur fólk í ákveðnar fátæktargildrur eða veldur því að það er fjárhagslega upp á maka sinn komið.

- Auglýsing -

Skráning í sambúð eða hjúskap á ekki að hafa áhrif á réttindi einstaklingsins en gefur mögulega sameiginleg réttindi til viðbótar. Það má leiða að því líkur að núverandi kerfi búi til sambúðarvandamál sem leiðir til þess að fólk svindli með því að skrá sig úr sambúð til þess að fá ódýrari leikskólavist eða hærri barnabætur.
Spurningin um hvernig ætti því að svindla á kerfinu með því að skrá sig í sambúð með fleiri en einum öðrum er því eilítið öfugsnúin miðað við núverandi aðstæður.“

Einhverjir hafa þó hrist hausinn og spyrja hvort það séu ekki brýnni baráttumál á þingi, hvernig svararðu því?
„Þingið gerir mjög margt á sama tíma. Ef þingið gæti drattast til þess að klára eitthvað af þessum endalaust mörgu baráttumálum þannig að það sé ekki alltaf hlaðið verkefnum þá þyrftum við kannski ekki alltaf að svara þessari spurningu. Það má gera ýmislegt annað þó að það sé ekki búið að útrýma fátækt.“

En hvað varð til þess að þú ákvaðst að leggja fram þessa tillögu? „Þetta hefur verið að gerjast í hausnum á mér í langan tíma, allt frá því þegar ég fékk skattkort sem ég gat ekki samnýtt með móður minni, sem var einstæð þegar ég var unglingur,“ svarar hann og bætir við að á lífsleiðinni hafi hann rekist á ýmis önnur dæmi þar sem þessi takmörk á hjúskaparlögum valda svipuðum vandamálum.

- Auglýsing -

„Ég hef verið að pæla í því í nokkurn tíma hvernig væri hægt að leggja fram þingmál, af því að það eru gríðarlega viðamiklar breytingar sem þarf að fara í til þess að laga þetta í öllu lagasafninu. Þegar ég fékk svo þá hugmynd fyrir stuttu síðan að leggja þetta til í þingsályktun þá gerðist þetta mjög hratt því það er miklu einfaldara að búa til þingsályktun en að gera lagabreytingarnar sjálfar.“

Vill breyta fleiru

Og Björn leggur til að önnur lög verði aðlöguð að þessu fyrirkomulagi. „Lög um erfðarétt, þegar það eru fleiri en tveir í sambandi þá virkar helmingarreglan ekki. Almenn hegningarlög, það má þá ekki setja fólk í fangelsi fyrir að giftast öðrum, nema kannski ef það er gert án vitunar annarra í hjúskap. Lög um tekjuskatt af því að það geta verið fleiri en einn sambúðaraðili eða hjúskaparaðilar. Lög um ættleiðingar þannig að fleiri en tveir geti ættleitt,“ telur hann upp. „Þessi fjöldatakmörkun hefur áhrif á mjög mörgum stöðum.“
Íslendingar almennt ekki íhaldssamir

Þótt tillagan hafi fengið einhverja gagnrýni segist Björn ekki skilja það sem svo að Íslendingar séu íhaldssamir í þessum efnum. „Nei, ég held ekki. Það eru auðvitað skiptar skoðanir. Þetta eru auðvitað ekki nýjar gagnrýnisraddir, eins og ég segi, en svona getur umræðan orðið þegar fjöldi fólks tjáir sig á netinu.

Eftir sem áður er það nú þannig að við erum þegar búin að ná miklum framförum í þessum málum. Sem ber ekki beint með sér íhaldssemi, almennt séð. Og þótt það sé mikið eftir þá höfum við tekið nokkur stór framfaraskref,“ segir hann og tekur fram að jákvæðu undirtektirnar við breytingartillögunni hafi ekki síður komið á óvart. „Já, það hefur líka mér komið á óvart í raun hversu mikil jákvæð viðbrögð eru fyrir þessu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -