Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Útrunnar kennitölur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

LEIÐARI Kröftugar auglýsingar Gráa hersins svokallaða hafa vakið athygli og umræður á samfélagsmiðlunum undanfarið. Þar er sjónum beint að þeim aldursfordómum sem virðast ríkja meðal íslenskra atvinnurekanda og þeirri staðreynd að fjöldi fólks yfir sextugu missir vinnuna vegna aldurs og fær ekki nýja vinnu vegna þess að kennitalan er það eina sem atvinnurekandinn skoðar á ferilskýrslum þess. Þetta fólk er með útrunnar kennitölur. Það er komið fram yfir síðasta söludag á vinnumarkaðnum og kemur í mörgum tilfellum ekki til álita við nýráðningar.

Á Íslandi búa um fimmtíu þúsund manns yfir sextugu, samkvæmt Þjóðskrá. Þetta fólk á flest að baki langan og farsælan feril í hinum ýmsu atvinnugreinum, hefur öðlast reynslu, þroska, þekkingu og yfirsýn sem unga fólkið hefur enn ekki tileinkað sér. Það virðist ekki skipta máli. Sú æskudýrkun sem heltekið hefur þjóðfélagið síðustu áratugi – sem 68-kynslóðin sem nú er á sjötugsaldrinum átti stærstan þátt í því að skapa, svo kaldhæðnislegt sem það nú er – hefur orðið þess valdandi að enginn vill ráða gamalt fólk í vinnu. Hversu sprækt það er, vinnusamt, samviskusamt og reynt á sínu sviði er aukaatriði í samanburði við aldur þess. Fjölmörg dæmi eru um að ráðningarskrifstofur ýti umsóknum fólks yfir sextugu út af borðinu og sendi þær ekki einu sinni til atvinnurekandans sem er að leita að starfsfólki. Það er gengið út frá því sem gefnu að hann/hún kæri sig ekki um einhverja gamlingja í sinn starfsmannahóp. Það þarf ekki einu sinni að skoða það.

„Fjölmörg dæmi eru um að ráðningarskrifstofur ýti umsóknum fólks yfir sextugu út af borðinu og sendi þær ekki einu sinni til atvinnurekandans sem er að leita að starfsfólki.“

Nú er í tísku að fegra eftirlaunaárin og alls kyns fyrirtæki hafa sprottið upp til að gera eftirlaunaþegum alls kyns gylliboð um skemmtun á efri árunum. Allt gott um það að segja en eftirlaunaaldur á íslandi er sextíu og sjö ár, ekki sextíu, og því vandséð hvernig það er hugsað að hafa fólk atvinnulaust í sjö ár áður en þeim aldri er náð. Á hverju á það að lifa? Eiga allir að hafa safnað gildum sjóðum yfir starfsævina og geta sest í helgan stein eftirlaunalaust? Þeir sem þannig hugsa þekkja greinilega illa íslenskt launaumhverfi. Það er minnihluti vinnandi stétta sem hefur tök á því. Eigum við þá bara að setja alla milli sextugs og sextíu og sjö ára á atvinnuleysisbætur? Hefur þjóðfélagið efni á því?

Auðvitað eru fleiri en ein hlið á þessu máli, eins og öllum öðrum. Fólk með langa starfsreynslu í sínu fagi er eðlilega komið í hærri launaflokka en þeir sem eru að byrja í starfinu og ekki ólíklegt að atvinnurekendur horfi til þess við ráðningar. En það kostar líka að sóa mannauði sem hefur verið byggður upp á heilli starfsævi. Það kostar að þjálfa upp nýtt fólk. Og hver á að kenna þessu nýja fólki ef þeir sem reynsluna hafa eru horfnir af vinnumarkaðnum? Á það bara að læra af sjálfu sér? Þetta þarf að endurhugsa. Skammtíma gróðasjónarmið geta nefnilega verið varasöm þegar til lengri tíma er litið. Þau koma okkur í koll síðar eins og dæmin sanna. Höfum við ekkert lært?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -