Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Undrast lítil viðbrögð á Íslandi í plastbarkamálinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bo Lindquist, margverðlaunaður blaðamaður sem varð frægur fyrir þætti sína Experimenten, segir að plastbarkaígræðslur skurðlæknisins Paolo Macchiarinis, sem teygði sig til Íslands, hafi nánast sett sænska þjóðfélagið á hliðina.

 

Bo, eða Bosse Lindquist eins og hann er ávallt kallaður, segir að uppljóstrarar í málinu hafi verið meðhöndlaðir með skelfilegum hætti og þakkar þeim að málið var að lokum upplýst. Hann á von á að Macchiarini og Karolinska-sjúkrahúsinu verði gert að greiða bætur en Stjórnskipunar- og eftirlistsnefnd Alþingis hefur einnig málið til skoðunar.

Bosse hlaut verðlaun fyrir þætti sína Experimenten sem afhjúpuðu plastbarkaígræðslur ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarinis á Karolinska-sjúkrahúsinu. Í viðtali við Mannlíf reifar hann ýmis atriði sem ekki hafa áður komið fram er snerta eitt helsta hneykslismál í læknavísindum seinni tíma, plastbarkaígræðslur Macchiarinis. Von er á úrskurði frá sérstökum saksóknara í Svíþjóð um það hvort lögð verði fram ákæra vegna aðgerða sem voru gerðar á Karolinska-sjúkrahúsinu og varða þrjá einstaklinga, þar á meðal fyrsta plastbarkaþegann sem var sendur frá Íslandi.

Öllum uppljóstrurum refsað

Er ekki vandkvæðum bundið fyrir blaðamenn að fá upplýsingar um það sem miður fer á stofnunum eins og sjúkrahúsum og í heilbrigðiskerfinu, er fyrirstaðan of mikil?

Bosse segir að mál innan heilbrigðisgeirans geti verið flókin og erfið og geti þ.a.l. reynst blaðamönnum, sem leita upplýsinga, hindrun. Í tilfelli plastbarkaígræðslanna hafi það verið skylda sín og blaðamanna að kafa ofan í málið.

- Auglýsing -

„Það var skylda okkar við almenning og þar fylgdum við grunngildum blaðamennskunnar,“ segir hann. Bosse minnir á að á sjúkrastofnunum hafi læknar og hjúkrunarfræðingar skyldum að gegna gagnvart sjúklingum sínum og þeim beri að vernda friðhelgi þeirra. Hins vegar hafi það verið stjórn Karolinska-stofnunarinnar og Karolinska-sjúkrahússins ásamt yfirmönnum hlutaðeigandi deilda sem veittu andstöðu en þeir gerðu sína eigin rannsókn á plastbarkaígræðslumálinu og voru ásakaðir um að reyna lengi vel að þagga málið.

„Við skulum ekki gleyma því að ef uppljóstrararnir hefðu ekki sagt frá grunsemdum sínum þá hefðum við ekkert vitað. Við áttuðum okkur ekki á hvað var að gerast í fyrstu en þegar við gerðum það og sáum hvað var að gerast og hve slæmt það þá var það skylda mín, og okkar sem blaðamanna, að vinna að málinu og uppýsa almenning um það. Alvarleiki málsins var slíkur að ekki var hægt að snúa við.“

Bosse telur að það sé mjög erfitt að fá lækna og starfsfólk sjúkrahúsa til að tilkynna alvarleg frávik, þeim sé jafnvel refsað fyrir slíkt. Þvert ofan í viljayfirlýsingar, það sanni dæmin.

- Auglýsing -
Bosse hlaut verðlaun fyrir þætti sína Experimenten sem afhjúpuðu plastbarkaígræðslur ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarinis á Karolinska-sjúkrahúsinu.

„Læknum sem benda á það sem miður fer í heilbrigðisþjónustu eða inni á spítölum er hreinlega refsað þvert á yfirlýsingar stofnana oft um annað. Ég hef hitt fleiri uppljóstrara eftir Macchiarini-hneykslið og þeim hefur öllum verið refsað,“ segir hann alvarlegur.

„En við höfðum heppnina með okkur. Við vorum lánsöm að finna heimildarmenn utan Karolinska-sjúkrahússins sem gátu aðstoðað okkur. Við urðum að fara aðrar leiðir til að fá upplýsingar sem skiptu máli, til dæmis hjá ættingjum og öðrum sem gátu hjálpað okkur og fengið þannig vitneskju um hvernig plastbarkarnir virkuðu í raun og veru. Þessar upplýsingar voru lykillinn í að upplýsa þetta mál, þar komu allt önnur sjónarmið fram en höfðu komið fram áður. Svo voru líka læknar og hjúkrunarfræðingar sem hjálpuðu okkur því þetta fólk vildi líka leiða sannleikann í ljós,“ upplýsir Bosse.

Sterk viðbrögð við plastbarkaígræðslunum í Svíþjóð

Bosse segir að Svíar hafi tekið það mjög alvarlega þegar Karolinska-sjúkrahúsið og Karolinska-stofnunin, hvorutveggja burðarstofnanir í sænsku þjóðfélagi, hafi brugðist trausti fólks með framkvæmd tilraunaaðgerða á fólki. Málið hafi sett sænskt þjóðfélag nánast á hliðina.

„Plastbarkaígræðslurnar höfðu gríðarleg áhrif á almenning í Svíþjóð og traust fólks til Karolinska-sjúkrahússins og Karolinska-stofnunarinnar. Fólk var í sjokki. Þessar plastbarkaígræðslur áttu sér stað innan sænska heilbrigðiskerfisins og á okkar aðalspítala þar sem fólk er veikt og getur illa varið sig. Í þessu máli brugðust lykilstofnanir trausti sjúklinga og almennings og það hafði mjög mikil áhrif á fólk,“ segir Bosse.

„Fólk var í sjokki. Þessar plastbarkaígræðslur áttu sér stað innan sænska heilbrigðiskerfisins og á okkar aðalspítala þar sem fólk er veikt og getur illa varið sig.“

Hann líkir viðbrögðum fólks í Svíþjóð við það sem gerðist hér á landi í hruninu. Fólk hafi alls staðar rætt þetta mál, í verslunum og á kaffihúsum, og að hann hafi ítrekað verið stöðvaður á almannafæri til að ræða það. „Það varð samt engin Búsáhaldabylting,“ segir hann og brosir.

Slíku var hins vegar ekki fyrir að fara hér á landi og Bosse undrast hve lítil umræða átti sér stað hér um plastbarkamálið í ljósi þess að fyrsti sjúklingurinn kom héðan. „Það er undarlegt því að til að mynda er íslenska rannsóknarskýrslan sú vandaðasta sem ég hef séð um málið, þar er að finna nákvæma lýsingu á því sem átti sér stað.“

Mörgum spurningum er samt ósvarað að hans mati. „Hvers vegna var upplýsingum frá Íslandi um að Andemariam Beyene versnaði stöðugt ekki komið til þeirra lækna sem tóku þátt í aðgerðinni og voru meðhöfundar á vísindagreininni um þessa fyrstu plastbarkaígræðslu? Sjúklingurinn þurfti stoðnet til að halda loftveginum opnum, fáum mánuðum eftir aðgerðina. Þeir vissu því ekkert um versnandi ástand Beyne. Kannski var ástæða fyrir því að ekki var vakin á þessu athygli en það er lágmark að menn skýri frá hvers vegna læknarnir voru ekki látnir vita.“

Bosse segir að æxlið í barka Beyene hafi verið mjög lítið þegar hann kom á Karolinska-sjúkrahúsið. „Hamsten, fyrrverandi rektor Karolinsku-stofnunarinnar, sagði þegar ég spurði hann, að upplýsingar um krabbameinið væru ekki til en annað kom á daginn. Með hjálp meinafræðinga á spítalanum fundust upplýsingar um það. Af sýninu mátti ráða að vel hefði verið hægt að meðhöndla krabbameinið. „Það var mjög lítið eftir af meininu,“ segir Bosse.

Reyndu að hvítþvo sig af málinu

Bosse telur að á Karolinska-stofnuninni hafi að öllum líkindum verið von um að hreppa Nóbelsverðlaun fyrir nýjungar í læknisfræði sem voru plastbarkaígræðslurnar. „Ég held að innan Karolinska-stofnunarinnar hafi leynst von um að fá Nóbelsverðlaun í læknisfræði, sem höfðu ekki komið til stofnunarinnar í mjög mörg ár og Macchiarini var kandídatinn til að hreppa þau með þessum aðgerðum,“ segir Bosse, „en sú von fór á annan veg.“

Síðar reyndu yfirstjórnir Karolinska-sjúkrahússins og Karolinska-stofnunarinnar að hvítþvo sig af plastbarkaígræðslumálinu.

Dr. Anders Hamsten, rektor Karolinska-stofnunarinnar, kallaði svo á utanaðkomandi sérfræðing, dr. Bengt Gerdin, prófessor emerítus við Uppsala-háskóla, til að rannsaka málið og það var látið niður falla, hvers vegna var það?

„Í sannleika sagt vonuðu forráðamenn Karolinska-stofnunarinnar að Gerdin myndi hvítþvo stofnunina af því sem átt hafði sér stað en hann er vandaður maður og gerði það ekki. Og niðurstaða Gerdins kom þeim í opna skjöldu, þeir vissu ekki hvað þeir áttu að gera við skýrsluna. Gerdin sagði að um væri að ræða vísindalegt misferli og að sjúklingar sem gengust undir plastbarkaígræðslu hefðu líklega þjáðst hræðilega. Hann fann margvísleg sönnunargögn sem studdu það,“ segir Bosse með áherslu. Þegar forráðamenn Karolinska-stofnunarinnar sáu skýrsluna tóku þeir ákvörðun um að hafna henni, sögðu það byggt á nýjum upplýsingum sem Gerdin hefði ekki haft aðgang að. Gerdin var ekki gefið annað tækifæri til að skoða þessi gögn eða koma með athugasemdir við andmælum Macchiarinis og samstarfsmanna hans,“ segir Bosse augljóslega undrandi.

Bosse segist hafa hitt Macchiarini skömmu síðar og að hann hefði tjáð sér að nú gæti hann hafist handa aftur, það væru sjúklingar sem biðu í Brasilíu og á fleiri stöðum. „Það hefði verið hræðilegt ef hann hefði farið þangað og til fleiri staða til að framkvæma plastbarkaaðgerðir,“ segir Bosse alvarlegur í bragði.

Hvernig hefur verið brugðist við í þessu máli?

Telurðu að á endanum hafi viðbrögð við málinu í Svíþjóð verið fullnægjandi til að lagfæra vanda innan kerfisins?

„Ég held að það hafi ekki verið nóg gert en það sem var gert var með þeim hætti að almenningur sér að þeir voru einungis að reyna að bjarga eigin skinni. Fólk er ekki heimskt, það sá í gegnum það að stjórnir spítalans og stofnunarinnar reyndu að bjarga sjálfum sér, þeir sögðu ósatt þannig að fólki fannst þeir vera hálfgerðir glæpamenn.“

Hann segir að traust almennings á Karolinska-sjúkrahúsinu hafi minnkað verulega. „Fólk treystir ekki Karolinska-sjúkrahúsinu.“

Bosse segir að þó hafi ýmislegt verið gert til að koma hlutunum á lygnan sjó aftur.

