Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Undurfalleg frásögn Gunnars Smára: „Vildi geta tekið mömmu upp og leyft henni að gráta við öxlina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Smári Egilsson, forsprakki Sósíalistaflokksins, vildi óska þess að hann gæti tekið móður sína upp á öxl sér og leyft henni að gráta yfir hvað lífið er oft erfit og ósanngjarnt. Sjálfur átti hann aldrei að fæðast og telur hann sig hafa launað foreldrum sínum með fjögurra ára erfiðri framlengingu á hjónabandi þeirra.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í undurfallegri upprifjun Gunnars í færslu á Facebook. Hann rifjar upp æskuna í tilefni þess að foreldrar hans giftu sig á þrettándanum fyrir sjötiiu árum síðan. „Pabbi var nýorðinn 21 árs og mamma nýorðin 19 ára. Hafsteinn, fyrsta barnið þeirra, var þá mánaðargamall upp á dag. Lífið byrjaði snemma í gamla daga. Þau skruppu heim til prestsins sem gifti þau. Svo var kaffi og með því heima hjá ömmu. Lífið var að flýta sér í gamla daga,“ segir Gunnar.

„En brúðkaupsdagur foreldra minna fyllir mig sorg, af því ég man bara verri endann af þessari sögu.“

Sósíalistaforinginn segir að þótt pabbi hans og mamma hafi verið góðar manneskjur hafi hjónabandið þeirra ekki verið gott þegar á leið. Hann veltir því fyrir sér hversu mikil áhrif barneignirnar geti haft á líf foreldranna. „Pabbi var sjúkur alkóhólisti og mamma gat lítið stólað á hann í baslinu, ung hjón með þrjá syni og svo þann fjórða þegar ég fæddist og öll plön farin í vaskinn. Ég átti ekki að fæðast, frekar en svo margt ágætt fólk, mamma sagði mér þegar ég var kominn á legg að ég hefði verið hettubarn, að ég hefði frestað skilnaði foreldra minna um nokkur ár. Mamma er fyrsta kynslóð kvenna sem skilur við ómögulega eiginmenn, þá þótti óhugsandi að skilja með hvítvoðung upp á arminn eða smábarn hangandi í pilsfaldinum,“ segir Gunnar Smári og heldur áfram:

„Ég þekki mann sem segist hafa gengið með þá hugmynd fram eftir ævinni að foreldrar hans hefðu ekki verið honum nógu góðir, ekki stutt hann eða veitt honum það sem hann þarfnaðist. Þar til hann hitti annan mann sem fullyrti að foreldrarnir hefðu ekki gert honum neitt í líkingu við það sem hann hefði gert foreldrum sínum. Og það má til sanns vegar færa. Þótt við bræðurnir höfum að sumu leyti komið illa nestaðir út úr æskunni þá gáfu pabbi og mamma okkur allt sem þau gátu, mamma allan sinn tíma, orku og athygli.“

Hér eru þeir bræður saman á góðri stundu. Frá vinstri: Sigurjón, Gunnar Smári, Hafsteinn og Egill.

Nú þegar Gunnar Smári hugsar til brúðkaupsdags foreldra sinna áttar hann sig á því að þeir bræðurnir fjórir hafi í raun launað foreldrunum með því að taka frá þeim æskuna og frelsið. „Og ástina að lokum. Lífið varð of erfitt fyrir svoleiðis munað. Og svo borgaði ég prívat með fjórum verstu árunum í hjónabandinu, þau síðustu áður en það raknar upp í fátækt, basli og vonbrigðum,“ segir Gunnar og bætir því við að hann sé þrátt fyrir það ekki sakbitinn yfir hlutskipti foreldra sinna:

Ég er of gamall til þess að afsaka getnað minn og ég bar svo sem ekki mikla ábyrgð á ákvörðunum annars fólks fyrstu árin mín. Og varla enn. En brúðkaupsdagur foreldra minna fyllir mig sorg, af því ég man bara verri endann af þessari sögu. En ég efast um þótt ég kynni leið til að hvísla því að þeim að fram undan væru miklir erfiðleikar að þau hefðu hætt við. Ég sá aldrei neina ást á millum þeirra, en samt þykist ég vita að þau hafi verið heilluð hvort af öðru og reynt hvað þau gátu til að halda ástinni á lífi, stærstu gjöfinni sem lífið hafði gefið þeim. En kannski ímynda ég mér þetta bara vegna þess að ég veit að þau áttu bæði skilið að vera elskuð og fá að elska á móti.“

- Auglýsing -
Egill Hansen heitinn og Guðrún Guðmundsdóttir, foreldrar Gunnars, á góðri stundu.

Gunnar segir að líf foreldra hans hafi batnað eftir skilnaðinn. „Ég hugsa að þau hafi bæði verið glaðari og sáttari eftir fimmtugt en þau höfðu verið frá því þau voru ung. Meðan þau voru gift upplifðu þau sterkari hamingjustundir en þær voru eins og sólargeislar í stórhríð, góð augnablik á vondu tímabili. Þegar þau voru orðin gömul voru hamingjustundirnar ekki eins sterkar en þau voru laus undan erfiðleikunum, baslinu og átökunum,“ segir Gunnar og spyr:

„Hvort er betra? Þið getið spurt ykkur sjálf. Er betra að fá fáar sterkar hamingjustundir á tíma mikilla erfiðleika eða sætta sig við veikari hamingju gegn því að losna við erfiðleikana? Sá sem heldur að hann viti svarið þekkir ekki lífið.“

Fyrir nokkrum árum lést Egill, faðir Gunnars, en móðir hans Guðrún er nýorðin 89 ára að aldri. Gunnar segir að Covid-faraldurinn hafi farið illa með aldraða móður sína. „Mamma er hætt að skilja hvers vegna hún er ekki löngu dáin. Hún er ekkja eftir seinni manninn sinn og þolir illa einveruna sem cóvid hefur magnað upp. Líkaminn er slitin og andinn oft veikur, eins og hún geti varla haldið sér uppi. Ég held að það sé það sem átt er við þegar sagt að tvisvar verði gamall maður barn. Þegar kjarkurinn vill bresta sem við þurfum til að halda okkur uppi, að missa ekki móðinn,“ segir Gunnar og bætir að lokum sorgmæddur við:

- Auglýsing -

„Börnin geta leyft sér að gefast upp, falla saman og gráta og láta mömmu svo bera sig í rúmið, hugga sig í svefn svo þau geti safnað kjarki fyrir átök næsta dags. Ég vildi ég gæti tekið mömmu upp og leyft henni að gráta við öxlina yfir hvað lífið er oft erfitt og ósanngjarnt, yfir að vera föst í þessum gamla líkama sem getur orðið svo fátt. En það virkar bara ekki þannig, hlutföllin eru allt önnur en þegar hún huggaði mig forðum. Ég get bara sagt þetta og það er ekki það sama.“

Ég átti leið inn á Íslendingabók og sá þá að pabbi og mamma giftu sig á þrettándanum 1951, fyrir sjötíu árum upp á dag….

Posted by Gunnar Smári Egilsson on Wednesday, January 6, 2021

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -