Í tilkynningu frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að bólusetningar vegna COVID-19 hafi nú verið færðar til heilsugæslustöðva og þar með verið hætt að bólusetja í Laugardalshöll.
Á heilsugæslustöðvunum verður bæði hægt að fá grunnbólusetningar ætluðum fimm ára og eldri og örvunarskammta fyrir sextán ára og eldri.
Þá er fólk minnt á að fjórir mánuðir eða meira þurfi að líða frá seinni skammti grunnbólusetningar til þess að fá örvunarskammt.
„Ekki verður bólusett alla daga á öllum heilsugæslustöðvum. Til að nýta bóluefnið sem best verður bólusett á ákveðnum dögum á hverri stöð. Stefnt er á að nota eingöngu bóluefni frá Pfizer. Ekki þarf að greiða fyrir þessa þjónustu heilsugæslunnar, hvorki fyrir komu né fyrir bóluefnið sjálft,“ segir í tilkynningunni en hægt er að bóka tíma í bólusetningu á vef Heilsuveru undir Mínar síður.