Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Útgerð frystitogarans hlýddi ekki lækni: Veikum sjómönnum haldið úti á sjó

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Forsvarsmenn Hraðfrystihússins Gunnvarar, sem gerir út togarann Júlíus Geirmundsson ÍS, voru ítrekað hvattir til að halda með skipið í land í Covid-sýnatöku. Þau tilmæli bárust frá umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum, Súsönnu Björgu Ástvaldsdóttur, meðal annars á þriðja degi túrsins, en þau tilmæli voru virt að vettugi.

Útgerðin sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem það sagði að í ljósi þeirrar vitneskju sem nú liggur fyrir hefði átt að kalla skipið fyrr til hafnar. Fyrirtækið lét líka í það skína að það hafi verið ákvörðun annarra að ekki hafi verið ástæða til að halda með skipið til hafnar snemma í túrnum. Súsanna segir það hins vegar kýrskýrt að hún hvatti útgerðina alveg frá upphafi að fara með skipverja í sýnatöku. Það hafi hún gert ítrekað á meðan túrnum stóð.

„Þetta var ekki mín ákvörðun og þetta hefði getað farið verr. Mín tilmæli hafa verið, og verða alltaf, alveg sama hvar þú ert staddur í heiminum, að þú eigir að koma í sýnatöku ef þú ert með einkenni. Ég get staðfest að þau samskipti áttu sér stað milli mín og útgerðarinnar, þar af mjög snemma í túrnum. Tilmæli mín eru mjög einföld,“ segir Súsanna sem ítrekar að eftir að ákvörðun útgerðarinnar lá loksins fyrir að fara í land hafi samskiptin verið góð og öllum sóttvarnarreglum fylgt.

Nú eru 22 af 25 manna úr áhöfn frystitogarans sýktir af Covid. Nokkrir áhafnarmeðlimir frystitogarans héldu í Covid-einangrun í skólabyggingu að Holti í Önundarfirði í gær. Þar var áður prestsetur. Samkvæmt heimildum Mannlífs héldu sjómennirnir enn að veikjast.  Þetta kom fram á sunnudag þegar skipið leitaði hafnar eftir að veikindi höfðu herjað á áhöfnina í þá 20 daga sem skipið hafði verið í veiðiferðinni.

„Þetta var ekki mín ákvörðun og þetta hefði getað farið verr.“

Allan túrinn voru menn að veikjast einn og einn. Fæstir urðu mjög veikir en þó var undantekning þar á. Það stóð á endum að þegar einn hresstist tóku næstu veikindi við.  Töldu menn í fyrstu að um væri að ræða flensu. Skipið hélt til hafnar á Ísafirði í gærdag til að taka olíu og senda alla áhöfnina í sýnatöku. Það kom svo í ljós á mánudaginn að nánast öll áhöfnin var sýkt. Talið er að smitin megi öll rekja til eins manns og veiran hafi grasserað með þessum afleiðingum undanfarnar þrjár vikur. Skipinu var þegar stefnt til hafnar aftur til að koma mannskapnum í sóttkví.

Hákon Blöndal, fyrsti vélstjóri á Júlíusi Geirmundssyni, segir ljóst að útgerðin þurfi að viðurkenna mistök sín. Það gerir hann í nýlegri færslu á Facebook. „Þetta er ljóta helvítis yfirklórið og drullumokstur. Hérna er ekki öll sagan sögð og menn þurfa að taka sig saman í andlitinu og viðurkenna mistök. Við grun um Covid smit um borð ber skipstjóra að hafa samband við landhelgisgæslu Íslands sem ákveður næstu skref. í þessu tilfelli var verkferlum ekki fylgt og áhöfn fékk aldrei að njóta vafans og var lögð í mikla áhættu!,“ segir Hákon.

Áhöfninni var ekki hleypt frá borði þar til ákvörðun um einangrun sjómannanna lægi fyrir. Þá var heldur ekki hægt að landa aflanum fyrr en ákvörðun sóttvarnaryfirvalda lægi fyrir. Nú hefur Matvælastofnun úrskurðað að ekki sé ástæða til að meðhöndla afla togarans með öðrum hætti en venjulega þrátt fyrir hópsmitið um borð.

- Auglýsing -

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir vildi Sveinn Geir Arnarsson skipstjóri ekki ræða málið við Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -