Play hefur auglýst eftir 55 flugmönnum og nú þegar hafa tugir umsókna borist samkvæmt Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóra flugfélagsins. Fram kemur hjá Túrista að umsóknirnar hafi borist frá bæði íslenskum og erlendum flugmönnum, en Nadine segir að Play muni ráða flugmenn sem eru búsettir á Íslandi, óháð þjóðerni, en allir munu starfa samkvæmt íslenskum kjarasamningi.
Um 70 flugmenn starfa hjá Play en mun sá hópur nærri því tvöfaldast fyrir næstu sumarvertíð. Þá verða þoturnar í flota félagsins tíu talsins eða fjórum fleiri en nú í sumar.
Play auglýsir líka eftir flugfreyjum og -þjónum. Flugfélagið leitar eftir 150 slíkum fyrir næsta vor en í boði eru bæði framtíðar- og sumarstörf. Stefnt er að því að 260 flugfreyjur og -þjónar verði í vinnu hjá Play næsta sumar en hópurinn taldi 150 manns nú í sumar.