Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Vændismálum á borði lögreglu fækkar þrátt fyrir „sprengingu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á sama tíma og framboð vændisþjónustu á Íslandi hefur aldrei verið meira hafa vændiskaupamál á borði lögreglu sjaldan verið færri. Augum stjórnvalda hefur fyrst og fremst verið beint gegn mansali og skipulagðri glæpastarfsemi en þrátt fyrir það hefur ekki verið ákært fyrir mansal síðan 2010.

Samkvæmt mati lögreglunnar hefur orðið „sprenging í vændi“ á undanförnum árum. Ástæða þess er tiltölulega borðleggjandi, það er stóraukinn fjöldi ferðamanna og uppgangur í íslensku efnahagslífi. Ísland er vitaskuld engin undantekning að þessu leyti enda gildir lögmálið um framboð og eftirspurn um vændi rétt eins og aðra þjónustu. Samhliða aukningu á bæði framboði og eftirspurn hafa leiðir til að bjóða og verða sér úti um og hýsa þjónustuna orðið fleiri og aðgengilegri.

Í skýrslu Ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi kemur fram að sala vændis á Íslandi fari meðal annars fram innan lokaðra hópa á samfélagsmiðlum. Hafa miðlar á borð við Facebook, WhatsApp, Instragram og Tinder verið notaðir til þessa. Einnig hafi fjölgað mjög vændisauglýsingum á netsíðum og samfélagsmiðlum sem beint er að Íslandi. Ekki þarf mikla netkunnáttu til að komast inn á slíkar heimasíður því einföld Google-leit vísar á heimasíður sem augljóslega bjóða vændi undir flaggi fylgdarþjónustu. Allar konurnar sem boðnar eru til kaups eru af erlendu bergi brotnar en gefin eru upp íslensk símanúmer til að setja sig í samband við þær.

„Bann við kaupum á vændi sendir jafnframt þau skilaboð í samfélagið að það sé litið alvarlegum augum að kaupa sér aðgang að líkama fólks og að ekki sé ásættanlegt á Íslandi að nýta sér neyð annarra í kynferðislegum tilgangi.“

Í skýrslunni segir einnig að götuvændi sé lítt sjáanlegt á Íslandi en þekkt sé að vændisstarfsemi fari fram á næturklúbbum þar sem boðið er upp á „listrænan dans“ og að á höfuðborgarsvæðinu séu „þrír þekktir næturklúbbar“ starfarandi. Í flestum tilfellum fara viðskiptin fram á stöðunum sjálfum en kaupendum er síðan vísað á húsnæði annars staðar þar sem vændið fer fram. Er þá einkum um að ræða gistiheimili eða íbúðir sem eru leigðar til starfseminnar, en gistiheimilum og íbúðum til útleigu í gegnum forrit eins og Airbnb hefur stórfjölgað á Íslandi á undanförnum árum. Ekki er langt síðan Mannlíf ræddi við eiganda íbúðar sem hann leigði út á Airbnb og grunaði að gestir þar væru viðriðnir vændisstarfsemi.

Sænska leiðin ekki haft áhrif á eftirspurn
Sjaldgæft er að vændismál rati inn á borð lögreglu, þó með einni stórri undantekningu. Fram til ársins 2007 var vændi ólöglegt á Íslandi en það ár samþykkti Alþingi lög sem leyfðu vændisstarfsemi en bönnuðu þriðja aðila að hagnast á henni. Það var gert til að koma í veg fyrir hórmang. Árið 2009 samþykkti Alþingi að fara hina svokölluðu sænsku leið, það er að banna kaup á vændi. Það var með þeim rökum að koma ábyrgðinni af vændi yfir á þann sem borgar fyrir vændið enda almennt litið svo á að þeir sem neyðast út í vændi séu þolendur á meðan kaupendur séu gerendur. Eins og segir í greinargerð frumvarpsins: „Bann við kaupum á vændi sendir jafnframt þau skilaboð í samfélagið að það sé litið alvarlegum augum að kaupa sér aðgang að líkama fólks og að ekki sé ásættanlegt á Íslandi að nýta sér neyð annarra í kynferðislegum tilgangi.“

Skiptar skoðanir eru um hvort sænska leiðin hafi reynst vel eða illa. Hafi sænsku leiðinni verið ætlað að hefta eftirspurnina eftir vændi er ljóst að það hefur mistekist. Tölfræðin hnígur í sömu átt. Frá árinu 2009, þegar lögin voru samþykkt, hefur fjölda skráðra vændisbrota hjá lögreglu fækkað jafnt og þétt og voru þau einungis 5 talsins árið 2017. Undantekningin er árið 2013 þegar 175 mál voru skráð hjá lögreglunni en það ár var farið í sérstakt átak til að sporna við vændiskaupum. Árið eftir var fjöldinn kominn niður í 13 skráð mál.

Nær ekkert hefur verið ákært fyrir vændiskaup undanfarin ár en árið 2015 höfðu alls 85 ákærur verið gefnar út. Í þeim málum sem enduðu með sakfellingu voru viðkomandi aðilar sektaðir um 100 þúsund krónur þótt refsiramminn hljóði upp á allt að eins árs fangelsi.

Lögreglan hefur viðurkennt að hún hafi ekki bolmagn til að fylgja eftir eftirliti og rannsókn með „hefðbundinni“ vændisstarfsemi.

- Auglýsing -

Áherslan á mansal
Lögreglan hefur viðurkennt að hún hafi ekki bolmagn til að fylgja eftir eftirliti og rannsókn með „hefðbundinni“ vændisstarfsemi. Enda spurning hversu mikla áherslu áherslu skuli leggja á málaflokkinn þegar viðurlögin nema einungis 100 þúsund króna sekt. Þess í stað hefur áhersla löggæsluyfirvalda beinst að mansali sem oft er tengt vændi. Í áðurnefndri skýrslu lögreglustjóra segir að líklegt sé að sumar þær erlendu kvenna sem stunda vændi á Íslandi, bæði í lengri og skemmri tíma, búi við nauðung. Í einhverjum tilvikum fylgi erlendir karlmenn konunum og hafi hugsanlega með þeim eftirlit á meðan þær dveljast hér. Þá njóti einhverjar kvennanna aðstoðar og milligöngu fólks sem búsett er á Íslandi.

En rétt eins og í vændismálunum er fátt um ákærur þegar kemur að mansali. Í árlegri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mansal er Ísland sett í 2. flokk af fjórum eftir að hafa skipað 1. flokk um árabil. Gagnrýnt er að ekki hafi verið ákært fyrir mansal síðan 2010 og að þekkingu á málaflokknum sé ábótavant. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði niðurstöðu skýrslunnar byggjast á vanþekkingu á íslensku réttarfari en benti um leið á að löggæsla hafi verið efld til muna og meiri þungi lagður í fræðslu til handa þeim sem fari með rannsókn mála af þessu tagi. Þá stóð til að ný aðgerðaráætlun gegn mansali yrði lögð fram í haust en vinna við hana stendur enn yfir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -