Undanfarna daga hafa joðtöflur selst upp í íslenskum apótekum. Svo virðist sem aukinn ótti Íslendinga við kjarnorkustyrjöld sé ástæðan að hillur hafa verið hreinsaðar en joðtöflurnar verja skjaldkirtilinn fyrir geislun.
Stundin greinir frá þessu. Svipaða sögu virðist að segja í öðrum Evrópulöndum þar sem joðtöflurnar hreinlega rjúka út og eru víða uppseldar.
Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, hefur opinberlega lýst því yfir að ef þriðja heimsstyrjöldin brytist út myndi kjarnorkuvopnum verða beitt og um gjöreyðingarstríð yrði að ræða.
Vörn gegn geislun
Joðtöflur eiga að verja skjaldkirtil fólks gegn geislun og geta til að mynda komið í veg fyrir krabbamein vegna geislavirkra efna í andrúmsloftinu. Þórbergur Egilsson, sviðsstjóri smásölu og rekstarstjóri verslana Lyfju, segir joðtöflulagerinn hafi klárast í síðustu viku.
„Það er ekki mikil sala á joðtöflum alla jafna. Við áttum einhverjar smá birgðir en ég held að það hafi horfið í síðustu viku. Ég held ég geti nánast staðfest að það sé búið. Þetta er hræðsla fólks við það sem allir vona að verði ekki og fólk grípur þá til allra mögulegra ráða. Það er alls staðar verið að kaupa upp joð og það getur verið að það sé hreinlega að verða uppselt á heimsvísu,“ sagði Þorbergur í samtali við Stundina.