„Ýmislegt hefur reyndar verið gert en ekki nóg. En fólk hefur ekki verið rekið, það hefur einungis verið fært til. Í tvö og hálft ár héldu þeir hlífiskildi yfir Macchiarini. Í stað þess að viðurkenna mistökin var reynt að breiða yfir þau. Til að mynda hefur aldrei verið skoðað hvers vegna forráðamenn Karolinska-sjúkrahússins og Karolinska-stofnunarinnar hreinlega lugu svona lengi um það sem átti sér stað. Uppljóstrarnir sem misstu störf sín hjá Karolinska-sjúkrahúsinu eru hundeltir, leitað eftir öllum mistökum sem gætu mögulega hafa átt sér stað hjá þeim og þeir hafa aldrei verið beðnir afsökunar. Um leið og einhver þeirra fjögurra gerir minnstu mistök, er einhver sem tilkynnir það og í kjölfarið vaknar spurning um hvort sá sem í hlut á eigi að halda sinni stöðu eða hvort eigi að reka hann.“

„Til að mynda hefur aldrei verið skoðað hvers vegna forráðamenn Karolinska-sjúkrahússins og Karolinska-stofnunarinnar hreinlega lugu svona lengi um það sem átti sér stað.“

Nú hefur komið fram í skýrslum að siðareglur hafi ekki verið virtar af starfsfólki í þessu máli, hefur það breyst?

„Ég tel að læknar og annað starfsfólk virði almennt siðareglur í störfum sínum en það hafa verið brestir og yfirstjórn sjúkrahússins sinnti þessum mikilvæga þætti örugglega ekki nógu vel. Margir ungir læknar eru reiðir vegna þess hve illa siðareglur voru sniðgengnar. Þeir hafa sett sig í sambandi við mig, eru hneykslaðir og vilja leggja sitt af mörkum til að bæta þennan mikilvæga þátt í störfum sínum. Kannski eru breytingar að eiga sér stað.

Ég held að fólk sé svo meðvitað í dag að það reynir að hafa í heiðri siðareglur sem leiða til vandaðra vinnubragða.“

Engar bætur verið greiddar

Hvað með ættingja þeirra sem fóru í plastbarkaaðgerðirnar og eru látnir, hafa þeir fengið bætur? „Nei, það hefur ekkert verið gert fyrir aðstandendur þeirra sem fóru undir hnífinn hjá Macchiarini.“

Aðspurður segist Bosse vonast til og telja að bæði Macchiarini og Karolinska-sjúkrahúsið verði gert að greiða bætur. „Ef það verður raunin, þá munu verða breytingar til batnaðar en ef ekki þá mun spítalinn hjakka í sama farinu. Fólk ber ekki traust til spítalans. Og fleira hefur komið til. Kostnaður við framkvæmdir við nýja sjúkrahúsbyggingu hafa farið langt fram úr áætlunum og nýi spítalinn er ekki byggður í samræmi við þarfir, endurskipulag á starfseminni skilaði ekki árangri og spítalinn hefur blætt starfsfólki. Til þess ráðs var svo gripið að ráða nýjan forstjóra til að koma málum sjúkrahússins aftur í viðunandi farveg og var Björn Zoëga, sem var forstjóri Landspítalans á erfiðum tímum eftir hrun, ráðinn til að stýra því verkefni sem nú stendur yfir.

Bosse skrifaði bók um málið sem kom út á síðastliðnu ári. Hann segir að henni hafi verið vel tekið en hann hafi vonast til, eins og góðum rannsóknarblaðamanni sæmir, að hún myndi leiða til einhvers, ekki síst að stjórnendur stofnananna sæju að sér. Það hafi ekki orðið, segir hann og brosir. Hann er þó á þeirri skoðun að sá tími komi að málinu ljúki á viðunandi hátt, það sé von á niðurstöðu frá sérstökum saksóknara í Svíþjóð og fleira sé fram undan, þetta taki sinn tíma.

Sjá einnig: Ekkja plastbarkaþegans rýfur þögnina
Sjá einnig: Plastbarkamálið: Paolo Macchiarini, snillingur sem sveifst einskis

Myndir / Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -