Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

„Upptökuklefinn var gömul Toyota Corolla“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorbjörn Einar Guðmundsson sem margir þekkja undir nafninu BLKPRTY hóf tónlistarferilinn á unglingsárunum og hefur samið tónlist fyrir bæði íslenska og erlenda listamenn.

Hæfileikar Þorbjörns liggja þó ekki einungis í tónlistinni en hann hefur alltaf verið að teikna, mála og graffa. Þorbjörn hefur sýnt verk sín víða um heim en það var ekki fyrr en hann fór í sitt fyrsta húðflúr sem hann áttaði sig á því að hann væri á réttum stað á réttum tíma.

„Ég kynnist Jason Thompson á tattústofu sem hann vann á í miðbænum og þá áttaði ég mig á því að þetta væri eitthvað sem mig langaði að gera. Á þeim tíma voru svo fáar stofur á landinu og erfitt var að komast inn sem lærlingur,“ útskýrir Þorbjörn.

Stuttu seinna ákvað hann að fara í listnám og háskólanám og segist allst ekki sjá eftir því þar sem það hafi gefið honum rosalega mikið. „Eftir að ég útskrifaðist fór ég að starfa sem grafískur hönnuður, vefhönnuður, „animator“ og í allskonar markaðsetningu og á samfélagsmiðlum. Þegar Jason Thompson og Ásthildur konan hans opnuðu Black Kross Tattoo fengu þau mig til að sjá um kynningar og samfélagsmiðla fyrir sig. Að auki gafst mér tækifæri til að læra að flúra og ég stökk á það. Auðvitað er alltaf erfitt að læra eitthvað nýtt en trikkið er að gefast ekki upp og það hefur hjálpað mér í öllu sem ég hef gert,“ segir hann og bætir við að hann hafi mest flúrað í hefðbundnum stíl en sé einnig að prófa sig áfram með „calligraphy“ og „black and grey relistic“ þar sem áhugi hans liggur svolítið núna.

Byrjaði 12-14 ára í tónlistarsköpun

Tónlistarsköpunin er aldrei langt undan en eins og fyrr segir byrjaði hann ungur að fikta við tónlist. Í kringum 1998 kynnti bróðir hans tónlistarforritið FL Studio honum fyrir og þá prófaði hann fyrst að gera sína eigin tónlist sem hann hóf svo að gera fyrir alvöru 12-14 ára gamall. „Þá var ég kominn með góð tök á forritinu og kunni að „sampla“ af plötum og farinn að gefa út lög,“ segir hann. „Garðar frændi minn, betur þekktur sem Kilo, fór semja texta yfir taktana mína og við tókum upp fyrstu lögin okkar uppi á lofti heima hjá mér. Svo kynnumst við fljótlega Ella félaga okkar, betur þekktum sem El Forte, og þá fórum við að taka upp í skúrnum hjá honum nánast daglega, en upptökuklefinn var gömul Toyota Corolla þar sem rapparar þurftu að sitja í aftursætinu í bílnum inni í skúr með hljóðnemann hangandi í loftinu á bílnum,“ útskýrir hann og hlær.

Flakkarinn með efninu hrundi

- Auglýsing -

Í kringum 2009-2010 kynnist hann Emmsjé Gauta og Reddlights og fer að gera tónlist með þeim. Við tökur á tónlistarmyndbandinu Hemmi Gunn með Emmsjé Gauta kynnist hann svo Arnari og Helga í hljómsveitinni Úlfur Úlfur. Stuttu seinna gera þeir lagið Lupus Lupus. „Eftir það buðu þeir mér að koma í bandið og ég gerði með þeim fyrstu plötuna, Föstudagurinn Langi, og sá um að DJ-a á tónleikum. Við gerðum heila plötu eftir það sem fékk aldrei að líta dagsins ljós þar sem flakkarinn okkar hrundi með öllu efninu.“

Í millitíðinni kynnist hann Gísla Pálma og fleiri listamönnum og fór að fókusera meira á sólóefni og pródúsera undir nafninu Blkprty. „Sólóefnið mitt er frekar festival-miðað en blanda af „trap, house, hardstyle, moombathon, psy trans“ og fleiru,“ lýsir hann og bætir við hann hafi spilað á Miami Music Festivali fyrr á árinu við góðar undirtektir þar sem hann kynntist frábæru fólki.

Þorbjörn hefur unnið með og samið tónlist fyrir fjölmarga listamenn bæði hér heima og erlendis. Hann segist mikill aðdáandi útgáfufyrirtækjanna Barong Family og Yellow Claw. „Ég spjallaði við forsvarsmenn þeirra um daginn og við renndum yfir slatta af óútgefnu efni frá mér þannig það er aldrei að vita nema komi eitthvað frá mér þaðan,“ segir hann og glottir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -