Laugardagur 28. desember, 2024
-1.4 C
Reykjavik

Vala Matt: „Ég vil frekar vera þreytandi jákvæð og bjartsýn en eyðileggjandi neikvæð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmiðlakonan dásamlega Valgerður Matthíasdóttir, eða Vala Matt, eins og hún er iðulega kölluð er undir Stækkunargleri Mannlífs þessa vikuna.
Vala er mikill fagurkeri og hefur löngum verið þekkt fyrir að vera afar smekkleg og smart. Það skal því engan undra að hún hafi lokið mastersprófi í húsaarkitektúr við Konunglegu dönsku Listaakademíuna.
Undanfarið hefur Vala prýtt skjái landsmanna í þættinum Ísland í dag, sem notið hefur mikilla vinsælda.
Mannlíf komst að því að Vala er vinnualki, hana dreymir um að geta búið með annan fótinn í Kaupmannahöfn og hún hefur alltaf reynt að nýta sér jákvæð gildi Pollýönnu.

Fjölskylduhagir? Fráskilin. Á eina dóttur og eina fósturdóttur og fjögur barnabörn.

Menntun/atvinna? Masterspróf, MA, sex ára nám í húsaarkitektúr við Konunglegu dönsku Listaakademíuna í Kaupmannahöfn. En ég hef mest unnið við fjölmiðlastörf undanfarna áratugi og þá bæði í sjónvarpi, útvarpi og prentmiðlum.

Uppáhalds sjónvarpsefni? Íslensk sjónvarps framleiðsla ýmis konar, bæði á léttu efni og alvarlegra. Og þátturinn Ísland í dag á Stöð 2 er í mestu uppáhaldi hjá mér því hann sameinar þetta svo snilldarlega.

Leikari? Af erlendum leikurum er til dæmis breski leikarinn Anthony Hopkins í miklu uppáhaldi. Ég tók einu sinni sjónvarps viðtal við hann sem er mér ógleymanlegt því hann opnaði sig svo ótrúlega og var svo persónulegur og einlægur. Og hér á Íslandi er ein besta leikkona landsins án efa hin margverðlaunaða Edda Björgvinsdóttir sem hefur sannað sig bæði sem grín og drama leikkona á heimsmælikvarða. En auðvitað væri hægt að nefna mun fleiri.

- Auglýsing -

Rithöfundur? Svo margir í uppáhaldi, en af erlendum höfundum sem höfðu áhrif á mig sem ungling eru til dæmis Ernest Hemingway og John Steinbeck í miklu uppáhaldi. Og W. Somerset Maugham er mér mjög kær. Ég las bækurnar hans þegar ég var yngri og ég grét yfir þeim mörgum og þær kenndu mér svo margt um mannlegt eðli. Svo er Eleanor H. Porter ein af mínum uppáhalds höfundum því hún skrifaði bókina sem hafði mest áhrif á mig í æsku, Pollýönnu. Og ég hef reynt að nota hennar jákvæðni trix alla mína ævi. Sem hefur þó stundum reynst mér erfitt hér á þessari eyju þar sem fuss og svei og neikvæðni hefur oft þótt fínna. En ég veit að það eru þónokkrir þekktir sálfræðingar sem nota hennar heimspeki. Ég á marga uppáhalds íslenska höfunda en vil ekki gera upp á milli þeirra og það væri of langt mál að telja þá upp.

Bók eða bíó? Hvoru tveggja. Ég er alin upp af kennurum og skólastjórnendum þar sem bækur voru uppi um alla veggi og bókum haldið að okkur systkinum alla bernskuna, þannig að ég elska bækur. Og ég er sjálf með bækur um allt. En svo er kvikmynda listformið svo stórkostlegt og getur hrifið mann og snert á svo margan hátt.

Besti matur? Alltaf þegar ég hef verið spurð að þessu nefni ég alltaf fyrst humar en svo hafa risarækjur nú bæst við og eru þær alveg að slá út humarinn. Miðjarðarhafs matur er í miklu uppáhaldi. Ég elska indversk og ítölsk krydd sem gera allan mat betri. Svo finnst mér sigin grásleppa algjört lostæti.

- Auglýsing -

Kók eða Pepsí? Ég er hætt að drekka gos nema til hátíðabrigða. Elska að drekka sódavatn. Og náttúrlega íslenska vatnið sem er best í heimi.

Fallegasti staðurinn? Íslensk náttúra í dásamlegri kyrrð þar sem ég heyri aðeins fuglasöng í Lóunni, því sú upplifun fær mig til að anda djúpt og upplifa svo mikla innri ró.

Hvað er skemmtilegt? Svo margt. Hlátur til dæmis. Það sem ég elska er að vera með fólki sem ég get hlegið með. Dætur mínar. Systkini. Vinir og vinkonur. Sem eru öll dúndur skemmtileg. Og svo vinagrúppan sem ég er í og hittist alltaf reglulega sem samanstendur af skemmtilegasta fólki landsins, þeim Eddu Björgvins, Guðnýju Laxness, Röggu Gísla, Diddú og Bergþóri Páls og Alberti Eiríks. Dýrmætt að vera með vel gefnu og skemmtilegu fólki, bæði fjölskyldu og vinum.

Hvað er leiðinlegt? Streitan sem ég kem mér alltaf í og ég hef verið að kljást við í svo mörg ár.

Hvaða flokkur? Sá flokkur sem berst harðast fyrir lítilmagnann í þjóðfélaginu og þá sem hafa minnst milli handanna og eiga erfitt. Og sá flokkur sem berst einnig fyrir því að koma auðlindum sjávar í eigu og forsjá þjóðarinnar.

Hvaða skemmtistaður? Ég elska að fara á kaffihús og veitingastaði með skemmtilegu fólki. Og ég myndi klárlega flokka það undir skemmtistaði. Góður félagsskapur og dásamlegur matur er eitt af því skemmtilegasta sem ég upplifi.

Kostir? Ég reyni að leita uppi skemmtilegt, vel gefið og mannbætandi fólk og gleði og miðla því til sem flestra í gegnum þá fjölmiðla sem ég hef unnið á. Ég hef oft sagt að ég vil frekar vera þreytandi jákvæð og bjartsýn en eyðileggjandi neikvæð. Og svo mega menn bara fussa og sveia yfir því.

Lestir? Þeir eru margir. En ef ég nefni nokkra, þá á ég til dæmis stundum erfitt með að „konfrontera“ fólk og segja upphátt þegar mér mislíkar eitthvað sem fólk segir eða gerir og mér sárnar og ég byrgi það þá inni sem er alls ekki hollt. Svo er ég of mikill vinnualki og það hefur haft slæm áhrif á svo margt í mínu lífi.

Hver er fyndinn? Svo margir. Erfitt að nefna einn. Húmor gerir lífið betra og er einnig eitt af því sem ég hef sótt mikið í gegnum lífið til þess að gera erfiða tíma auðveldari. Og ég hef kynnst frábæru fólki sem kann að sjá spaugilegu hliðar lífsins og það er mér alveg ómetanlegt. Og svo er nauðsynlegt að hafa húmor fyrir sjálfum sér. Þess vegna hef ég alltaf hlegið hæst sjálf þegar ég hef verið tekin fyrir í Áramótaskaupinu.

Hver er leiðinlegur? Neikvæða liðið sem þolir ekki hlátur og gleði. Og sem ég kalla harðlífisliðið.

Trúir þú á drauga? Nei. En ég hef upplifað yfirnáttúrulega hluti sem erfitt er að útskýra.

Mestu vonbrigðin? Að missa föður minn og bróður, því þeir létust fyrir aldur fram.

Hver er draumurinn? Að geta í framtíðinni búið með annan fótinn í Kaupmannahöfn þar sem Tinna dóttir mín og strákarnir hennar búa.

Mesta afrek sem þú hefur unnið á þessu ári? Að vinna með flottum hópi fjölmiðlafólks, þeim Sindra Sindra, Evu Laufeyju, Sigrúnu Ósk og Frosta Loga í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2. Þar er fjallað um allt sem er mannlegt og áhugavert. Er mjög stolt af þeim þætti. Og sýna áhorfstölurnar að þátturinn er að snerta við fólki og það þykir mér vænt um.

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? Nei alls ekki. Það er svo margt í pípunum að það hálfa væri nóg.

Manstu eftir einhverjum brandara? Man eftir einum núna en það þarf helst að segja hann upphátt til að hann virki, en ekki skrifa hann á blað. En hann er svona og er frá Eddu Björgvins…Besta „pick up“ línan „Getur þú nokkuð lánað mér 5000 kall svo ég geti boðið þér uppá glas?“ Er hlæjandi núna við að rifja hann upp. Óborganlegt þegar Edda segir hann með leikrænni snilld.

Vandræðalegasta augnablikið? Þau eru svo mörg en það þarf að heyra þeim lýst upphátt og helst leika þau með skemmtilegum tilþrifum.

Sorglegasta stundin? Þegar ég hef orðið fyrir ástvinamissi.

Mesta gleðin? Að vera með þeim sem ég elska. Og vita að þau séu heil heilsu og hamingjusöm. Og að fá hlátursköst. Það jafnast ekkert á við það að hlæja. Náttúrulegt morfín líkamans, endorfínið streymir við það um allan líkamann með ólýsanlegri vellíðan.

Mikilvægast í lífinu? Að vera jákvæð, láta gott af sér leiða og reyna að finna gleði og innri ró eins oft og hægt er.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -