Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Úr kynsvalli í klikkað Eurovision-partí

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Páll Óskar Hjálmtýsson leikur Frank-N-Furter í Rocky Horror í hátt í fertugasta sinn á laugardaginn. Eftir sýninguna brunar hann á skemmtistaðinn Spot og stillir upp fyrir stærsta Eurovision-partí landsins. Palli segist ekki hafa verið í betra formi síðan hann var ungur maður og því sé þetta gerlegt.

„Yfirmenn í Borgarleikhúsinu voru svo sætir að færa sýningu af Rocky Horror til klukkan 16 á laugardaginn þannig að ég hleyp beint úr leikhúsinu á Spot, klára „soundcheck“, horfi á keppnina með öðru auganu og svo byrjar bara ballið,“ segir stórsöngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson.

Páll Óskar fer á kostum sem Frank-N-Furter á fjölum Borgarleikhússins.

Páll Óskar heldur í hefðir annað kvöld, laugardagskvöldið 12. maí, og blæs til heljarinnar Eurovision-balls á Spot í Kópavogi eftir að aðalkeppni Eurovision lýkur. Páll Óskar hélt fyrsta Eurovision-ballið árið 2003, og er því orðinn ýmsu vanur, en í ár verður þessi dagur örlítið öðruvísi þar sem Páll Óskar stígur einnig á svið í Borgarleikhúsinu sem kynsnillingurinn Frank-N-Furter. Er það bara gerlegt?

„Já, þetta er gerlegt. Á laugardögum hef ég iðulega hlaupið út úr leikhúsinu eftir Rocky Horror-sýningar og spilað á árshátíðum. Ég treysti mér hins vegar ekki til að spila á skólaböllum og einkapartíum á virkum dögum og tók bara út fyrir það. Ég byrja svo aftur á því öllu þegar sýningum fækkar,“ segir Páll Óskar. Síðasta sýning fyrir sumarfrí er 10. júní og við tekur kærkomið en stutt sumarfrí hjá söngvaranum.

„Eftir síðustu sýningu fer ég beint til Grikklands og slaka á í sólbaði,“ segir Páll Óskar. Hann er vel málaður í gervi Frank-N-Furter og ætlar að njóta þess að sleppa við það. „Ég ætla ekki að raka mig í mánuð. Þetta verður mottumars í júní,“ segir hann hlæjandi.

Lærði að umgangast mat upp á nýtt

Páll Óskar segist ekki hafa verið í betra líkamlegu formi síðan hann var ungur maður og því nái hann að anna þessu álagi.

- Auglýsing -

„Ég lærði að borða upp á nýtt fyrir þremur árum. Ég er með góðan og fallegan þjálfara í World Class í Laugum, hann heitir Hilmar Björn. Hann ítrekaði fyrir mér að ég gæti mætt á hverjum einasta degi og pumpað og pumpað í tvo tíma á dag en að árangurinn yrði ósköp lítill nema ég lærði að umgangast mat upp á nýtt. Hann hjálpaði mér að finna próteindrykki sem virka eins og ein máltíð þannig að í dag borða ég alltaf eina máltíð á dag og drekk síðan próteindrykki. Ég sneiði fram hjá hamborgurum og sóðamat en ég neita mér ekki um súkkulaðið mitt,“ segir Páll Óskar og brosir.

„Svo hætti ég að drekka kók með sykri og skipti yfir í Coke Zero. Á fyrstu fjórum vikunum missti ég fjögur kíló og ég hef ekki litið til baka síðan. Þegar ég reyni að drekka kók núna er það svo vont á bragðið, eins og drekka eitthvað úr niðurfalli.“

Skærar Eurovision-stjörnur trylla lýðinn

Páll Óskar er vel málaður í Rocky Horror en ætlar að skilja málningarburstana eftir heima í sumarfríinu.

Söngvarinn okkar ástsæli er fullur tilhlökkunar fyrir laugardeginum, bæði fyrir því að stíga í hátt í fertugasta sinn á svið Borgarleikhússins sem kynsnillingurinn Frank-N-Further, en einnig fyrir Eurovision-ballinu, sem stendur yfir frá kl. 23 til fjögur um nóttina.

„Það fallegasta við þessi böll er að þarna kemst maður næst því að upplifa stemninguna sem maður upplifir í alvöru þegar maður fer út á keppnina. Þetta er eini staðurinn á jarðríki þar sem maður fær tækifæri til að hitta allra þjóða kvikindi í sama suðupottinum, samankomin út af einni og sömu ástæðunni,“ segir Páll Óskar. Honum til halds og trausts verða góðir gestir, þau Selma Björns, Jóhanna Guðrún, Hera Björk, Eyjólfur Kristjánsson og Stefán Hilmarsson, sannkallað Eurovision-stórskotalið.

- Auglýsing -

„Þakið fer af húsinu þegar ég kynni gestina á svið. Fólk bilast þegar íslensku stórstjörnurnar taka Eurovision-lögin sín,“ segir Palli og bætir við að margir ballgesta séu fastagestir ár eftir ár. „Fólk kemur til mín og biður um útúrtjúlluð óskalög, eins og framlag Spánar árið 2003. Ballgestir vita nákvæmlega hvað klukkan slær og þetta er orðin yndisleg hefð hjá mörgum. Þetta er líka æðislega gaman fyrir mig því þetta er eini dagurinn á árinu þar sem ég get leyft mér að spila nær einvörðungu Eurovision-lög.“

Útilokar ekki þátttöku í Eurovision

Eins og flestir vita hefur Páll Óskar einu sinni farið fyrir Íslands hönd í Eurovision. Það var í Dyflinni árið 1997 með lagið Minn hinsti dans, sem vakti heldur betur athygli í keppninni. Lagið lenti í 20. sæti og voru margir á því að Palli hefði náð lengra, jafnvel unnið keppnina, ef símakosning hefði verið tekin í gagnið, eins og var gert árið síðar þegar hin ísraelska Dana International sigraði með lagið Diva. En klæjar Palla ekkert í raddböndin að taka aftur þátt í Eurovision?

„Ég verð að fá lag sem kýlir mig kaldan á staðnum, alveg eins og Euphoria gerði þegar ég heyrði það fyrst.

Næst verð ég að fara með lag sem getur unnið. Ég er þannig gerður að ég verð að fá safaríka laglínu til að leika mér með. Ég verð að fá hljómagang sem gengur upp á næstum því hvaða hljóðfæri sem er og gefur mér samt pínu gæsahúð. Eða eitthvað sætt. Þá fer ég í gang,“ segir þessi sjarmerandi söngvari, og því ekki útilokað að hann eigi einhvern tímann aftur eftir að vera fulltrúi Íslands í þessari vinsælu söngvakeppni.

Topp 3 à la Páll Óskar

Georgía – Iriao – For You
„Mér finnst þetta vera lagasmíðin sem er með mesta kjötið á beinunum. Lag sem er samið af einhverri dýpt og þekkingu.“

Eistland – Elina Nechayeva – La Forza
„Það er svolítið hættulegt að senda klassískan söngvara í Eurovision. Það hefur sjaldan gefist vel. En þetta lag frá Eistlandi er svo vel útfært og gellan neglir þetta alltaf á hverri einustu æfingu.“

Frakkland – Madame Monsieur – Mercy
„Gríðarlega vel samið popplag og langmikilvægasti boðskapurinn af öllum lögunum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -