Þann 8 nóvember árið 2008 stóð Búsáhaldabyltingin hvað hæst. En þessi mótmæli þróuðust í aðra átt þennan dag en venjulega.
Fleiri þúsund manns þustu á Austurvöll á hverjum laugardegi og hlustuðu á hverja ræðuna á eftir annarri með steyptan hnefann á lofti. Og fór svo heim. En þessi laugardagur var öðruvísi en aðrir.
Gekk skrefi lengra
Ungur ofurhugi, Haukur Hilmarsson, ákvað að ganga lengra en nokkur hafði þorað í þessari svokölluðu byltingu. Morgunblaðið lýsti þessu með þessum orðum; „Einn mótmælandi sá sig knúinn til að sýna hug sinn í verki. Hann lagði stiga að Alþingishúsinu í garðinum við innganginn að pöllunum, hljóp upp á þak og dró þar fána Bónus-verslunarkeðjunnar að húni.“ Þetta hafði ekki verið gert áður, að nokkur færi upp á hið virðulega hús Alþingis til að mótmæla en þetta var ekki það eina sem vakti athygli. „Er lögreglan hugðist fjarlægja fánann og manninn safnaðist mikill fjöldi manna saman í portinu og var þar aðsúgur gerður að lögreglu. Engin átök brutust út en einn var færður í fangageymslur.“ Hinn almenni íslenski borgari sem sagt mótmælti handtöku og kom í veg fyrir hana sem verður að teljast afar sjaldgæft. Skipuleggjandi mótmælanna, Hörður Torfason vildi þurrka hendur sínar af athæfi Hauks og sagði það grafa undan friðsælu mótmælunum sem hann boðaði.
Færa má rök fyrir því að í kjölfar þess að Haukur setti upp Bónusfánann hafi mótmælin breyst og fólk farið að þora að mótmæla á frumlegri hátt en að steyta hnefanum upp í loftið yfir ræðum og skrifa svo reiða Facebookfærslu þegar heim var komið.
Handtöku mótmælt
Tveimur vikum síðar var Haukur Hilmarsson handtekinn og færður á lögreglustöðina við Hlemm. Múgur og margmenni mætti þá með móður Hauks, Evu Hauksdóttur, í fararbroddi. Var handtökunni mótmælt af hörku og reyndu sumir mótmælendur að brjóta sér leið inn á lögreglustöðina. „Hauki Hilmarssyni, sem handtekinn var í gær vegna mótmæla við Alþingishúsið fyrir hálfum mánuði, var sleppt nú laust fyrir klukkan 18 en hópur fólks hafði staðið fyrir mótmælum utan við lögreglustöðina við Hverfisgötu og krafist lausnar mannsins. Óþekktur aðili mun hafa borgað sekt fyrir Hauk,“ stóð í frétt Mbl.is af þessu tilefni.
Fetað í fótspor Hauks
Ekki var þetta þó í fyrsta skipti sem Haukur stóð fyrir ólöglegri fánauppsetningu. Sumarið 2008 hengdi hann upp fána Jörunds Hundadagakonungs ofan á Stjórnaráðsbygginguna. Næstum sléttum 10 árum síðar fetaði bróðir Hauks, Darri Hilmarsson í fótsport bróður síns er hann hengdi upp fána Tyrklands í mótmælaskyni við léleg viðbrögð íslenskra yfirvalda við að fá svör um afdrif Hauks í Sýrlandi. Aðgerðin var framkvæmd af aðgerðarhópnum „Hvar er Haukur?“ en aðspurður um tilgang mótmælanna sagði Darri í viðtali við Fréttablaðið, „við vonuðumst til þess að sparka aðeins í rassgatið á stjórnvöldum.“ Fannst Darra stjórnvöld geta gert meira í að fá svör frá Tyrklandi. „Þau gætu til dæmis spurt beint hvort Tyrkir séu með Hauk lífs eða liðinn og eins hvað Tyrkir hafi gert með lík á svæðinu.“
Bréfið
Samkvæmt nafnlausu bréfi sem barst móðurbróður Hauks fyrr á árinu og Mannlíf hefur undir höndum, kemur fram að starfsmaður sem vann náið með Guðlaugi Þór Þórðarsyni í utanríkisráðuneytinu, hafi reynt hvað hann gat til að koma í veg fyrir að leitað yrði að líki Hauks en hann er talinn hafa fallið í árás Tyrkjahers á sveitir Kúrda í Afrin héraði í Sýrlandi í febrúar 2018. Er starfsmaðurinn sagður hafa haft óbeit á Hauki og hans fjölskyldu og ávallt kallað hann „Bónusfánann,“ með tilvísun í atvikið sem hér er rifjað upp að ofan.