Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.3 C
Reykjavik

Vaktavinnufólk þarf styttri vinnuviku

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun
Eftir / Sonju Ýr Þorbergsdóttur

Eitt af stóru málunum í þeim kjarasamningaviðræðum sem nú eru í gangi hjá opinberum starfsmönnum er stytting vinnuvikunnar. Eftir tilraunaverkefni hjá bæði Reykjavíkurborg og ríkinu sem hafa sýnt fram á ótvíræða kosti bæði fyrir launafólk og atvinnurekendur er ekki eftir neinu að bíða.

Í tilraunaverkefnunum hefur vinnuvikan verið stytt um allt að fimm klukkustundir án þess að laun skerðist. Krafa BSRB er 35 stunda vinnuvika og að vinnuvika vaktavinnufólks verði stytt enn meira.

Á flestum vinnustöðum er hægt að stytta vinnutímann án þess að það bitni á afköstum með því að skipuleggja vinnutímann betur. Það sýna tilraunaverkefnin okkur svart á hvítu. Það á þó ekki við um vaktavinnustaði þar sem manna þarf störf allan sólarhringinn.
En málið er ekki svo einfalt. Þurfi að leggja í einhvern kostnað til að manna vaktir eftir styttingu vinnuvikunnar getur hann komið til baka með öðrum hætti. Starfsfólk í vaktavinnu upplifir gjarnan mikið álag í sinni vinnu. Álagið hefur margvísleg áhrif, til dæmis hærri veikindatíðni en hjá dagvinnufólki og fleiri vinnuslys. Þá veldur álagið einnig einkennum kulnunar hjá sífellt stærri hópi. Þess vegna þurfum við að stytta vinnuviku vaktavinnufólks meira en vinnuviku annarra.

Það tapa allir á auknum veikindum og kulnun. Starfsfólkið tapar heilsunni, atvinnurekendur tapa peningum og samfélagið allt verður fyrir miklum kostnaði. Stytting vinnuviku vaktavinnufólks getur dregið úr álaginu og minnkað veikindin og einkenni kulnunar. Því ættu atvinnurekendur að líta á hana sem fjárfestingu í sínu góða starfsfólki og leið til að efla vinnustaðinn, ekki hreinan kostnað sem engu skilar.

Stjórnvöld verða að taka skrefið

- Auglýsing -

Álag í starfi og einkenni kulnunar eru alvarlegt vandamál í almannaþjónustunni. Þeir sem sinna almannaþjónustu eru í mörgum tilvikum í miklum samskiptum við fólk. Þar má nefna heilbrigðisstéttir, starfsfólk í skólum, í löggæslu og fleiri. Rannsóknir sýna að hættan á veikindum og kulnun er mun meiri meðal fólks í þjónustustörfum vegna þess álags sem fylgir því að vera í nánum samskiptum við fólk alla daga og oft í krefjandi aðstæðum.

Í ljósi þessa starfsumhverfis þurfa opinberir atvinnurekendur, ríki og sveitarfélög að ganga á undan með góðu fordæmi. Þau þurfa að spyrna niður fæti og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr álagi og kulnun. Þær kjaraviðræður sem nú eru í gangi munu skera úr um hvort stjórnvöld eru tilbúin til að taka skrefið. Stjórnvöld verða að ganga á undan með góðu fordæmi með því að stytta vinnuvikuna og auka þar með lífsgæði og bæta heilsu launafólks.

Höfundur er formaður BSRB.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -