Úlfúð og einelti ríkir í samskiptum kjörinna borgarfulltrúa og embættismanna borgarinnar ef rétt reynist sem kemur fram í kynningu á úttekt sálfræðistofunnar Líf og Sal á starfsumhverfi borgarráðs. Þessu greindi RÚV frá að loknum borgarráðsfundi í gær. Þá upplifa ófáir starfsmenn kvíða og vanlíðan í starfi sem telja má að hafi skaðað málefnalega umræðu í borgarráði.
Í úttekt sálfræðistofunnar var rætt við fjórtán starfsmenn og sex kjörna borgarfulltrúa sem þurfa reglulega að koma fyrir borgarráð, en Mannlíf fjallaði um samskiptavanda Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, fyrrum skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra og Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins en Helga Björg sótti um flutning í starfi í maí á þessu ári.
Sóley fordæmir einelti Vigdísar á skrifstofustjóra: „Flæmd úr starfi sínu með áreitni og ofsóknum“
Í úttekt kemur fram að starfsmenn þeir sem gegna embættisstörfum hjá borginni upplifi varnarleysi og að vinna þurfi markvisst umbótastarf ásamt því sem stjórnendur þurfi að tryggja öryggi sinna starfsmanna.
Þá kemur einnig fram að ekki sé í verkahring stjórnmálamanna að hafa afskipti af starfsmannarekstri borgarinnar; hvorki í einstaka verkefnum né vinnulagi. Að sama skapi ríki þakklæti meðal starfsmanna vegna þeirra úrbóta sem unnið hafi verið að undanfarin þrjú ár og að stuðningur yfirmanna og æðstu stjórnenda hafi þar greint veigamiklu hlutverki.
Eindregin samstaða ríkti á borgarfundi í gær um öflun úrræða til að hindra neikvæða þróun og niðurlægjandi framkomu á vettvangi borgarráðs, að ferla þyrfti að endurskoða að mestu svo samskipti kjörinna fulltrúa og starfsmanna færu fram með eðlilegum hætti. Virða yrði siðareglur og efla yrði traust almennings á borgarstjórn, sem væri í sögulegu lágmarki um þessar mundir.