Árni Heimir Ingólfsson óskaði eftir því fyrir stuttu að láta af starfi sínu sem listrænn ráðgjafi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Er Árni sagður ætla að skrifa bók og sinna öðrum verkefnum en er það Halla Oddný Magnúsdóttir sem tók við starfi hans þann 1.apríl síðastliðinn. Halla verður í 50% starfi til að byrja með og tekur Valdís Þorkelsdóttir við stöðu viðburða- og skipulagsstjóra.
Miklar breytingar hafa orðið innan Sinfóníunnar síðustu vikur en ábendingar hafa borist Mannlífi vegna meints ofbeldis og áreitni innan vinnustaðarins. Starfsmennirnir tveir sem eru sagðir hafa brotið af sér í starfi verð ekki nafngreindir að svo stöddu en blaðamaður Mannlífs hafði samband við annan þeirra, nú skömmu fyrir helgi. Aðilinn sagðist aldrei hafa verið sakaður um slík brot.
„Nei, það er ekki rétt,“ sagði hann og vildi lítið tjá sig um málið. Ekki liggur fyrir hvort fleiri breytingar munu eiga sér stað innan Sinfóníunnar á næstu vikum en vildi Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar, ekki tjá sig frekar um málið fyrir helgi.