Ég hitti konu rétt ríflega yfir fertugt yfir kaffi. Hún virkar svo eðlileg í útlitli að ég gæti sennilega ekki lýst útliti hennar þótt hún hefði verið á undan mér í röð í matvörubúð. Tæplega miðaldra, kennari og eins venjuleg húsmóðir og unnt er að ímynda sér.
Þessi ljúfi, opni og barngóði kennari er fyrrverandi vændiskona en nokkur ár eru liðin frá því hún lagði þann lífsstíl að baki.
Hún er mjög sátt í starfi sínu, að langflestu leyti hamingjusöm og rík af börnum og barnabörnum og líður afar vel af að starfa með börnum.
Neyðin rak mig í vændið
En hún á sér forsögu. Afar átakanlega og sorglega forsögu. Þar sem hún á börn og ung barnabörn bað hún Mannlíf að nefna sig ekki á nafn því margir hennar fjölskyldumeðlima vita ekki hvaða helvíti hún hefur gengið í gegnum. Hún hefur fullan hug á að segja þeim það, bara ekki alveg strax heldur þegar hún telur þau vera reiðubúin. Við skulum kalla hana Brynju.
Þunglyndi og misnotkun frá barnæsku
En hvernig stóð á því að hún fór þessa leið í lífinu?
„Fyrst og fremst var það peningaleysi en ég hef einnig barist við mikið þunglyndi frá barnæsku. Það gekk mikið á í æsku minni, ég var misnotuð sem barn og man vel eftir hugsuninni um að ég vildi ekki verða gömul heldur yfirgefa lífið viljug. Mér fannst ekkert skipta máli, ég bar enga virðingu fyrir eigin líkama og var nokkuð sama þótt aðrir gerðu það ekki heldur”.
Brynja segir að hún hafi farið í erfitt samband sem lauk með því að hún flutti út, svo að segja eignalaus og að drukkna í skuldum. Hún vann tvær vinnur 10-12 tíma á dag til að borgar dýra leigu, borga háa upphæð í tryggingafé, kaupa húsgögn, greiða reikninga og af lánum.
Óþarfi að gera þetta ókeypis
Hún ákvað síðan að prófa stefnumótavefina og hitti þar karlmenn sem oft leiddi til samfara.
„Þar sem ég hafði enga virðingu fyrir sjálfri mér og líkama mínum datt mér í hug að fyrst ég væri að sofa hjá mönnum á djamminu gæti ég alveg eins fengið greitt fyrir það. Þetta var ekki eitthvað sem ég lagði mikla hugsun í, þetta var algjör skyndihugdetta. Ég setti inn auglýsingu á netið, fékk upplýsingar hjá konu sem stundaði vændi um hvað ég ætti að rukka og lét vaða.”
Brynja setti inn auglýsingu á einkamal.is og segir að hún hafi ekki búist við miklum viðbrögðum en þegar hún kannaði viðbrögðin tveimur dögum síðar var henni snarbrugðið. Slík var eftirspurnin. „Sumir þeir sem sendu mér skilaboð voru þeir sömu og ég hafði hitt og jafnvel sofið hjá í skemmtanalífinu. Fyrir mér mér var þetta ekkert stórmál”
Ýtti frá vanlíðaninni og einbeitti mér að peningunum
,,Ég man vel eftir fyrsta skiptinu mínu. Það var á hóteli. Það var mun erfiðara en ég hafði talið mér trú um þrátt fyrir að maðurinn hafi verið meinleisilegur og jafnvel almennilegur. En ég ýtti vanlíðaninni frá, lokaði á hana og einbeitti mér að peningunum”
Að sögn Brynju vildi hún í byrjun velja menn en fljótlega kom í ljós að það var ekki svo auðvelt. „Ég vissi hreinlega ekkert um þessa menn, hafði engar upplýsingar um þá enda gekk treglega að fá þær. Flestir voru mennirnir annaðhvort heldur eldri en ég eða töluvert eldri. Þeir elstu voru ríflega sextugir og langstærsti hópurinn. Næstum, ef ekki allir þessara manna voru giftir“.
Óöryggi, valdleysi og stjórnleysi
Brynja stundaði vændi í eitt og hálft ár en finnst henni tímabilið hafi staðið mun lengur. „Ég fann stöðugt fyrir óöryggi, valdleysi og stjórnleysi. Mér fannst fólk sjá á mér hversu illa mér leið og hversu illa ég var stödd. Þetta var rússibanareið sem fór afar illar með mig”.
,,Ég bar enga virðingu fyrir sjálfri mér á þessum tíma. Hvort sem ég hitti menn á hótelum, heima hjá þeim eða heima hjá mér, var ég alltaf hrædd því ég vissi aldrei út í hvað ég var að fara. Bílar voru líka vinsælir, mörgum karlmönnum fannst það eðlilegasta mál að skjótast út fyrir bæinn til að fá sér drátt í afursætinu.”
Byrjaði á að losa mig við íbúðina
Með tímanum eignaðist Brynja „fastakúnna” sem voru þolanlegri og urðu jafnvel allt að því kunningjar hennar.
„Ég fór heim til margra manna sem mér leið illa með en eins furðulega og það hljómar fannst mér ég vera skuldbundin þeim þar sem þeir voru að borga mér“.
Þar sem Brynja stundaði vændið heima hjá sér var það hennar fyrsta verkefni eftir að hún yfirgaf vændið að losa sig við íbúðina. „Hún minnti mig alltaf á þetta tímabil og enn í dag hleyp ég út úr verslunum sem selja rúm sem eru svipuð því sem ég notaði“.
En hvað rukkaði Brynja mennina? „Ég var með verðskrá: Tottið var ódýrast, kynlífið dýrara og endaþarmsmök dýrust. Samt var aldrei beðið um þau, en ég held að það hafi breyst mjög að undanförnu og „normaliserast” og ég er alveg viss um aukinni klámvæðingu sé þar um að kenna“.
Brynja segir að hún hafi að mörgu leiti verið heppin, hún hafi aldrei orðið fyrir líkamlegu ofbeldi en hver kynlífssala hafi samt virkað eins og nauðgun. „Eini munurinn var að ég fékk borgað fyrir að hafa einhvern karl ofan á mér en tilfinningin var sú sama“.
Fékk taugaáfall
„Ég átta mig á því síðan að ég var að sligast og brotnaði á endanum saman og fékk taugaáfall. Ég gat þetta ekki mínútu, ekki sekúndu lengur. Ég hafði ofboðið mér svo óskaplega að ég íhugaði sjálfsvíg í fullri alvöru. Sem betur fer gripu vinir mínir mig og hjálpuðu mér við að fá aðstoð hjá geðdeild Landspítala þar sem ég fékk inni á bráðamóttöku og fór síðan á göngudeild í framhaldinu“.
Brynja segist hafa leitað til Stígamóta í kjölfarið en ekki rætt um það ofbeldi sem hún hafi þurft að þola sem barn né vændið Hún fór í marga tíma án þess að ræða ofbeldið og vændið.
Ríflega ári eftir að Brynja hætti í vændinu var henni nauðgað sem og var enn þannig þenkjandi að henni fannst það sér að kenna og tók á sig ábyrgðina. Fljótlega eftir það fékk Brynja alvarlegt taugaáfall og var lögð inn á geðdeild. „Þarna gat ég ekki burðast með þetta lengur og viðurkenndi fyrir sjálfri mér að ég yrði að vera fullkomlega hreinskilin við Stígamót“.
Kynlíf enn erfitt
„Það reyndist mun auðveldara en ég átti von á. Ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér að ég var með áfallastreituröskun og það hjálpaði mér mikið. Stígamót héldu fast utan um mig og gáfu mér þau verkfæri og tól til að vinna úr áföllunum. Stígamót hreinlega björguðu lífi mínu, kenndu mér að bera virðingu fyrir sjálfri mér og líkama mínum“.
„Þótt að ég hafi komið langa leið í átt til bata eru ákveðnir hlutir sem eru mér erfiðir. Ég get stundað kynlíf, nýt þess reyndar, en það vantar ástríkið og innileikann. Ég dett aftur inn í vélmennið sem var í færibandavinnu í vændinu með bláókunnugum mönnum. Þessi gleði var tekin af mér og ég óska engum hinu sama“.
Ekkert latex heldur flíspeysur
Stígamótakonur hafa starfrækt svokallaða Svanahópa sem eru sérstaklega fyrir konur sem hafa verið vændi. Brynja hefur mætt á fund og ætlar á fleiri. „Þetta var allt önnur upplifun en ég átti von á. Ég viðurkenni að ég mætti með fordóma en það var enginn í latex galla eða annað slíkt „segir Brynja og hlær. „Við erum allar venjulegar konur í flíspeysunum okkar“.
Brynja er afar jákvæð og segist líða mjög vel í dag. „Ég neita að sitja uppi með fortíðina og vil koma sögu minni á framfæri til að aðstoða konur í sömu aðstæðum enda er hjálp í boði. Ég er afar þakklát Stígamótum og geðdeild Landspítalans sem veittu mér mikla hjálp. Ég veit að margir er ósáttir með geðhjálp á Íslandi en það er ekki mín reynsla”.
Óttast enn ákveðnar aðstæður
En Brynja segir vera ákveðnar aðstæður em hún hafi fælni fyrir. „Ég vel til dæmis alltaf kvenkyns lækna, sjúkraþjálfara og nuddara þegar ég þarf að leita slíkrar þjónustu. Ég er líka mjög hrædd við að vera í sama rými karlmenn um og yfir sextugt enda voru þeir sem mest sóttu í mig. Ég fæ hjartsláttatruflanir og finn fyrir miklum vanmætti. Það eru þó undantekningar eins og sambýlismaður minn sem veit af fortíð minn og er sáttur við hana. Ég treysti líka tannlækninum mínum og píparanum, enda þekkt þá lengi” segir Brynja og brosir í lokin.