Einar Þorsteinsson borgarstjóri fór yfir erfitt samstarf meirihlutans í borginni á kjörtímabilinu í þættinum á Sprengisandi á útvarpsstöðinni Bylgjunni.
Sagðist Einar vera sáttur við þá ákvörðun sína að slíta samstarfinu, þótt útlit sé fyrir að hann verði ekki sjálfur með í nýjum meirihluta.
Í viðtalinu sagði Einar að eftir sveitastjórnakosningarnar hafi honum hugnast vel að mynda meirihluta sem væri frekar til hægri.
Sagði Einar að í meirihlutasamstarfinu hafi Framsókn mætt mestri andstöðu frá Pírötum í húsnæðismálum og Samfylkingu vegna hagræðingartillagna í rekstrinum. Einar sagði líka að Framsóknarflokkurinn hefði viljað beita fjölbreyttari leiðum í leikskólamálum.
Hann nefnir að svo hafi farið að lokum að um of hafi hrikt í baklandi Samfylkingarinnar, vegna þess hvernig Framsóknarflokkurinn fór fram í umræðu um flugvallarmálin; þá hafi Samfylkingin fyrst borið upp þá hugmynd að slíta meirihlutasamstarfinu:
„Ég var sakaður um að það að tala ekki fyrir stefnu meirihlutans og að þetta væri árás á Samfylkinguna,“ sagði Einar og bætir því við að þá hafi runnið upp fyrir framsóknarfólki að þeir kæmust hreinlega ekki lengra í sínum málum; varð það svo að Einar sjálfur sleit samstarfinu síðastliðið föstudagskvöld og segir að nú séu allir að tala við alla varðandi það að setja saman nýjan og starfhæfan meirihluta í borginni:
„Ef vinstri flokkarnir mynda fimm flokka meirihluta þá er það bara einfaldlega þannig,“ sagði Einar sem vill ekki meina að það hafi verið mistök hjá honum að slíta meirihlutanum: „Nei, alls ekki. Ég er mjög ánægður.“
![|](https://www.mannlif.is/wp-content/uploads/2020/05/ml2005122101-6-of-6-e1685899200527-1024x552.jpg)
Mynd / Hallur Karlsson
Einar sagðist þó ekki búinn að afskrifa það alveg að mynda nýjan meirihluta; sagði að góðir möguleikar væru fyrir Flokk fólksins til að láta til sín taka þrátt fyrir mögulegan meirihluta með Sjálfstæðisflokknum, en Ingu Sæland, formanni flokksins, hugnast ekki að koma Sjálfstæðisflokknum til valda.