Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

„Vaktirnar, það er ekkert hægt að toppa þær“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Pétur Jóhann Sigfússon hefur skemmt landsmönnum opinberlega 20 ár, eða allt frá því að hann var valinn fyndnasti maður Íslands 1999. Pétur segir verkefnin hafa komið fyrirhafnarlaust upp í hendurnar á honum og áratugina tvo hafa flogið áfram. Hann segir það trufla sig lítið að vera landsþekktur og er þakklátur fyrir hlutverk sitt, bæði í leik og starfi.

 

„Tíminn hefur flogið áfram og margt búið að gerast á þessum tíma,“ segir Pétur sem undirbýr þessa dagana uppistand þar sem hann mun líta yfir ferilinn, hlutverkin sem hann hefur skapað og einkalífið.

Pétur mun standa einn á sviðinu. „Ég ætla bara að vera einn, ætla að horfa yfir farinn veg og drepa niður fæti hér og þar á ferlinum. Reyndar fer ég óhjákvæmilega lengra aftur í tímann, af því maður er búinn að reyna að rembast við að vera fyndinn og það hafa skapast margar aðstæður í gegnum tíðina sem gaman er að staldra við og rýna aðeins í.“

Pétur er fæddur á Sauðárkróki 21. apríl 1972 og þegar hann var ungur að árum skildu foreldrar hans. „Ég var mjög ungur og man í raun ekkert eftir því eða hvað ég var nákvæmlega gamall, þetta er snúið,“ segir Pétur, sem rifjar þó upp að hann flutti með móður sinni, stjúpföður og bróður í Vesturbæinn og byrjaði í sex ára bekk í Ísaksskóla.

„Svo flutti ég í Garðabæ og var öll mín uppeldisár í Garðabæ. Ég gerði tilraun við Fjölbrautaskóla Garðabæjar, en hætti svo bara þegar ég var búinn að slugsast þar í fjórar annir.“

Pétur á þrjá albræður og þegar foreldrar hans skildu var hópnum skipt í tvennt, tveir fylgdu móðurinni og tveir föðurnum til Vopnafjarðar, þar sem faðir hans var prestur í mörg ár.

- Auglýsing -

„Einhverra hluta vegna þá bara var þetta svona. Eftir því sem árin liðu og við urðum eldri þá fórum við að stjórna samskiptunum sjálfir og þau eru töluvert mikil í dag,“ segir Pétur en tvö systkini til viðbótar bættust í hópinn. „Ég á fjóra bræður og eina systur, það er best að gleyma ekki neinum,“ segir hann og telur á fingrum sér.

Mynd / Hallur Karlsson

Bóknámið vék fyrir bílaáhuga

Pétur er ekki menntaður og lauk ekki stúdentsprófi. „Eftir fjórar annir í slugsi í Fjölbraut kom ég út með 40 einingar sem taldist nú ekki mikið.“ En hvað var það sem tafði hann svona frá náminu? „Ég var voða mikill bílakall og er enn þá og fannst mikilvægara á þessum árum að eiga flottan bíl, GTI-bíl eða eitthvað og þetta einhvern veginn yfirtók námið þannig að bílarnir urðu alltaf fleiri og fleiri og dýrari og dýrari og það þurfti að borga meira af þeim. Þannig að ég þurfti alltaf að vinna meira og meira sem endaði með því að ég þurfti að fara út á vinnumarkaðinn sem ég bara gerði og fór að vinna við hitt og þetta.“

- Auglýsing -

Fyrsta alvörustarfið var vinna við skreið í Hafnarfirði, en hann segist nú ekki hafa tollað lengi þar. Eftir vinnu við standsetningu bíla hjá Heklu bílaumboði, lá leið Péturs í BYKO í Hafnarfirði og þar var hann í næstum átta ár, þar til hann sló í gegn sem fyndnasti maður landsins og nýr atvinnuferill hófst. „Ég byrjaði í timbursölunni í einhver ár, fór svo í búðina, og þegar upp var staðið var ég búinn að vera í næstum öllum deildum,“ segir Pétur, sem líklega hefði aldrei hætt í BYKO, hefði vinur hans ekki skráð hann í keppnina um Fyndnasta mann Íslands.

En af hverju taldi vinurinn þig eiga heima í þeirri keppni? „Alltaf þegar við vinirnir hittumst þá var ég að rembast og reyna að vera fyndinn og einhverra hluta vegna lenti ég oft í einhverjum skemmtilegum aðstæðum og þeir höfðu gaman af að heyra mig segja frá því sem henti mig í daglegu lífi. Ég var alltaf að reyna að gera daginn skemmtilegri, stytta daginn ef svo má að orði komast, og þeim fannst ég bara góður sögumaður og uppistand á þessum árum var í einhverri uppsveiflu. Við horfðum mikið á uppistand og grín og grínmyndir og einhverjum þeirra fannst greinilega að ég ætti heima í keppninni. Ég sjálfur á ekkert allt of oft frumkvæðið þannig að þeir tóku fram fyrir hendurnar á mér í þessu.“

Pétur bætir við að hann hefði líklega aldrei skráð sig sjálfur en þegar símtalið kom frá skipuleggjendum keppninnar þá ákvað hann að kýla á þetta og taka þátt.

Pétur Jóhann Sigfússon hefur skemmt landsmönnum opinberlega 20 ár.

Hitað upp fyrir fyrrverandi nörd

Keppnin samanstóð af undanúrslitakvöldum og í dómnefnd sat meðal annars Jón Gnarr, sem á sama tíma var að setja upp sýninguna Ég var einu sinni nörd, í Loftkastalanum. „Eftir að hafa séð mig á undanúrslitakvöldinu þá bað hann mig um að hita upp fyrir sig. Þarna var ég bara starfsmaður í byggingavöruverslun en honum fannst það aukaatriði og mér fannst þetta rosalega mikil upphefð.“

Svo fór að sýningarnar urðu 40-50 talsins og hitaði Pétur upp á þeim öllum. „Það var rosagaman, mér fannst það gríðarlega spennandi að fá að vera í kringum þennan mann, enda var ég búinn að hlusta á Tvíhöfða í mörg mörg ár.“

Í janúar 2000 voru Tvíhöfði, Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson, að opna eigin útvarpsstöð, Radíó, og fengu þeir Pétur í lið með sér. „Þeir máttu gera það sem þeir vildu og fengu mig til að vera með útvarpsþætti. Þar sem ég kunni ekki á neina takka þá fengu þeir tæknimann með mér, Þórð Helga Þórðarson, Dodda litla, og við vorum saman í fjögur og hálft ár með þátt alla virka daga frá klukkan 15-19.“

„Alla vega einu sinni leit út fyrir að ég væri að fara að lenda undir hnífnum“

Náði að tala yfirmann frá uppsögn

Pétur rifjaði upp nýlega í viðtali á útvarpsstöðinni K100 símahrekk sem hann gerði Jóni Axel Ólafssyni, þáverandi yfirmanni hans hjá Íslenska útvarpsfélaginu, en Pétur var fastráðinn þar 1999. Varð Jón Axel svo pirraður þá yfir hrekknum að hann sagði Pétur ekkert þurfa að mæta oftar, hann væri rekinn. Pétur mætti hins vegar galvaskur daginn eftir. En var hann rekinn oftar en einu sinni og var hann einhvern tíma rekinn í alvöru?

„Þessi skemmtana- og fjölmiðlabransi hefur alltaf verið þannig að þú veist í rauninni aldrei hvenær þú lendir undir hnífnum og það var alla vega einu sinni sem leit út fyrir að ég væri að lenda undir hnífnum. Ég man mjög vel eftir þessu þar sem Jón Axel var með uppsagnarpappírana tilbúna á borðinu. Ég náði að telja hann ofan af uppsögninni því ég var sannfærður um að þó að félagið vildi ekki hafa mig í útvarpi, þá væri örugglega hægt að nýta mig í annað,“ segir Pétur en þaðan lá leið hans yfir á sjónvarpsskjái allra landsmanna.

„Ég, Sigurjón og Jón, Auddi og Sveppi, vorum allir undir sama hatti hjá Íslenska útvarpsfélaginu. Auddi og Sveppi voru búnir að vera í dágóðan tíma tveir með þættina 70 mínútur og vildu fá þriðja manninn með sér. Það var Auddi sem var sannfærður um að ég væri sá maður, ég kom fyrst sem gestur og á endanum var ég kominn með þeim í þættina.“

Áður en það gerðist voru fimmmenningarnir búnir að skrifa saman fyrri þáttaröð Svínasúpunnar, sem er leikin sketsasería. „Þetta var árið 2003-2004, ég man þetta ekki nógu vel,“ hvíslar Pétur um leið og hann hallar sér fram.

En þarna varstu orðinn rúmlega þrítugur, hvernig var að vera fullorðinn maður í fíflagangi og gríni alla daga?

„Já þetta er góð spurning vegna þess að ég þurfti alveg oft að harka af mér. Auddi og Sveppi voru eitthvað yngri en ég og mér fannst alveg margt af því sem við vorum að gera mjög erfitt. Við vorum að gera fáránlega hluti, fara í Kringluna með falda myndavél, taka áskoranir, drekka ógeðisdrykki og það tók mig alveg langan tíma að finna taktinn í þessu. Margt af því sem við vorum að gera var alveg stjarnfræðilegt: drekka fleiri lítra af vatni og pissa á sig standandi á höndum og fara í gegnum bílaþvottastöð á sundbol, bara svo við tökum tvö dæmi. Mér fannst margt af þessu bara virkilega erfitt en þeir kýldu þetta áfram. Við þurftum að fylla 70 mínútna þátt á hverju kvöldi þannig að það var enginn tími til að staldra við og spá og spekúlera.“

Kom aldrei upp sú hugsun hjá þér: Hvað er ég að gera hérna fullorðinn maður?

„Þeir byrjuðu mjög snemma náttúrlega að keyra á: „þú ert bara gamall maður, það er fyndið,  þú ert svo asnalegur,“ og við gengumst bara upp í því. Ég öðlaðist ómetanlegan vinskap í þessum strákum, við erum allir góðir vinir og heyrumst á hverjum degi enn þann dag í dag. Sama með Jón Gnarr, það er maður sem ég heyri mjög oft í.“

Pétur segir verkefnin hafa komið fyrirhafnarlaust upp í hendurnar á honum og áratugina tvo hafa flogið áfram.

Vaktirnar verða að veruleika

Eftir aðra þáttaröð af Svínasúpunni með fram þáttunum 70 mínútur, kynnti Helga Rós Hannah, búningahönnuður þáttanna, Pétur fyrir manninum sínum, Ragnari Bragasyni leikstjóra, sem fékk Pétur til að leika í tveimur þáttaröðum af Stelpunum, sem einnig voru sketsaþættir.

„Ragnar fór að segja mér frá þessari hugmynd, bensínstöðvahugmynd, sem hann og Jón Gnarr voru að spá í löngu löngu áður. Stöð 2 féllst á framleiðsluna og ég, Ragnar, Jón Gnarr og Jóhann Ævar Grímsson handritshöfundur komum inn, ásamt Jörundi Ragnarssyni. Við skrifuðum Næturvaktina í byrjun árs 2007 og í kjölfarið Fangavaktina, Dagvaktina og síðan kvikmyndina Bjarnfreðarson. Það tók alveg þrjá, fjóra, fimm þætti fyrir áhorfendur að kveikja á Næturvaktinni, grínið er svona hægt tempó.“

Eftir Vaktirnar tóku við fleiri þáttaraðir: Hlemmavídeó, Heimsendir, Borgarstjórinn, Hreinn Skjöldur, svo nokkrar séu nefndar, auk bíómynda: Astrópía með Sveppa og Ragnhildi Steinunni, Stóra planið þar sem voru fantaleikarar eins og Benedikt Erlingsson, Eggert Þorleifsson, Ingvar E. Sigurðsson og Hilmir Snær Guðnason. „Þegar ég horfi til baka er listinn nánast endalaust og þetta hafa verið þvílík forréttindi að vinna að öllum þessum verkefnum og með öllu þessu fólki,“ segir Pétur og aðspurður um hvað standi upp úr, hikar hann ekki á svari: „Það eru náttúrlega Vaktirnar, það er ekkert hægt að toppa þær.“

Með fram þessu öllu hefur Pétur tekið að sér veislustjórn og uppistand. „Það hefur verið ríkur þáttur með öllu öðru og ég hef verið mikið í því allt frá því ég varð fyndnasti maður Íslands 1999.“

Hann segir draum hafa orðið að veruleika þegar hann skrifaði Svínasúpuna á sínum tíma. „Að fá að skrifa, leika og fara í búning, þetta var allt svo framandi og svo sturlað fyrir svona gaur eins og mig sem var alltaf búinn að vera með þessa löngun í kollinum og í maganum. Gaur sem var búinn að reyna við Leiklistarskólann, gaur sem var alltaf eitthvað að göslast.“

Þegar Pétur starfaði í BYKO sótti hann um að komast í Leiklistarskólann en fékk höfnun. „Ég var svo viss um að ég ætti heima þarna og það væri bara formsatriði fyrir mig að sækja um. Mér fannst að þeir hefðu bara átt að hringja í mig og bjóða mér inn en að sjálfsögðu er staðreyndin önnur og þetta var og er náttúrlega bara strembið nám. Ég er enn í dag viss um að það hefði hjálpað mér að einhverju leyti að fara í gegnum námið en ég veit það auðvitað ekki þar sem ég komst ekki inn og reyndi aldrei aftur. Ég varð kannski að einhverju leyti fúll að komast ekki inn og fór í svona kuðung.“

Þrátt fyrir að löngunin til að leika og skemmta hafi kraumað í Pétri strax í Fjölbraut gekk hann hvorki í leiklistarklúbbinn né kvikmyndaklúbbinn og segist lítið hafa tranað sér fram í skóla. „Ég var ekki þessi athyglissjúki gæi sem þurfti einhvern veginn að láta vita af sér, ég var ekki beint sú týpa, en samt var alltaf stutt í fíflaganginn.“

Hann tók samt þátt í flestu, var í handbolta og fótbolta til 12-13 ára aldurs, átti marga vini og segist aldrei hafa verið útundan eða strítt, en á sama tíma furðuðu kennarar hans sig á hvar hann væri. „Kennararnir sögðu alltaf við mömmu: „hann er að horfa á mig, hann er að horfa á töfluna, en hann er einhvers staðar annars staðar. Hann er svo prúður og góður, aldrei að trufla kennsluna, alltaf eins og ljós en það fer ekkert inn, hann fær bara 2 og 3 í öllu. Hausinn á mér var eitthvað annað að hugsa, ég bara man ekki hvað. Ég yrði 100% greindur með athyglisbrest í dag, ég væri á öllum töflunum. En það fór samt fullt inn, ég er læs og tala fallega íslensku og skrifa sæmilega, ekkert sérstakur í reikningi samt.“

„Ég hef alltaf verið dálítið mikill í kjaftinum en á ekkert endilega inni fyrir því“

Fullur á fyrsta uppistandi

Pétur rifjar upp að Steinn Ármann Magnússon, leikari, grínisti og Radíusbróðir, hafi verið viðskiptavinur í BYKO. „Ég var alltaf að reyna að heilla hann upp úr skónum, alltaf eitthvað að reyna að hræra í honum og þegar ég horfi til baka var ég örugglega hálfpirrandi.“

Í árs pásu frá BYKO, þegar Pétur réði sig í vinnu við að keyra út bjór sá hann auglýsingu á Kaffi Firði í Hafnarfirði um uppistand með Steini Ármanni. „Og ég kastaði fram við eiganda staðarins: „Á ég ekki bara að koma og hita upp fyrir hann?“ sem er svona ekta ég. Ég var oft, og hef alltaf verið, dálítið mikill í kjaftinum en á ekkert endilega inni fyrir því.“ En eigandinn tók mig á orðinu þannig að ég mætti og fékk mér nokkra bjóra þar sem ég var svo stressaður. Og þetta var bara alveg hrikalegt, því ég fékk mér aðeins of marga og hélt að það myndi hjálpa mér sem það gerði ekki. Steinn Ármann reyndi að passa mig, enda eldri og gáfaðri maður og mun reyndari í skemmtibransanum en ég en í minningunni var þetta svona ekki mjög vel heppnað.“

Pétur segir það trufla sig lítið að vera landsþekktur og er þakklátur fyrir hlutverk sitt, bæði í leik og starfi.

Sannfærður um að Sigrún væri karlmaður

Pétur er trúlofaður Sigrúnu Halldórsdóttur en þau kynntust 2007. „Ég á eftir að giftast henni, við þurfum að finna daginn í það. Við kynntumst á Netinu, þegar Næturvaktin var nýbyrjuð í sýningu, á Myspace og hún bara sendi mér skilaboð þar hún Sigrún mín,“ segir Pétur og segir þau hafa talað saman þar til að byrja með, langt fram á nætur í marga daga og vikur.

„Ég hélt að Sigrún væri bara einhver karl með mynd af konu. Á myndunum var hún allt of sæt til að vera eitthvað að tékka á mér“

„Ég var svolítið tregur, ég treysti ekki Netinu og hélt að Sigrún væri bara einhver vörubílstjóri, eða þú veist, bara einhver karl með mynd af konu. Af því á myndunum var hún alltof sæt til að vera eitthvað að tékka á mér. Og ég var viss um að þetta væri eitthvert rugl. En svo kom tímapunkturinn þar sem við ákváðum að hittast og hittumst í fyrsta skipti bara heima hjá mér í kaffi og svo síðan leiddi bara eitt af öðru. Ég hélt hún væri bara eitthvað sturluð í hausnum sko, nei djók! sem við erum náttúrlega öll.“ „Bara mismikið,“ skýtur blaðamaður inn í sem Pétur samsinnir.

Tólf árum seinna eru þau enn saman og stutt í afmælið þeirra segir Pétur, þann 7. október. Þau eiga hvort sína dótturina úr fyrri samböndum, báðar fæddar 1999 með níu daga millibili, og saman eiga þau son fæddan 2011. Sigrún er mannauðsstjóri í Bláa lóninu og í stabílli vinnu meðan Pétur starfar „út um allt og alls staðar í vinnu hjá sjálfum mér.“

Er kannski sambandið svolítið þannig líka? „Hún er kletturinn.“

Er hún kletturinn meðan þú ert fiðrildið? „Já svolítið, samt þýðir nafnið mitt klettur, þannig að ég er örugglega að einhverju leyti klettur hjá henni, ætli við séum ekki klettur hjá hvort öðru. Hún er náttúrlega óþrjótandi styrkur og leiðbeinir mér alltaf, ég get alltaf leitað til hennar.“

Mynd / Hallur Karlsson

Hvernig finnst krökkunum að eiga þekktan pabba, til dæmis þegar þið farið að kaupa í matinn?

„Þau láta það lítið trufla sig,“ segir Pétur og bætir við að það trufli hann sjálfan ekki heldur. „Í rauninni ekki, vegna þess að það hefur alltaf verið svolítill vaðall á mér, ég er gjammandi oft. Það er pínulítill bóndi í mér, það er mín skynjun á sjálfan mig að ég kalli á svolitla athygli. Fyrst þú nefndir matvöruverslun, þá finnst mér til dæmis mjög fyndið að fara fremstur í röðina á kassanum, þó að engum öðrum finnist það fyndið, bara til að sjá viðbrögð fólks. „Ég er Pétur Jóhann Sigfússon, ég er náttúrlega frægur og hlýt því að fara fremst.“

Er lífið alltaf grín, hefurðu lent í drama eða áföllum? „Nei sem betur fer og ég vil meina að ég sé mjög heppinn að því leyti. Ég hef misst afa og ömmur eins og aðrir, en aðrir nákomnir eru á lífi og heilbrigðir. Ég bara minnist þess ekki að hafa lent í neinu áfalli.“

Sérðu fyrir þér að vinna við grínið alla ævi eða ertu með plan b, datt þér til dæmis aldrei í hug að verða prestur eins og pabbi þinn?

„Í Fjölbraut þegar ég var að hugsa um hvað ég ætti að verða leiddi ég hugann að ýmsu og alls konar námi. Ég ætlaði að verða leikari og sótti þess vegna um í Leiklistarskólanum, eins og ég sagði áðan. Mig langaði líka til að verða flugmaður, öll tæki og tól hafa alltaf heillað mig; skip, flugvélar, bátar, bílar, þyrlur, þannig að ég fór í flugnám sem gekk ekki þar sem þegar upp var staðið þá var flugtíminn bara of dýr. Á þessum tíma kostaði hann 70-80 þúsund kall eða eitthvað. Mig hefur alltaf langað í skipstjórnarréttindi, ég er ekki enn þá búinn að haugast í það. Prestsnám, ég hugsaði þangað, sama með gullsmíði. Þrátt fyrir bílaáhugann þá langaði mig ekki í bifvélavirkjun. Þetta var meira svona: „hvað er töff?“ Mér fannst flugmenn vera töff, ég ætlaði að vera með sólgleraugu og verða flugmaður. Svo bara er ég ekki töff sem er ákveðinn faktor í þessu.“

Mynd / Hallur Karlsson

„Pappírs Pési dúkkar upp hér og þar“

Pétur lék á sínum tíma í auglýsingum fyrir Hagkaup og í verslunum stóðu pappaspjöld af honum og enn þann dag í dag fær hann spurninguna um hvort hann eigi Hagkaup.

„Öllum þessum spjöldum var stolið og þau hafa dúkkað upp víðs vegar um landið, mjög oft þegar ég var með uppistand. Ég fór með sýninguna Pétur Jóhann óheflaður um landið og þá voru áhorfendur stundum að mæta með Pappírs Pésa á sýninguna. Spjöldin leynast öll einhvers staðar.“

Pétur segist oft fá spurningar þegar hann sækir son sinn í skólann. „Krakkarnir spyrja mig oftast að því hvort ég eigi Hagkaup og hvort ég sé enn að vinna þar og þegar ég svara neitandi, þá spyrja þeir af hverju ég hafi hætt. Þið verðið bara að spyrja Hagkaup að því.“

Er leyfilegt að gera grín að öllu? Sem dæmi þá hafa uppistandarar í Bandaríkjunum fengið mikla gagnrýni á sig fyrir að gera grín að minnihlutahópum.

„Já ef mér finnst eitthvað fyndið þá nota ég það en ég er fljótur að henda því út ef það fellur í grýttan jarðveg. Sem betur fer hef ég ekki lent oft í því enda er ég ekki að reyna að stuða eða vera sjokkerandi með mínu gríni. Ég reyni yfirleitt að forðast að fjalla um viðkvæm málefni og minnihlutahópa. Ég er meira bara að taka fyrir daglegt líf, það sem fólk er að gera og velkjast í. Reyna að sjá kómísku og gleðilegu hlutina í þessum daglegu verkefnum sem við venjulega fólkið erum í og hvað við getum gert til að gera þetta skemmtilegra, mér finnst oft gaman að rýna í það. Ég þrífst mest á því að gleðja og það er alltaf lokatakmarkið hjá mér.“

Pétur Jóhann Sigfússon Mynd / Hallur Karlsson

Hefur flest komið upp í hendurnar á þér? Já eiginlega, þetta er svolítið þannig, ég hef verið ótrúlega heppinn. Ég hætti 1. júlí hjá Íslenska útvarpsfélaginu (nú Sýn) þar sem ég hef verið frá 1999. Ég hef alltaf haft einhvern stöðugleika en þetta er ekki svo mikill munur að vera sjálfstæður, þar sem ég hef alltaf verið pínulítill einyrki, frjálsræðið núna er samt mun meira.“

Gætirðu farið í 8-16 vinnu á skrifstofu bara svona við að raða pappírum? „Nei ekki í að raða pappírum, vinnan yrði helst að vera við eitthvað skapandi. Maður skoðar alltaf allt sem kemur upp, 8-16 skapandi vinna, já, já allan daginn klár í hana. Ég held ég muni alltaf rembast við það að skapa eitthvað.“

Líkt og áratugirnir tveir hefur viðtalið flogið áfram og Pétur þarf að rjúka á næsta stað. „Er klukkan orðin hálf? Vá maður, þetta er fljótt að líða, er einhver fyrirsögn í þessu, hver verður fyrirsögnin?“ spyr hann blaðamann, sem er enn ekki búinn að ákveða hana. „Það gæti líka verið fyrirsögnin: „Hver verður fyrirsögnin, spurningarmerki.“ Annars er ég náttúrlega algjörlega skoðanalaus, oftast, það er hrikalegt.“

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -