Árið 2015 opnaði söngvarinn, Valdimar Guðmundsson, sig í færslu á samfélagsmiðlum um vandamál sem hrjáðu hann. Færslan var afar persónuleg og vakti mikla athygli, en þar talaði Valdimar um að vera í ofþyngd, sem stefndi í að verða afar hættuleg og lýsti framtaksleysi sínu sem birtist í hálfgerðri einangrun.
Í viðtali í Fréttablaðinu í dag segist Valdimar hafa verið, síðan færslan var skrifuð, mjög meðvitaður um þessi vandamál sín og segist reyna stefna í áttina frá þeim.
„Ég var ekki beint óhamingjusamur, dapur eða sokkinn í þunglyndi. Heldur var ég orðinn svo þreyttur á þessu,“ segir Valdimar um líðan sína á þessum tíma. „Mér fannst ég vera fastur og þetta væri ástand sem ég þyrfti að breyta.“
Þarna bjó Valdimar einn og segist hann hafa verið fastur í vondum venjum, farið sjaldan út á meðal fólks og þyngst frekar hratt. „Mér fannst ég þurfa að gera eitthvað því annars yrði ég sennilega ekki mikið lengur hér. Þessi barátta er vitaskuld ekki búin og verður það sennilega aldrei. Mesta lykilatriðið er að halda sér virkum,“ segir hann. „Á þessum tíma gat ég verið heima hjá mér og hangið í tölvunni vikum saman, þangað til að eitthvað kom upp sem ég varð að gera.“
Nú, sex árum síðar, hefur margt breyst í lífi Valdimars og segist hann afar hamingjusamur í dag. „Ég held mér virkum og jákvæðum og mér finnst ég vera kominn út úr þessum vítahring sem ég var í. Ég verð að vera á tánum því að ég veit aldrei hvenær ég gæti fallið aftur í hann. En ég hef ábyggilega aldrei verið hamingjusamari en undanfarið ár.“
Valdimar á nú kærustu og lítinn dreng, sem fæddist 19. júlí síðastliðinn. „Það fylgir því ótrúlegur kraftur að eignast kærustu og barn. Það er heldur betur bensín á tankinn.“
Nóg að gera í tónlistinni
Valdimar segist heppinn að fá að starfa við það sem hann elskar og er nóg að gera hjá honum. Hljómsveitin hans, Valdimar, var að klára tónleikaferð um landið og vonast til að geta haldið tíu ára útgáfuafmælistónleika næstkomandi apríl, sem þeir þurftu að fresta vegna covid-19. „Við stefnum á að halda þá í Eldborg í apríl, ef það kemur ekki enn eitt veiruafbrigðið, og þetta verða þá í raun og veru tólf ára afmælistónleikar,“ segir Valdimar og bætir því við að sveitin sé byrjuð að vinna nýtt efni og því fari fimmta platan líklegast að líta dagsins ljós.
Auk þess stofnaði hann ásamt gítarleikurunum Ásgeiri Aðalsteinssyni, sem einnig er í hljómsveitinni Valdimar og Ómari Guðjónssyni, nýlega hljómsveitina LÓN. Er sú hljómsveit langt komin með upptökur á sinni fyrstu plötu og því óhætt að segja að nóg sé framundan af nýrri og spennandi tónlist.