Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands, hefur fordæmt meðferðina sem tyrkneska landsliðið fékk á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi. Hann segir meðferðina óásættanlega og ekki í takt við góð samskipti milli ríkja. Þá segir hann stjórnvöld ætla að gera hvað þau geta til að fara í saumana á málinu.
Viðtal, sem TRT Spor birti á Twitter, við landsliðsfyrirliðann Emre Belözoglu hefur farið sem eldur í sinu um tyrkneska samfélagsmiðla. Í viðtalinu segir hann frá meðferðinni en leikmennirnir biðu í þrjár klukkustundir áður en þeir komust að vegabréfaeftirlitinu. Þá var gerð ítarleg leit í farangri leikmannanna.
Emre Belözoğlu: İndiğimizden itibaren içeride gereksiz bir arama yapıldı. Gerildik. Bizim ülkemizin misafirperverliğine kurban olsunlar.
Millilerimiz, Reykjavik Havalimanı’nda İzlanda polisi tarafından didik didik arandı. pic.twitter.com/5KIn2Jz3gp
— TRT Spor (@trtspor) 9 June 2019
Meðferðin er ekki það eina sem hefur vakið athygli í Tyrklandi. Í viðtalinu við Belözoglu sem sést ónefndur aðili rétta út þvottabursta í stað hljóðnema. Stuðningsmenn Tyrkja eru ekki par sáttir við uppátækið og sumir þeirra fullyrt að um klósettbursta sé að ræða. Þeir líta á gjörningin sem gríðarlega móðgun við fyrirliðann og þjóðina. Þá hafa margir skilið eftir athugasemd á Facebook-færslu KSÍ.
Landsleikur milli Tyrklands og Íslands fer fram á morgun, 11. Júní, á Laugardalsvelli.